Laugardagur, 1. mars 2008
Veggjald í Vaðlaheiðargöngum
Jarðgöng verða grafin undir Vaðlaheiði og gott er nú það. Veggjald á að standa undir framkvæmdakostnaði að hluta og gott er það nú líka. Samfylkingin hafði á stefnuskrá fyrir þingkosningarnar í fyrra að Hvalfjarðargöngin skyldu þjóðnýtt, þ.e.a.s. segja að ríkið tæki yfir rekstur ganganna og veggjaldið yrði þar með lagt af. Slíkt ráðlag hefði auðvitað gengið að þeirri hugmyndafræði dauðri að einkafyrirtæki taki að sér framkvæmd og rekstur samgöngumannvirkja, sem komast ekki á dagskrá hins pólitíska valds í landinu, og fjármagni með gjöldum vegfarenda.
Nú berast fréttir af því að Vaðlaheiðargöng séu komin á dagskrá og ætlunin sé að fjármagna þau að miklu leyti með veggjöldum. Sjálfstæðismenn í ríkisstjórn gerðu það að skilyrði fyrir stuðningi við framgöngu málsins að veggjöld yrðu í Vaðlaheiðargöngum og þannig verður það. Vissulega eru það pólitísk tíðindi að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar skuli þannig staðfesta pólítískt prinsipp um einkaframkvæmdir í samgöngumálum sem þýðir um leið að veggjaldið blívur í Hvalfirði, Vaðlaheiði og trúlega víðar. Gott er nú það.
Auðvitað væri hið besta mál að losna við að borga veggjald en án þess væru engin Hvalfjarðargöng í dag og án veggjalds kæmu heldur ekki Vaðlaheiðargöng innan tíðar. Ég borga heilar 230 krónur fyrir ferðina undir Hvalfjörð, sem er álíka og 2 bensínlítrar kosta, ef ég dæli sjálfur á geyminn. Ég vil borga gjald fyrir að aka undir Hvalfjörð, undir Vaðlaheiði og um Sundabraut því þannig komast nauðsynleg verkefni á dagskrá fyrr en ella.
Miðvikudagur, 30. janúar 2008
Þorri blótaður að svarfdælskum sið
Það var þess virði að berjast um hríð, fjúki og hálku um heiðar og hæðir til að komast á þorrablót Svarfdælinga um helgina og heima aftur, þó svo heimilisbíllinn héldist ekki á veginum á Holtavörðuheiði á norðurleið. Betur fór þar en á horfðist en giska ljúft var að stinga úr brennivínsstaupinu, sem þorrablótsnefndin skenkir gestum við komuna á samkomuna, þegar komið var á áfangastað með millilendingu í heita pottinum á Grund. Ómögulegt er að lýsa þorrablóti í Svarfaðardal fyrir ókunnugum þannig að allt komist til skila sem nauðsynlegt er að halda til haga í frásögninni. Þetta er bara nokkuð sem verður að upplifa til að njóta og skilja.
Þegar þorrablótsnefndin var skipuð fyrir einu ári mátti augljóst vera að söngatriði blótsins í ár yrðu í góðu lagi og rúmlega það. Ekki þurfti nú annað en horfa til þess að þarna var hinn stórbrotni kórstjóri og tónskáld Guðmundur Óli og þarna var helmingur Tjarnarkvartettsins sáluga, Kristjana og Kristján á Tjörn (þvílíkt og annað eins að nú skuli pólitíkusar í Ráðhúsi Reykjavíkur hafa stolið þessum svarfdælska merkimiða og þykist vera tjarnarkvartett! Það er svona álíka og að Árni Johnsen færi að kalla sig The Beatles). Söngurinn á blótinu var í fullu samræmi við væntingar og eina aðfinnsluefnið er að hafa ekki fengið tónlistaratriðin á geisladiski við útganginn til að geta notið þeirra aftur og aftur.
Sölvi á Hreiðarsstöðum er hinn ódauðlegi fréttaþulur Svarfdælinga og þylur annál ársins yfir samkomunni. Síðastliðið ár var hreint ekki viðburðasnautt frekar en þau hin fyrri og helstu viðburðir voru túlkaðir með leikrænum tilþrifum. Þar bar hæst frásögnina af miðilsfundi kvenfélagskvenna þegar rödd að handan leiðbeindi bændum á Hóli um hvar byggja skyldi nýtt fjós á landareigninni. Mögnuð var líka frásögn af vinnuferð starfsmanna Steypustöðvar Dalvíkur fram í Steindyr þar sem þeir söguðu dyragat á steyptan fjósvegg og afhausuðu í leiðinni mjólkurkú sem múlbundin var við vegginn hinum megin. Ef rétt reynist er þetta fyrsti stórgripurinn á Evrópska efnahagssvæðinu sem felldur er með steinsög og jafnvel hefur verið orðað að skrá dauðdaga kýrinnar á Steindyrum í sjálfa heimsmetabók Guinnes. Steypustöðin yrði þá víðfræg og trekkti jafnvel að túrista. Auðvitað mætti hugsa sér að fara með hugmyndina alla leið og stofna til slátrunar með steinsög fyrir ferðafólk. Gestir Dalvíkinga á Fiskideginum mikla hafa séð með eigin augum mannhafið í kringum Reimar frá Hofsá þegar hann sveiflar sveðju og ristir hákarla í ræmur á bryggjunni eftir reglum kúnstarinnar. Færri kæmust líka að en vildu ef Hjörtur og félagar á Steypustöðinni tækju áskorun um að sýna heimaslátrun að hætti hússins á kaupfélagstúninu. Fjöldatúrismi malar gull og skapar umsvif. Hér væri komin búbót, vel þegin í hvaða byggðarlagi sem er og í raun ígildi mótvægisaðgerðar vegna samdráttar í þorskveiðum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 29. janúar 2008
Guðsmildi og spaug
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 25. janúar 2008
Sofandi embættismenn
![]() |
Óljós tilmæli varðandi skólahald |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Föstudagur, 12. október 2007
Nóbelsnefndin úti í skurði
Norska Nóbelsnefndin fer langt með að gera friðarverðlaun Nóbels að marklausu gríni með því að gauka þeim að fyrrum varaforseta Bandaríkjanna og nefnd hjá Sameinuðu þjóðunum. Viðurkenningin á heima hjá þeim sem eru í forystu í baráttu fyrir friði og mannréttindum í heiminum en ekki hjá atvinnumönnum í pólitísku froðusnakki - þó þeir séu milljarðamæringar og hafi haft kontór í Hvíta húsinu. Ákvörðun Nóbelsnefndarinnar er niðurlægjandi fyrir þá raunverulegu baráttumenn fyrir friði sem áður hafa fengið friðarverðlaun.
Hvað skyldi koma næst hjá liðinu í Nóbelsnefndinni? Tony Blair? Condi Rice? Angela Merkel? Yes - eða bara sjálfur friðflytjandinn George W. Bush? Það hafði hreint ekki verið vitlausara að velja einhvern úr þeim hópi en Al Gore.
Þriðjudagur, 9. október 2007
Friður í Viðey
Það skal játað hér og nú að mér fannst hugmynd Jókó um friðarsúlu í Viðey hallærisleg frá upphafi en komst á gagnstæða skoðun í kvöld. Þetta var sýnilega ljómandi fín samkoma í nefsteytunni á Sundunum. Jókó og Ringó í stuði og borgarstjórinn farinn að flytja út raforku alla leið til himnaríkis þar sem Lennon beið við hinn enda bláu súlunnar og stakk í samband. Lucy in the Sky Energy Invest. Þetta var býsna áhrifamikil stund, ekki síst fyrir gamlan stuðningsmann fallna bítilsins. Ég frestaði því meira að segja í nokkra daga að taka bílpróf forðum til að fá 9. október skráðan á skírteinið hjá sýslaranum á Akureyri. Afmælisdagur Lennons var sérstaklega valinn til að fá ökuréttindin uppáskrifuð.
Sjónvarpsstöðvarnar sendu báðar beint úr Viðey í kvöld. Stöð 2 byrjaði fyrr og hætti fyrr. Starfsmenn hennar náðu betur utan um viðburðinn en Sjónvarpið og voru úrskurðaðir sigurvegar í þessu kapphlaupi hér á heimilinu. Sjálf friðarsúlan skilaði sér líka ólíkt betur hingað í stofu í gegnum Stöð 2 en Sjónvarpið. Það var eins og blái liturinn í ljósinu teiknaði sig mun betur í mynd Stöðarinnar en keppinautarins. Undarlegt en satt.
Sjónvarpið fær prik fyrir viðtal við Þórarinn Eldjárn í lokin og sömuleiðis fyrir nærmyndir af uppsprettu ljóssins eftir að mannsöfnurinn grisjaðist að athöfn lokinni. Hins vegar fær Sjónvarpið marga mínusa í kladdann fyrir að klippa ruddalega á upprifjunarmynd um afmælisbarnið Lennon til að koma Kastljósinu í loftið úr myndveri í Efstaleiti. Og til hvers? Til þess að senda út viðtal við mann sem var vitni að því þegar foringi Queen, Freddy Mercury, geispaði golunni í nóvember 1991! Það var þá tímasetning fyrir slíkt og þvílíkt umfjöllunarefni! Þetta uppátæki er dónaskapur gagnvart minningu Lennons og gagnvart athöfninni sem var helguð honum í Viðey. Vanhugsað, asnalegt og í alla staði óviðeigandi.
Þriðjudagur, 9. október 2007
Leiðréttingarbúnaður óskast handa fjölmiðlamönnum og verkalýðsforingjum
Ég heyrði í kjaftaþætti á ljósvakanum spyril og verkalýðsforkólf tala um ,,leiðréttingu" launa og kjara eins og ekkert væri sjálfsagðara. Venjulegt fólk talar um að kaup hækki eða lækki eða að kjör batni eða versni, svona eftir atvikum. Nú eru hins vegar komnar kynslóðir fjölmiðlamanna og verkalýðsforingja sem þekkja hvorugt og vilja í staðinn ,,leiðrétta" alla skapaða hluti. Þessi leiðréttingarárátta náði nýjum hæðum á dögunum þegar sjálft Starfsgreinasamband Ísland boðaði til þings undir kjörorðunum ,,Leiðréttum misréttið"! Á þeim bæjum virðast með öðrum orðum vera til fyrirbæri sem kallast annars vegar rétt misrétti og hins vegar rangt misrétti. Auðvitað þykir skárra að misréttið sé ,leiðrétt" svo hægt sé að búa við það. Ætli verkalýðsforingjar fyrri kynslóða hefðu nú ekki kosið að hafa kjörorðin einfaldlega ,,Burt með misréttið!" eða eitthvað í þeim dúr?
Þetta leiðréttingarbull er tiltölulega nýlega fundið upp á ritstjórnum og verkalýðskontórum. Í tilefni af því að kjarasamningar eru framundan væri óskandi að þeir sem véla um kaup og kjör, og þeir sem segja okkur tíðindi af samningavettvangi, reyndu nú að skerpa hugsun sína og máltilfinningu þannig að aldrei heyrðist framar notað hugtakið ,,leiðrétting" í tengslum við kaup og kjör í landinu. Og því síður létu menn sér detta í hug að búa við leiðrétt misrétti.
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar