Sextíu og fjórir flugliðar - einn fréttamaður

Það stefnir auðsjáanlega í að uppsögn eins fréttamanns á Stöð tvö fái meiri fjölmiðlaumfjöllun en uppsagnir sextíu og fjögurra flugliða hjá Icelandair. Fjölmiðlamenn forgangsraða málum að sjálfsögðu í samræmi við mikilvægi. Og geti þeir talað hverjir við aðra eða hverjir um aðra, ja þá er slíkt mál málanna. Að sjálfsögðu. Stjórnendur fyrirtækja ráða og reka starfsmenn, af ýmsum ástæðum. Þannig er það nú bara. Mig varðar ekkert um hverjar fréttastjórar vilja hafa í vinnu hjá sér og hverja ekki. Þeir um það. Ég sá hins vegar á helsta viskubrunni mínum, mbl.is, að fráfarandi fréttamaður Stöðvarinnar tengdi uppsögn sína við að nýr fréttastjóri þar á bæ hefði áður verið upplýsingafulltrúi í forsætisráðuneytinu. Orðrétt: „Ráðning hans leggur trúverðugleika fréttastofunnar í rúst og bendir til þess að menn kunni ekki að umgangast fréttastofur.”

 Hér fer ekkert á milli mála um álit og meiningu. Ég sem hélt að menn yrðu í þessu sem öðru dæmdir af verkum sínum í nútíð frekar en einhverjum öðrum verkum í þátíð. Eðli máls samkvæmt eru fréttir Stöðvar tvö býsna sýnilegar almenningi öllum og ef nýi fréttastjórinn flytur með sér banvænar pólitískar klyfjar þarna inn á gafl, kemur það nú fljótt í ljós og springur bara framan í hann sjálfan og batteríið allt. Svo man ég ekki betur en hann hafi nú í millitíðinni stýrt Íslandi í dag í um þónokkurt skeið og tekið þátt í að gera það að prýðisgóðum þætti.

Hérlendis er það viðhorf lífseigt að þeir, sem hafa komið nálægt stjórnmálastarfi af einhverju tagi, flokkist undir farsóttarsjúklinga og skuli sæta vist í einangrunarkví á vinnumarkaði að loknu þessu æviskeiði sínu. Mörg dæmi eru meira að segja um að fyrrverandi alþingismönnum gangi illa eða alls ekki að fá vinnu! Þetta er þveröfugt í grannríkjum þar sem ég þekki þokkalega vel til og þar eru fyrrverandi pólitíkusar meira að segja eftirsóttir, líka til fjölmiðlastarfa. Þar er nefnilega litið á stjórnmálastarfið sem reynslu sem geti verið dýrmæt og nytsamleg á öðrum starfsvettvangi. Í íslenskum fjölmiðlaheimi virðist hins vegar á stundum sem lífs- og starfsreynsla af öðrum vettvangi sé til hreinnar bölvunar. Og helst að fjölmiðlungarnir séu sem næst barnsaldri og rétt skriðnir af skólabekk.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband