Landbúnaður er að sjálfsögðu sjávarútvegur þegar að er gáð

Alltaf hef ég nú vitað það innst inni að í raun væri ég kominn af sjávarútvegsgreifum í Svarfaðardal en ekki einhverjum bóndakörlum og –kerlingum. Það hefur bara aldrei verið hægt að höndla málið almennilega fyrr en nú, þökk sé ríkisstjórninni. Nú verður ekkert um málið deilt og ég þarf engin DNA-próf til að staðreyna upprunann. Ríkisstjórnin ætlar sum sé í vetur að flytja landbúnaðarráðuneytið með manni og mús inn í Sjávarútvegshúsið að Skúlagötu 4. Þar eru fyrir á fleti sjávarútvegsráðuneytið, Hafró og Matvís, sem áður var Rannsóknastofnun sjávarútvegsins. 

Þarna á landbúnaðarráðuneytið augljóslega heima og þó fyrr hefði verið. Bændur eru jú alltaf að bauka við að búa til eitthvað handa fólki að éta, rétt eins og þeir sem sækja sjó og vinna úr sjávarfangi. Svo eru kvótar bæði til sjós og lands, svo skylt er nú skeggið hökunni í Stjórnarráðinu. Augljóslega eru bullandi möguleikar á samlegðaráhrifum, eins og það heitir á fínu máli rekstrarbransans, fólgnir í því að innlima búsorgir til sveita í sjávarútveginn. Þeir hafa svo breið bök við sjávarsíðuna. 

Og það sem meira er. Nú er alveg rakið að láta landbúnaðarráðuneytið taka á sig óháða fiskveiðiráðgjöf fyrir þjóðina. Margir merkir pólitíkusar hafa réttilega bent á að  fiskifræðingarnir á Hafró séu svo ofboðslega háðir að þeim hafi tekist að týna megninu af þorskinum í sjónum og ég veit ekki hvað. Einhverjir þeirra vilja útnefna Háskóla Íslands til að veita óháða ráðgjöf handa óháðum pólitískum fyrir óháða fiskistofna. Mér geðjast betur að því að þetta nýja ráðuneyti í Sjávarútvegshúsinu fái svona yfirfrakkahlutverk og lyfti klabbinu öllu upp á hærra plan. Næsta þorskrall nær þá alveg upp í kálgarða landsmanna, sem er löngu tímabært og sjálfsagt. Aldrei að vita hvar guli skrattinn felur sig.


Skífan og Smekkleysa fá falleinkunn

Ráðamenn Skífunnar, sem er í raun og veru einokunarbúlla á sínu sviði markaðarins, hafa ekki rænu á að ná í hús tónleikaplötu með Jethro Tull sem gefin var út í Bretlandi 21. ágúst síðastliðinn. Sú heitir Live at Montreux og hefur að geyma umtalaða framgöngu Tull á djasshátíðinni í Montreux, gefin út bæði á hljómdiski (CD) og mynddiski (DVD). Ég fór að spyrjast fyrir um þessa diska í Skífunni í lok ágúst og síðan fram eftir september en greip alltaf í tómt. Síðast í gær varð ungmenni í Skífuverslun við Laugaveginn fyrir svörum og sagðist kannast við að ,,alltaf væri verið að spyrja um þennan disk" en engin merki voru samt sjáanleg í tölvukerfi fyrirtækisins um að nokkur maður hreyfði legg eða lið til að verða við óskum kúnnanna sem ,,alltaf eru að spyrja..."! Hvers konar andskotans bissnessmenn eru þetta!?

Smekkleysa stendur sig ekkert betur, nema hvað þar kannaðist afgreiðslumaðurinn strax við Jethro Tull. Börnin við afgreiðslu í Skífunni virðast hins vegar aldrei hafa heyrt minnst á þetta  band og hugsanlega innkaupastjórar Skífunnar ekki heldur. Og þá þarf ekki að minnast heldur á nýlega sólóplötu gítarleikarans í Tull, Martins Barre, sem fékk fína dóma ytra. Þann góða mann hefur enginn maður heyrt nefndan í íslenskum plötusölubransa, hvað þá á plötuna hans, Stage Left.

Nú er það svo að hvorki Skífan né Smekkleysa koma í veg fyrir að vér áhangendur Jethro Tull komum oss í gírinn fyrir tónleika helgarinnar í Háskólaskólabíói. Það er nóg til af fínu efni frá bandinu í plötuskápum hér og þar en mikið ofboðslega er það nú léleg frammistaða að geta ekki drullast til að hafa það nýjasta á boðstólum frá svona hljómsveit sem leggur leiðina hingað til lands!

PS. Glimrandi viðtal við Ian Anderson í Kastljósinu í gærkvöld + ágætis tónlistarinnslag í framhaldinu. Lofaði góðu....


Myndi Sjónvarpið stokka líka upp í Rolling Stones?

Guði sé lof fyrir að Rolling Stones eru ekki á samningi hjá Sjónvarpinu í vetur. Þá hefði allt eins mátt búast við að Ron Wood þyrfti að taka pokann sinn í skiptum fyrir einhvern yngri og frískari spilara, jafnvel konu. Mick hefði hins vegar lifað af verktakasamninginn sinn og trúlega Keith líka. Meðal annarra orða: trúir því einhver lifandi maður að Sjónvarpið geti stokkað upp í Spaugstofunni án þess að Spaugstofuliðar sjálfir geti rönd við reist?!

Spaugstofan verður ekki söm eftir að Randver er horfinn fyrir borð. Það er óhjákvæmilegt að fyrrverandi félagar hans og Sjónvarpið segi söguna alla. Ekkert spaug er að sjá á bak góðum róna og stofufélaga um helgar í tvo áratugi.


Lömbin jarma, lömbin þagna

Tjarnarbræður þeysiríða til TunguréttarÞað var engu líkara en þeir Tjarnarbræður kæmu þeysiríðandi beint út úr Gísla sögu Súrssonar þegar þeir nálguðust Tungurétt í Svarfaðardal á sunnudaginn, fylgjandi rekstrinum heim. Senan sem ég slysaðist til að fanga var í það minnsta einhvers konar dramatík sem kallaði upp í hugann minningar frá Útlagamynd Ágústs Guðmundssonar. Hraðbrokkandi hross, Þórarinn ungi reffilegur með fókusinn á takmarkinu en Hjörleifur í öðrum heimi, baðandi út öngum með afmyndaðan andlitsbjór. Þetta býður upp á ýmsa túlkunarmöguleika með frjálsri aðferð.

Fátt annað bar til óvæntra tíðinda daginn þann. Svarfdælingar drógu lömbin sín í dilka eftir bókinni og voru snöggir að. Svo létu þeir pela ganga eftir óskrifuðum reglum sem hæfa þessari samkomu og flokkast undir helgileik. Keyptu kaffi og pönnukökur af kvenfélaginu og sigu svo heim á leið. Enginn sofnaði á milli þúfna. Menn eru orðnir svo penir í réttum í seinni tíð. Stemningin var hins vegar ósvikin. Hún geymist á hluta á myndunum sem hér er vísað til. Kíkið á þær....


Hefur ekki Þjóðkirkjan skoðun á þessu líka?

Þjálfarar nenna sjálfsagt ekki að eltast við þetta apparat hjá KSÍ sem úthlutar þeim ávítum og sektum á báðar hendur. Það er eitthvað til sem heitir tjáningarfrelsi og er hluti af stjórnarskrárbundnum mannréttindum. Ég sem hélt að stjórnarskráin gilti líka fyrir íþróttahreyfinguna en það er víst ekki svo. Ég hlustaði á ummæli allra þessara þjálfara og þar var ekkert sagt sem réttlætir kjánalæti á borð við svona úrskurð. Nákvæmlega ekki neitt. Það rifjaðist upp fyrir mér að núna í ágúst tapaði Stabæk fyrir Rosenborg í norsku úrvalsdeildinni og landi vor í Stabæk, Veigar Páll Gunnarsson, var afar súr eftir leikinn og taldi einn varnarmanna Þrándheimsliðsins hafa fengið að haga sér að vild inni á vellinum og brjóta á sér og öðrum án þess að fá tiltal frá dómaranum. Orðrétt sagði Veigar Páll í viðtölum eftir leikinn: De må jo være bestevenner og hélt því þannig beinlínis fram að skýring á tómlæti dómarans væri sú að þeir væru perluvinir, viðkomandi leikmaður og dómari leiksins!

Þessi ummæli leikmannsins eru margfalt alvarlegri en það sem þjálfararnir íslensku létu út úr sér á dögunum en norska knattspyrnusambandið gerði samt enga athugasemd við þau. Það er með öðrum orðum hærra til lofts og víðara til veggja í íþróttahreyfingu Noregs en Íslands að því er tjáningarfrelsi varðar. Eiginlega er ekki annað eftir en að æðstu máttarvöld Þjóðirkjunnar fari að hafa líka skoðun á orðbragði knattspyrnuþjálfara. Slíkt er álíka gáfulegt tilhugsunar og það að kirkjunnar menn telji sig þurfa að kvaka yfir  sjónvarpsauglýsingu þar sem nokkrir sjampóvíkingar maula brauð við langborð og kjafta í síma. Við búum í Undralandi. Það vantar bara Lísu.


mbl.is Guðjón og Magnús ávítaðir og sektaðir af KSÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laukur Krossaættar sökkti Fylki

Atli Viðar Björnsson, Svarfdælingur af Krossaætt, var of stór biti fyrir Fylki að kyngja í gærkvöld og eftir sátu/stóðu Árbæingar með sárt ennið. Úrslitin voru afar sanngjörn, Fylkismenn spiluðu ekki illa en Fjölnir var bara miklu grimmari, ákveðnari og sókndjarfari. Það er með ólíkindum að Fjölnir skuli bara vera í þriðja sæti fyrstu deildar, þetta lið hefði klórað hvaða úrvalsdeildarliði sem nefnast kann í svona ham, líka FH og Val. Og með ólíkindum að FH-ingar telji sig ekki hafa not fyrir liðsmenn sína sem eru þar innanborðs að láni úr Hafnarfirði. Maður leiksins af Krossaætt sendir þjálfara FH kveðjur í Mogganum í dag og sér ekkert því til fyrirstöðu að FH-ingarnir í Fjölni fái að spila gegn FH í úrslitum. Vonandi að það gangi eftir. FH er annars með lánsmenn hingað og þangað. Fæsta langar þá aftur heim í móralinn sem þar ku ríkja. En hvernig sem fer í úrslitunum er Fjölnir nú þegar sigurvegari bikarkeppninnar í ár. FH breytir engu um það í úrslitaleiknum.
mbl.is Fjölnir úr 1. deild í bikarúrslitin gegn FH
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sextíu og fjórir flugliðar - einn fréttamaður

Það stefnir auðsjáanlega í að uppsögn eins fréttamanns á Stöð tvö fái meiri fjölmiðlaumfjöllun en uppsagnir sextíu og fjögurra flugliða hjá Icelandair. Fjölmiðlamenn forgangsraða málum að sjálfsögðu í samræmi við mikilvægi. Og geti þeir talað hverjir við aðra eða hverjir um aðra, ja þá er slíkt mál málanna. Að sjálfsögðu. Stjórnendur fyrirtækja ráða og reka starfsmenn, af ýmsum ástæðum. Þannig er það nú bara. Mig varðar ekkert um hverjar fréttastjórar vilja hafa í vinnu hjá sér og hverja ekki. Þeir um það. Ég sá hins vegar á helsta viskubrunni mínum, mbl.is, að fráfarandi fréttamaður Stöðvarinnar tengdi uppsögn sína við að nýr fréttastjóri þar á bæ hefði áður verið upplýsingafulltrúi í forsætisráðuneytinu. Orðrétt: „Ráðning hans leggur trúverðugleika fréttastofunnar í rúst og bendir til þess að menn kunni ekki að umgangast fréttastofur.”

 Hér fer ekkert á milli mála um álit og meiningu. Ég sem hélt að menn yrðu í þessu sem öðru dæmdir af verkum sínum í nútíð frekar en einhverjum öðrum verkum í þátíð. Eðli máls samkvæmt eru fréttir Stöðvar tvö býsna sýnilegar almenningi öllum og ef nýi fréttastjórinn flytur með sér banvænar pólitískar klyfjar þarna inn á gafl, kemur það nú fljótt í ljós og springur bara framan í hann sjálfan og batteríið allt. Svo man ég ekki betur en hann hafi nú í millitíðinni stýrt Íslandi í dag í um þónokkurt skeið og tekið þátt í að gera það að prýðisgóðum þætti.

Hérlendis er það viðhorf lífseigt að þeir, sem hafa komið nálægt stjórnmálastarfi af einhverju tagi, flokkist undir farsóttarsjúklinga og skuli sæta vist í einangrunarkví á vinnumarkaði að loknu þessu æviskeiði sínu. Mörg dæmi eru meira að segja um að fyrrverandi alþingismönnum gangi illa eða alls ekki að fá vinnu! Þetta er þveröfugt í grannríkjum þar sem ég þekki þokkalega vel til og þar eru fyrrverandi pólitíkusar meira að segja eftirsóttir, líka til fjölmiðlastarfa. Þar er nefnilega litið á stjórnmálastarfið sem reynslu sem geti verið dýrmæt og nytsamleg á öðrum starfsvettvangi. Í íslenskum fjölmiðlaheimi virðist hins vegar á stundum sem lífs- og starfsreynsla af öðrum vettvangi sé til hreinnar bölvunar. Og helst að fjölmiðlungarnir séu sem næst barnsaldri og rétt skriðnir af skólabekk.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband