Mánudagur, 6. ágúst 2007
Stuðmenn bestir svo lengi sem Stones eru ekki í boði
Stuðmenn fóru á kostum í Laugardal í gærkvöld og viðhengin þeirra voru til að auka enn frekar á dýrðina: Shady Owens, Birgitta Haukdal og Laddi. Já, og Valgeir Guðjónsson. Hann er víst ekki eiginlegur Stuðmaður, svona tæknilega, en staðfest var enn einu sinni þarna á vettvangi að Stuðmenn standa ekki undir nafni nema Valli sé með. Smellirnir hans virkuðu best á mannskapinn, þar á meðal Popplag í G-dúr sem flokkseigendafélaginu í hljómsveitinni fannst reyndar svo lítið til um koma á sínum tíma að ekki væri samboðið Stuðmönnum að gefa út í nafni þeirra.
Shady Owens er auðheyrilega ekki í mikilli söngþjálfun en fékk góðan hljómgrunn sinnar kynslóðar í áheyrendaskaranum frá árum Óðmanna, Hljóma, Trúbrots og Náttúru. Hún náði sér á strik þegar á leið í flutningi á Trúbrotsgullmolunum sínum en best var hún samt í lagi úr smiðju Janis Joplin eftir uppklapp. Þar var ,,gamla" Shady örugglega komin.
Samkoman í Fjöldýra- og hússkyldugarðinum (nafngift Leifs óheppna sem var kynnir í boði Ladda) var sú fjölmennasta á landinu um verslunarmannahelgina og trúlegasta líka ein sú mannvænasta og menningarlegasta. Þarna var fjölskyldufólk á öllum aldri í dæmafáu blíðviðri, á annan tug þúsunda manna. Engir brennivínsberserkir eða aðrir rugludallar að ríða röftum, engir snuðrandi fíkniefnahundar og engir útsendarar bæjaryfirvalda að grisja hópinn af 18-23 ára fólki til að varpa á dyr. Engin sýnileg löggæsla nema nokkrar löggur á mótorhjólum að stjórna umferð að hljómleikum loknum. Þetta fór svo makalaust vel fram að á samkomuna var ekki minnst einu orði í ljósvakafréttum í morgun. Það þarf nefnilega að minnsta kosti nokkra vel skakka vímuhausa, og helst að einhver sé skorinn á háls, til að gera samkomu fréttnæma um verslunarmannahelgina.
Tónleikarnir í Fjöldýragarðinum voru magnaðir en auðvitað hefði verið enn magnaðra að vera í Köben í gærkvöld og hlýða á gömlu brýnin í Rolling Stones þenja sig á sviði. Danir voru fremur kvíðnir fyrir þessa tónleika og höfðu ástæðu til því Stónsarar voru í Helsinki á miðvikudagskvöldið og fengu slæma dóma. Þeir þóttu einfaldlega drullulélegir. Vont átti eftir að versna. Á föstudagskvöldið voru þeir í Gautaborg og fengu þvílíka útreið hjá gagnrýnendum fyrir frammistöðuna það að flokkast undir hreina slátrun. Helst er nefnt til sögu að Keith Richards var svo drukkinn að hann gat ekki staðið í lappir á sviðinu og því síður spilað eða sungið. Annað eftir því. Það hafði hins vegar runnið af kappanum þegar komið var til Köben og gagnrýnendur dönsku blaðanna halda ekki vatni yfir konsertinum í gærkvöld. Tvö blaðanna gefa sex stjörnur af sex mögulegum og eitt fimm af sex mögulegum (síðastnefnda blaðinu þykir undirtektir áheyrenda ekki hafa verið nægilega kröftugar og gefur því ekki fullt hús!). Nú liggur leið Stones til Oslóar og Norðmenn naga neglur upp í kviku í kvíðakasti: Verður Keith útúrfullur eins og í Svíþjóð eða bara slompaður eins og í Köben. Edrú er hann aldrei í vinnunni og hefur víst ekki verið frá því í kringum 1960.
Rolling Stones er sem sagt á yfirreið um Norðurlönd og fer borg úr borg. Til Reykjavíkur kemur bandið hins vegar ekki frekar en fyrri daginn og á meðan slíkt hörmungarástand varir er gott að eiga Stuðmenn að. Og Stuðmenn klikka bara aldrei, það er greinilega meira en hægt er að segja um sjálfa Stones.
Þriðjudagur, 26. júní 2007
Blöðruský úr grasrótinni
Eitt er að láta sér detta í hug að stofna til fjöldagöngu, annað er að framkvæma. Bríet, Anna og Soffía gerðu hvoru tveggja og standa uppi sem sigurvegarar dagsins. Þær komu af stað landsbylgju sem eftir er tekið og eftir verður munað. Þúsundir manna gengu með þeim gegn slysum í Reykjavík, á Akureyri og á Selfossi.
Þetta var einfaldlega hugdetta þriggja hjúkrunarfræðinga á Landspítala-háskólasjúkrahúsi og upp spratt grasrótarhreyfing eins og best gerist. Samkoman við LSH í Fossvogi líktust engu sem hér hefur sést áður. Hún var tilfinningarík og virðuleg, samúðarfull og notaleg. Allt tókst þetta framar björtustu vonum og þá leyfðu menn sér að draga fram ánægjubrosið, sbr. myndina af Soffíu, Bríet og Önnu ásamt Kristjáni Möller samgönguráðherra!
Þær stöllur eru í eðli sínu frumkvöðlar og eiga ekki aðeins sameiginlegt að vera hjúkrunarfræðingar á Landspítalanum heldur líka nánar vinkonur og kalla sig BAS-stelpur, eins og sjá má á heimasíðunni þeirra, www.bas.is. Í fyrra gengu þær hálft annað maraþon í New York og söfnuðu áheitum til styrktrar rannsóknum og meðferð brjóstakrabbameins. Í ár tókst þeim að fá þúsundir manna út á götur til að minnast fórnarlamba umferðarslysa með áhrifamikilli og táknrænni athöfn við þyrlupallinn í Fossvogi, þar sem blöðrum var sleppt upp í himinhvolfið. Ekki er gott að segja hvað þeim stöllum dettur næst í hug en alveg má bóka að BAS minnir á sig enn og aftur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 26. júní 2007
Að upplifa hraða og spennu
Mikið óskaplega getur nú tilveran verið kaldhæðin. Á sama tíma og eldhugar úr hópi hjúkrunarfræðinga fara fyrir fjöldagöngu milli sjúkrahúsa í Reykavík síðdegis á morgun, þriðjudag, ekki síst til að vekja okkur til umhugsunar um skelfilegar afleiðingar ofsaaksturs í umferðinni, verður húllumhæ í kringum kappakstursbíl við Smáralind! Í blaðaauglýsingu um síðarnefnda viðburðinn segir að þarna gefist landslýð einstakt tækifæri til að upplifa hraðann, hávaðann og spennuna". Ekki skal það dregið í efa.
Starfsfólk í heilbrigðisþjónustu, lögreglumenn, slökkviliðsmenn, sjúkraflutningamenn, áhafnir á Gæsluþyrlunum, prestar og fleiri upplifa nánast dag eftir dag skelfingu og hörmungar sem hraði og spenna í umferðinni kallar yfir mann og annan. Enginn veit hver næstur er sem þarf á aðstoð þessa góða fólks að halda. Ökumenn þurfa á flestu öðru að halda nú um stundir en að tileinka sér hugarfar kappakstursljóna og kynnast tryllitækjunum þeirra.
Sjáumst í göngunni gegn umferðarslysum!
![]() |
Formúlubíll í Vetrargarðinum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 12. júní 2007
Fellihýsamálið - finale
Af og til kemur fyrir að ég hitti fólk á förnum vegi sem spyr um lyktir fellihýsamálsins mikla, sem byrjaði hér á blogginu í vor og rataði þaðan inn á síður Blaðsins og Morgunblaðsins. Þetta varðar altsvo þrjú fellihýsi og eitt hjólhýsi sem geymd voru í skemmu á Vatnsleysuströnd í vetur og skilað var í hendur eigendanna stórskemmdum. Þar á meðal var fellihýsið Fengsæll GK sem við Álftlendingar keyptum á sínum tíma af vélstjóra í Grindavík. Nú á Fengsæll hins vegar heimahöfn í Fossvogi. Honum var skilað í Vogum rifnum og beygluðum á annarri hliðinni og hefur því verið ónothæfur en er nú kominn á verkstæði.
Hjólhýsið sem í þessu lenti var kaskótryggt og var svo illa farið að Sjóvá leysti það til sín og borgaði eigendunum það út. Við fellihýsaeigendurnir vorum hins vegar allir með vagnana ótryggða í geymslunni og berum skaðann. Hyskið sem fór svona með eigur okkar sleppur með öðrum orðum og reyndi að beygla mannorð okkar ofan á allt annað. Náunginn, sem hafði orð fyrir þessum geymslurekendum, hélt því staðfastlega fram á opinberum vettvangi að hann væri tryggður fyrir skemmdum af þessu tagi og vísaði á VÍS. Það var auðvitað haugalygi að hann væri með einhverjar slíkar tryggingar og reyndar bætti karlhólkurinn gráu ofan á svart með því að saka tvö okkar úr hópnum um tryggingasvik! Yfirmaður hjá tryggingarfélagi sagðist ekki muna til þess að slíkar ásakanir hefðu fyrr verið bornar á nafngreinda einstaklinga í blaðaviðtali. Eðlilega veltu tryggingamenn því fyrir sér af þessu gefna tilefni hvort verið gæti að við værum í raun og veru tryggingasvikarar og komust að því að svo væri ekki.
Geymslukarlinn á sér fortíð eins og við öll og um hana fékk ég ýmislegt að heyra eftir að Vogamálið komst í hámæli. Það var hringt af Austurlandi og það var hringt af Stokkseyri. Ég hefði ekki treyst honum fyrir Fengsæli í fyrrahaust ef ég hefði vitað þá það sem ég þykist vita nú. Satt að segja hefði ég ekki einu sinni treyst honum til að geyma skóhornið okkar úr forstofunni yfir nótt, hvað þá merkilegri hluti úr búinu.
Nú gerist ég vitur eftir á og kaskótryggi Fengsæl hjá VÍS þegar hann kemur úr klössun. Því næst förum við Fengsæll í langferðir um landið og ég lofa honum því hátíðlega að vanda val á vetrargeymslu í haust. Og ég hef búið til dreifimiða með lífsreynslusögu okkar fjórmenninganna til að dreifa á tjaldstæðum í sumar. Ég verð til dæmis á landsmóti í hestaíþróttum í Svarfaðardal og á Fiskideginum mikla á Dalvík. Þar verða þúsundir manna að sunnan með vagna í eftirdragi og ég tel ekki eftir mér að ,,ganga í hús" með flugrit til kynningar geymsluþjónustunni á Vatnsleysuströnd. Það mun ég meira að segja gera með stakri ánægju.
Dægurmál | Breytt 15.6.2007 kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 11. júní 2007
Kúnstin að halda kjafti þegar sjón er sögu ríkari
Fyrir margt löngu bjó ég í Noregi og fékk þá það verkefni að skrifa, og lesa inn á band, texta með fréttaauka um orkumál fyrir sjónvarpið okkar íslenska. Þetta hafði ég aldrei gert áður og var ekki beint upplitsdjarfur þegar ég mætti með handritið til að taka upp í stúdíói hjá norska sjónvarpinu. Náunginn sem upptökunni stjórnaði sá strax að hér var kominn viðvaningur í fræðunum en sagðist geta gert úr mér brúkhæfan sjónvarpsmann á tiltölulega skömmum tíma ef ég tileinkaði mér strax hið eina sem máli skipti í sjónvarpi og það væri að halda sem mest kjafti. Svo sagði hann mér að skera textann minn niður um tvo þriðju hluta hið minnsta og leyfa myndmálinu að koma boðskapnum til skila.
Upptökumeistarinn sagði að kúnstin væri með öðrum orðum sú að muna alltaf að þessi ágæti miðill væri SJÓNvarp. Helsti löstur á sjónvarpsmönnum, bæði nýliðum og gamalgrónum, væri sá að þeir kjöftuðu allt of mikið og leyfðu áhorfandanum helst aldrei að fá horfa í friði. Það væri blaðrað út í eitt. Verstir væru samt íþróttafréttamenn í sjónvarpi því þeir létu ekki duga að lýsa þindarlaust því sem áhorfandinn væri hvort eð er að horfa á heldur væru þeir stöðugt að troða eigin skoðunum upp á þá sem heima sætu og það svo mjög að áhorfendur/áheyrendur stæðu upp dasaðir eftir hverja messu.
Ég fór að ráðum þessa ágæta norska upptökustjóra, skar textann niður við trog og hélt kjafti stóran hluta orkumálamyndarinnar. Þar með var ég ekkert að trufla væntanlega áhorfendur heima á Íslandi með blaðri, sem auðvitað var ofaukið þegar að var gáð. Myndmálið varð aðalatriðið og boðskapurinn komst betur til skila fyrir vikið.
Oft verður mér hugsað til Norðmannsins, sem kenndi mér að halda kjafti, þegar ég sit við sjónvarpið heima í stofu. Greinilegt er að sjónvarpsmenn yfirleitt fá ekki tilsögn í að þegja og veitir nú sumum ekki af.
Ég gæti til dæmis hugsað mér suma íþróttafréttamenn RÚV og Stöðvar 2/Sýndar á skólabekk til að læra að tala einungis í tíma en ekki ótíma. Læra með öðrum orðum að halda kjafti. Sá sem lýsti leiknum með Barcelona á SÝN núna á laugardagskvöldið, og leik KR og Skagamanna á SÝN í gærkvöld, þarf til dæmis mjög á því að halda að læra að þegja. Og þegja ítarlega.Mánudagur, 11. júní 2007
Sunnudagsblað sem stendur undir nafni
Íslenskir útgefendur dagblaða hafa af einhverjum ástæðum aldrei litið sunnudaga sömu augum og kollegar þeirra í útlöndum. Erlendis er rík hefð fyrir vígalegum sunnudagsútgáfum blaða og má þakka fyrir að dagurinn endist mönnum til að komast í gegnum blaðabunkana sína á helgidögum, jafnvel þó þeri hafi ekkert annað fyrir stafni en að lesa. Hér hefur verið öðru að heilsa og á árum áður var sunnudagsútgáfa Morgunblaðsins hálfgerður bastarður, aðallega vettvangur fasteignasala að auglýsa hús og íbúðir. Fréttablaðið virtist um tíma hafa áttað sig á að til væri lesþyrst fólk á sunnudögum en lætur nú duga að bjóða okkur auglýsingabastarð inn um lúguna.
Batnandi blaði er best að lifa. Morgunblað þessa sunnudags var sérlega velkomið, enda bar það fyrstu merki íslensks dagblaðs um raunverulega sunnudagsútgáfu. Það leyfi ég mér í það minnsta að vona. Þarna var að finna áhugavert efni af ýmsu tagi og það tók mig daginn að plægja í gegnum Moggann. Svoleiðis eiga sunnudagar að vera. Þarna var að finna fróðlega samantekt um þorskstofninn og þá staðreynd að hann er að hruni kominn vegna þess að stjórnvöld lýðveldisins hafa hunsað ráðgjöf fiskifræðinga markvisst og kerfisbundið árum og áratugum saman. Þarna var mögnuð úttekt Jóns Baldvins, fyrrum utanríkisráðherra, á þeim stíðskónum Bush og Blair, skemmtileg portrettviðtöl við forstjóra Alcoa Fjarðaáls, nýja utanríkisráðherrann og Maríu Ellingsen leikkonu. Og þarna var margt margt fleira sem ég las og hafði bæði gagn og gaman af, til dæmis afar gáfuleg grein um Hvalfjarðargöng og veggjaldið þar eftir ungan mann á Akranesi. Já, og svo var þarna talað við oddvita vinstri-grænna í borgarstjórn Reykjavíkur um endalok Reykjavíkurlistans. Samfylkingin sleit R-listanum, segir oddvitinn hafnar þeirri söguskýringu Össurar álmálaráðherra að upp úr samstarfinu hafi slitnað vegna þess að vinstri-grænir hafi litið samstarf við sjálfstæðismenn hýru auga. Sjálfsagt skemmta þessir flokkar sér eitthvað áfram með gagnkvæmum svikabrigslum og þeir um það en af því að Morgunblaðið er orðið alvörublað á sunnudögum og komið í þennan gír: hvernig væri nú að það varpaði um næstu helgi ljósi á það sem gerðist bak við tjöldin í stjórnarmynduninni á dögunum. Þar þykist ég vita að af ýmislegt liggi óhreyft og ósagt. Og svo gæti Mogginn líka bætt á sunnudaginn við sagnfræði dagsins úr borgarpólitíkinni. Þar er af nógu að taka, til dæmis væri forvitnilegt að lesa eitthvað um þreifingar vinstri-grænna og sjálfstæðismanna um myndun nýs meirihluta í borgarstjórn í kjölfar þess að Ingibjörg Sólrún hraktist úr ráðhúsinu eftir dæmalausa uppákomu í þessu R-listasamstarfi. Þetta eru vinsamleg tips ánægðs Morgunblaðskaupanda gegn því að fá loksins i hendur alvörublað á sunnudegi....
Fimmtudagur, 7. júní 2007
MA-æviskrár 1974-1978 komnar út!
Enginn framhaldsskóli á Íslandi státar af jafn ítarlegum æviskrám útskriftarnemenda sinna og Menntaskólinn á Akureyri. Og nú var að koma úr prentsmiðjunni 6. bindi æviskránna, þar sem fjallað er um alls 535 stúdenta MA á árunum 1974-1978. Gunnlaugur Haraldsson, þjóðháttafræðingur og MA-ingur, skrifaði sjötta bindið líkt og fimm hin fyrri og á miklar þakkir skildar fyrir þrautseigjuna. Með sér hafði hann ritnefnd, skipaða fulltrúum árganganna sem við sögu koma og sá sem hér skrifar var þess heiðurs aðnjótandi að sitja í nefndinni sem annar fulltrúi MA-stúdenta 1974. Það var gaman en býsna stressandi á köflum því ekki er tekið út með sældinni að eltast við fólk um heiminn þveran og endilangan til að toga út úr því upplýsingar um það sem á daga þess hefur drifið nær hálfan fjórða áratug! Gulli skrifari og ritnefndarfólk hittist á Sólon í gærkvöld, borðaði saman og fletti hinni glæsilegu bók og dáðist að öllum gáfumennunum sem hreiðra um þar um sig milli spjalda.
Frásögn og myndir af samkomunni á Sólon er að finna á myndasíðunni minni.
- Æviskrárnar MA-stúdenta eru ekki seldar annars staðar en hjá útgefanda. Hafið samband við Gulla (Gunnlaug Haraldsson ,Skagamanninn knáa) í síma 891 9277 eða með því að senda línu á póstfangið gullih@simnet.is. Þar með stigið þið það gæfuspor að eignast á einu bretti lífshlaup 535 MA-inga til að stúdera næstu misserin. Njótið vel og lengi, lifi MA!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.7.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar