Heitum á Sibbu!

5.juni_vidskiptavinirGlitnir tefldi Sibbu frænku fram á fréttamannafundi Reykjavíkurmaraþonsins í gær, þar sem Íþróttabandalag Reykjavíkur og bankinn kynntu hvernig staðið verði að hlaupinu í ár, á afmælisdegi Reykjavíkur 18. ágúst. Glitnir er altsvo bakhjarl hlaupsins og heitir nú á bæði starfsmenn sína og viðskiptavini að velja sér vegalengd við hæfi og góðferðarfélag að vild. Bankinn ætlar svo að borga viðkomandi félagi 3.000 krónur fyrir hvern hlaupinn kílómetra starfsmenns og 500 krónur fyrir hvern kílómetra sem viðskiptavinurinn hleypur. Og Glitnir viðraði sem sagt fjórar konur úr viðskiptamannahópi sínum sem ætla að hlaupa og láta gott af sér leiða. Sibba ætlar í hálft maraþon til stuðnings Einstökum börnum, stuðningsfélagi barna með sjaldgæfa alvarlega sjúkdóma. Þannig skilar hún félaginu 10.500 krónum en við hin getum svo lagt í púkkið með því að heita á hana í hlaupinu! Það er hægt að gera með því að skrá áheitin á heimasíðu Reykjavíkurmarþonsins, www.marathon.is.

Sibbu hefði svo sem ekki munað um að hlaupa þessa vegalengd tvöfalda og reyndar er hún nýkomin úr maraþonhlaupi erlendis, rétt einu sinni. Hún ætlar hins vegar að láta hálfa duga maraþonið duga í ágúst og tekur það meira sem upphitunarskokk í kjölfar sumarleyfis.....  Svo öllu sé til skila haldið er Sigurbjörg Eðvarðsdóttir dótturdóttir Sigrúnar Sigrtryggsdóttur, hálfsystur Ingibjargar ættmóður frá Jarðbrú. Og svo merkilega vildi nú til að frændi pistilsskrifara í föðurættina var svo fundarboðandi á vegum Glitnis í gær: Pétur Óskarsson af Göngustaðaætt, bróðir Steinunnar Valdísar, fyrrverandi borgarstjóra og nýbakaðs alþingismanns. Fréttamannafundurinn var því öðrum þræði áhugavert ættarmót Svarfdælinga og nærsveitamanna.


Bianco og sauðburður

531395981_2fb399aa05_mSauðburðurinn á Grund var kominn vel á veg þegar Álftlendingar tóku hús á bændum um Hvítasunnuna. Allir geta fengið að súpa á einhverju í útihúsum þar á bæ - með eða án túttu - hvort sem þeir eru heimalningar á fjórum fótum eða tvífætlingar að sunnan. Skýrslu um sauðburðinn með myndum er að finna nákvæmlega hér.

Kuldaskeiðsunnendur bænheyrðir

Þeir sem sífruðu mest í kosningabaráttunni á dögunum um nauðsyn þess að koma þyrfti hagkerfinu sem fyrst og hraðast niður undir kuldamark hafa verið bænheyrðir – að vísu á annan hátt en þeir töluðu fyrir þá. Hafró vill skera niður þorskveiðarnar um þriðjung og óhætt er að lofa því að hagkerfið kólnar í framhaldinu svo um munar ef eftir ráðleggingunum verður farið. Sérstakur unaður breiðir svo úr sér í Hafnarfjarðarbæ meðal andstæðinga álversins í Straumsvík. Alcan er að spá í að flytja allt álklabbið til Þorlákshafnar og þá verður á ný búsældarlegt í Hafnarfirði. Einkum og sér í lagi ef  allur þjónustuiðnaðurinn fylgir nú álverinu á flóttanum. Þá verður þenslulaust og glatt á hjalla í Firðinum og víðar. Víkingahátíð árið um kring.

Sérstök upplifun var að hlýða á mál mætra manna í hádegisfréttum Útvarpsins í dag þegar brugðist var við biksvartri fiskveiðiráðgjöf Hafró. Þar töluðu menn í einum kór um að þessi tíðindi væru nánast eins og þruma úr heiðskýru lofti og einhver undirmálsþorskur, sem datt út af Alþingi í kosningunum, vildi láta sjávarútvegsráðherrann sæta ábyrgð! Tæpast fjölgar nú þorskunum í sjónum við það.

Ekki fjölgar fiskunum í sjónum heldur við það eitt að hræra í sjálfu fiskveiðistjórnunarkerfinu, sem er hið klassíska hálmstrá að grípa í til að afvegaleiða umræðuna. Hins vegar mætti til tilbreytingar prófa að fara einfaldlega eftir því sem fiskifræðingar ráðleggja og sjá hvað gerist. Veiðarnar hafa nefnilega verið langt umfram ráðleggingar þeirra árum saman. Skyldi nú ekki vera að þar mætti leita skýringa á ástandinu?

Það sem meira er: Í vetur fóru sérfræðingar Hafró, með forstjórann í broddi fylkingar, í hringferð um landið og ræddu við sjómenn og útgerðarmenn um ástand og horfur. Boðskapurinn var eins skýr og hugsast getur. Ekkert í veiðiráðgjöf Hafró nú á því að koma mönnum í sjávarútvegi á óvart. Nákvæmlega EKKERT!  Það er því í meira lagi álappalegt að heyra hvern spekinginn um annan þveran þykjast koma af fjöllum, eins og nú sér verið að bera ný tíðindi á borð. Stjórnmálamenn, sjávarútvegsforingjar og fjölmiðlamenn, sem þannig tala, annað hvort létust ekki heyra eða vildu ekki heyra í vetur. Afar athyglisvert var svo að verða vitni að því að þetta mál var aldrei umræðuefni í endilangri kosningabaráttunni. Samt hefur legið kristaltært fyrir mánuðum saman að ný ríkisstjórn þyrfti að fjalla um stórfelldan niðurskurð þorskveiða strax á hveitibrauðsdögunum.


Bændur og Saga beygja sig í (klám)duftið

Ráðamenn Hótels Sögu ætlar að borga bókuðum gestum í mars, sem þeir skelltu svo á dyrum þegar á reyndi, milljónir króna í bætur til að sleppa við að tapa málinu fyrir dómstólum. Umræddur gestahópur var margumtalað fólk sem starfar í klámiðnaði í útlandinu og hugðist koma saman á Íslandi til að gera sér dagmun, eins og títt er um slíka hópa yfirleitt.  Mikil móðursýkisalda af séríslenskum toga reið þá yfir þjóðfélagið og voru þar í einum kór þessir sjálfskipuðu forræðishyggju- og siðgæslumenn, sem alltaf þurfa að vakta óbeðnir velferð okkar hinna, og svo velmeinandi fólk sem missti glóruna í moldviðrinu. Meira að segja Bændasamtökin, eigandi Hótels Sögu, duttu út af spori skynseminnar um stund og ákváðu að loka landinu fyrir þessum gestum sínum, sem nákvæmlega ekkert höfðu til saka unnið annað en að vinna við að búa til klámefni – efni sem er víst í miklu úrvali fyrir gesti á Hóteli Sögu í sjónvarpkerfinu þar.

Gott er nú að bændur búa vel og eiga nóga seðla en ætli væri nú ekki vænlegra fyrir þá að nota aurana sína í eitthvað annað en skaðabætur fyrir fólk sem þeir skella dyrum á af tilefnislausu? Það er annars þeirra vandamál en fróðlegt væri að sjá opinberlega siðareglurnar sem þetta bændahótel hlýtur að hafa til hliðsjónar þegar það pikkar út þá sem eru velkomnir til gistingar í hópi erlendra gesta.

Bændasamtökin og Hótel Saga fara illa út úr þessu máli, enda í samræmi við tilefnið.Toppurinn á þvælunni er svo það sem haft er eftir hótelstjóranum um helgina, þar sem reynt er að kenna borgarstjóranum í Reykjavík og öðrum stjórnmálamönnum um að Hótel Saga hafi lokað dyrum sínum á þessa erlendu gesti! „Það má spyrja sig að því hvort stjórnmálamenn eigi að blanda sér inn í svona umræðu með jafn afgerandi hætti og ýmsir gerðu,“ hefur Fréttablaðið eftir hótelsstjóranum. Ég held að stjórar Bændasamtakanna og Hótels Sögu eigi frekar að leita innan dyra hjá sér að ástæðum þess að þeir misstu niður um sig í þessu máli og þurfa að gjalda fyrir í reiðufé. Það er ódýrt og hallærislegt að vísa á blóraböggla úti í bæ, þó stjórnmálamenn liggi oft vel við höggi.


Af sektarlömbum og ekkifréttum af veitu

Stjórnarmyndunin fór eiginlega fram hjá mér vegna vinnuferðar austur á land og ég er þess vegna einungis viðræðuhæfur hvað ráðherrar vorir heita en ekki um hvernig hin og þessi ráðuneyti líta út eftir að hafa verið stokkuð upp. Því síður er ég viðræðuhæfur um stjórnarsáttmálann nema hvað ég heyrði á hlaupum í fréttum að meint stóriðjustopp væri ekkert stopp þegar að væri gáð. Það fannst mér heldur góðar fréttir. Og nú heyri ég ekki betur en stjórnarflokkarnir túlki hvor á sinn veg hvort Norðlingaölduveita hafi verið slegin af eða ekki.

Framsóknarmenn eru í sárum og kenna aðallega fjölmiðlum um ófarir sínar á kjördag. Það kann að koma á daginn í kosningarannsóknum stjórnmálafræðinganna en sennileg er sú skýring ekki. Í Fréttablaðinu í dag er til dæmis haft eftir Halldóri Ásgrímssyni að það sé ,,kannski alvarlegast hvernig Ríkisútvarpið hefur unnið á undanförnum árum. Hvernig það hefur í stórum málum tekið afstöðu, sem er ekki hlutverk þess." Því miður skýrir hann ekki á neinn hátt þessi ummæli sín og þess vegna er erfitt að ræða málið frekar. Hins vegar er hægt að ræða aðra fjölmiðlakenningu sem varð til í forystusveit Framsóknarflokksins eftir kosningarnar. Hún gengur út á það að sérstakt kosningablað DV, sem dreift var um allt land, hafi skaðað Framsókn sérstaklega og fælt hellingsfylgi frá flokknum. Ég ber sýnilega mun minna traust til þessa blaðs en Framsóknarflokkurinn og ég hefi reyndar hvergi heyrt þessar traustsyfirlýsingar í samfélaginu nema frá forystu þessa flokks. DV er ekki sérlega hátt skrifaður fjölmiðill hjá fólki flestu og framsóknarmenn ofmeta furðumikið áhrif þessa kosningablaðs. Ég fletti blaðinu á eldhúsborðinu forðum og greip ofan í nokkrar greinar. Las á endanum vel skrifaða grein eftir Guðmund Magnússon sagnfræðing um kjörtímabil þriggja forsætisráðherra og lét það duga. Ályktaði út fráfyrirsögn og myndmáli annarrar opnugreinar að Hreinn  Loftsson vildi helst frá ,,nýja viðreisnarstjórn" en hafði ekki minnsta áhuga á að kynna mér málið frekar. Það fór ekki á milli mála af fyrirsögnum og framsetningu að innihaldið í blaðinu var að stórum hluta ekki sérlega vinsamlegt ríkisstjórninni en að Framsókn hafi beinlínis tapað kosningum út á þetta blað er bara hallærisleg kenning. Fyrst hélt ég að þetta væri grín en nú heyri ég enn klifað á sömu fullyrðingu. Framsóknarmenn gerðu DV þann greiða að auglýsa þetta kosningablað alveg sérstaklega og stuðla að afturvirkum áhrifum þess! Ég hitti fólk og heyrði í öðrum sem rótuðu í blaðabunkum á heimilum sínum til að reyna að hafa upp á þessu örlagaríka DV-blaði sem viðkomandi rámaði í að hafa fengið inn um lúguna og lagt til hliðar ólesnu eða jafnvel hent strax. Af hreinni tilviljun átti ég mitt eintak og held því sem söfnunargrip enn um stund, að minnsta kosti. Ég hefði jafnvelt geta selt það þegar DV-kenning Framsóknar var fyrst sett fram opinberlega og þjóðin leitaði með misjöfnum árangri í bílskúrum og öskutunnum að þessum meinta örlagavaldi í kosningunum. Ef kenningin lifir eitthvað lengur hækkar hins hengar gengið á blaðinu enn frekar. Þess vegna dreg ég við mig að henda því.

 

 


Tjónaskandallinn að Auðnum, II. hluti

Við hittumst síðdegis í Grafarvogi, eigendur þriggja fellihýsa og eins hjólhýsis sem leigusalar geymslu að Auðnum í Vogum skiluðu á dögunum í okkar hendur skornum, brotnum og beygluðum. Bæði bárum við saman bækur okkar og bárum saman skemmdir á eignunum með því að mæta með þær á vettvang! Þetta var í senn dapurleg og ótrúleg samkoma. Það er í raun lyginni líkast að fólki, sem trúað er fyrir dýrum hlutum til geymslu fyrir stórfé, skuli detta í hug að moka þeim út í vorsólina í þessu ástandi og halda að það sleppi þegjandi og hljóðalaust!

Tryggingar þriggja okkar sem þarna vorum ná ekki yfir þetta tjón og leigusalar eru ábyrgðarlausir fyrir tjóni sem þeir valda á því sem þeim er trúað fyrir að geyma. Eigendur hjólhýsisins höfðu sem betur fer kaskótryggt gripinn og það segir sína sögu um þetta mál að fyrr í dag ákvað tryggingafélagið að leysa hjólhýsið til sín og greiða eigendum tryggingafjárhæðina að fjárdreginni sjálfsábyrgð! Vísir menn telja með öðrum orðum að það myndi kosta langt yfir hálfa milljón króna að skipta um hlið í hýsinu og þá eru eftir skemmdir á þakinu, lofttúðu, sjónvarpsloftneti osfrv. Dapurlegast var að sjá hvernig reynt hafði verið að fela skemmdirnar með límbandi yfir brotið hliðarljós og brotna lofttúðu. Steininn tók svo úr þegar listi, sem rifnað hafði upp við árekstur við loftbita eða einhvern fjandann í geymslunni, var festur niður með tréskrúfu, rétt si svona.

Ég var með fellihýsið mitt í geymslu á þessum sama stað í tvo vetur og var afskaplega ánægður með þau viðskipti. Síðari veturinn borgaði ég 18.000 krónur fyrir þjónustuna. Á síðasta ári skipti reksturinn um eigendur og þegar ég mætti á svæðið haustið 2006 var gjaldið komið í 31.500 krónur, hafði hækkað um 75%! Ég lét mig hafa það, illu heilli. Eigendur splunkunýja hjólhýsisins, sem fyrr er getið, borguðu á milli 60 og 70 þúsund krónur fyrir sinn grip í geymslunni í vetur og fengu þessa þriggja milljóna græju síðan í hendur eins og raun ber vitni um.

Við höfum lært ýmislegt af þessari reynslu og viljum koma henni á opinbert framfæri til að aðrir geti dregið ályktanir þegar þeir byrja að spá í geymslu fyrir tækin sín með lækkandi sólu. Sjálf höfum við dregið ályktanir sem við munum koma á framfæri við eigendur og umráðamenn fellihýsa og hjólhýsa allt til hausts.

Meðfylgjandi eru myndir af skemmdum á tveimur af fellihýsunum og á hjólhýsinu. Þær svara að einhverju leyti spurningum sem ég hef fengið í gær og í dag eftir að lýst var eftir fleiri fórnarlömbum hér á  Moggablogginu.

PS. Viðbót að morgni 19. maí:

Leigusalinn í Vogum er borubrattur í Blaðinu í dag og hvítþvær sig fyrir hönd félagsins sem stundar þessa geymslustarfsemi í Vogum. Einar Guðmundsson lýgur blákalt í mörgum liðum og ber það hiklaust á okkur að vagnarnir og hýsin hafi verið skemmd þegar við komum með þau til geymslu síðastliðið haust og séum að reyna að svindla á sér! Dæmi:

  1. Hann segist vera ,,tryggður fyrir öllum tjónum sem eiga sér stað inni í geymslunum." Þetta er tær lygi.
  2. ,,Ég hef heyrt að Þórey hafi keypt hjólhýsið tjónað, en þori samt ekkert að fullyrða um það." Þetta er líka tær lygi og mannorðsmeiðandi í þokkabót.
  3. ,,Í öllum tilvikum er um að ræða fólk sem sækir hýsin sín þegar við erum ekki við og kvartar yfir skemmdum einhverju seinna." Það er satt og rétt að Einar og samstarfsfólk lét vissulega ekki sjá sig þegar við áðum í vagnana og ekkert skrítið að hann hafi ekki treyst sér til að vera viðstaddur, ef ske kynni að við tækjum eftir skemmdunum við afhendingu!
  4. ,,Einar segist hafa lært mikið af þessu." Það vona ég svo sannarlega og ég ætla rétt að vona að allir eigendur fellihýsa og hjólhýsa séu nú einhvers vísari um ,,þjónustuna" að Auðnum.
  5. ,,Það versta við þetta allt saman er að þetta er fólk sem maður þekkir." Ha? Þekkir?? Ég þekkti hvorki haus né sporð á þessum karli þar til hann tók fellihýsið okkar, Fengsæl GK, í geymslu fyrir 31.500 krónur og skilaði því skemmdu upp á 70-80.000 krónur. Og á hreinu er að ég kæri mig ekkert um að kynnast honum meira en orðið er.

 


Lýst eftir fórnarlömbum felli- og hjólhýsageymslunnar á Vatnsleysuströnd

Ég segi farir mínar ekki sléttar af viðskiptum við fólk sem geymir fellihýsi, tjaldvagna og hjólhýsi að vetrarlagi að Auðnum í Vogum á Vatnsleysuströnd og tekur fyrir fúlgur fjár.  Fellihýsinu okkar var skilað í mínar hendur á dögunum,  rifnu og beygluðu á hliðinni.  Í dag féll úrskurður tryggingafélags leigusalanna í Vogum um að ég skuli bera skaðann óskiptan. Fyrir tilviljun fékk ég svo vitneskju um að ólán mitt væri ekkert einsdæmi . Og nú þegar dagur er að kveldi kominn er ég skyndilega orðinn hluti af heilum hópi fólks sem orðið hefur fyrir stórfelldu tjóni við það að geyma eigur sínar að Auðnum í vetur.

 Tjónið mitt er nú ,,bara" 70-80.000 krónur en áðan heyrði ég í hjónum í Grafarvogi sem geymdu þarna nýja hjólhýsið sitt og verkunin á því er þannig að viðgerð kostar ekki undir hálfri milljón króna! Fyrr í dag heyrði ég í Hafnfirðingi sem fékk fellihýsið sitt beyglað á hornum og í Kópavogsbúa sem fékk sitt fellihýsi beyglað á tveimur hornum. Í báðum þessum tilvikum var rauð málning í beyglunum.

Ekki er með nokkru móti hægt að ímynda sér hvað eiginlega hafi gengið þarna á sem geti skýrt öll þessi ósköp og eyðileggingu. Menn geta búist við einhverju slíku í náttúruhamförum en alls ekki að slíkt gerist undir þaki hjá fólki sem þykist vera atvinnumenn í þjónustu af þessu tagi.

Leigusalar að Auðnum yppa bara öxlum, kannast hvorki við eitt né neitt og vísa á tryggingafélagið sitt. Tryggingafélagið segir hins vegar að leigusalarnir hafi engar tryggingar keypt sem taki til slíks tjóns og nú sitjum við eftir með sárt ennið.

Tilefni þess að ég ber þetta mál hér á torg er sú að ég lýsi eftir fleiri fórnarlömbum. Ég veit um fólk sem tók við fellihýsum og hjólhýsum með rispur og beyglur eftir vetrarvist á Auðnum, án þess að hafa haft samband við tryggingarfélag. Sumir úr þessum hópi hafa hins vegar sýnt verksummerkin á verkstæðum, sem sérhæfa sig í slíkum viðgerðum. Þar frétti ég af þeim í dag.

Við vliijum sem sagt safna liði, fá skýrari heildarmynd af málinu og ráða ráðum okkar um framhaldið.  Þið sem takið erindið til ykkar getið skrifað athugasemdir með bloggfærslunni eða skrifað mér beint á tölvupóstfangið atli@athygli.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband