Upprisa Vinnslustöðvarinnar í Eyjum

Það rifjaðist upp fyrir mér í lyftu á leið upp í skíðabrekkurnar í Bláfjöllum í morgun að fyrir réttum tíu árum, á föstudaginn langa 1999, skrifaði ég drög að fréttatilkynningu fyrir Geir Magnússon, þáverandi stjórnarformann Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Þeim texta gleymi ég ekki því þar var var sagt að stjórn fyrirtækisins hefði ákveðið að segja upp öllum starfsmönnum þess í Eyjum og í Þorlákshöfn, alls 320 manns, endurráða hluta þeirra í Eyjum en hætta allri starfsemi í Þorlákshöfn.

Vinnslustöðin var með öðrum orðum komin á hliðina vegna viðvarandi rekstrarerfiðleika. Stjórnarmenn og stjórnendur fyrirtækisins réðu ráðum sínum frá morgni til kvölds í páskafríinu 1999 og höfðu aðsetur í fundarsal á efstu hæðinni að Suðurlandsbraut 14 í Reykjavík, þar sem voru höfuðstöðvar Olíufélagsins ESSO. Olíufélagið var á þeim tíma stór hluthafi í Vinnslustöðinni. Þarna hitti ég Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson í fyrsta sinn, þá nýtekinn við starfi framkvæmdastjóra í þessu gamalgróna sjávarútvegsfyrirtæki í Eyjum sem í reynd var í andarslitrunum.  Mér kom nýi framkvæmdastjórinn fyrir sjónir sem hálfgerður stráklingur og fannst hann býsna svalur að taka við fyrirtæki á hausnum og byrja á að segja þar upp hverjum einasta manni! Hann virtist hins vegar hafa á hreinu hvað bæri að gera og hvernig og svo sannfærður var hann um að hægt væri að bjarga Vinnslustöðinni að það fór smám saman að virka sennilegt mitt í öllu svartnættinu. Geir stjórnarformaður hafði  áður sagt mér í símtali að hann treysti engum betur en Binna til að rétta fyrirtækið af og það fljótt. Nýi framkvæmdastjórinn fengi stuttan tíma til að sanna sig, ella yrði hann látinn taka pokann sinn!

Þegar á hólminn var komið ákváðu Vinnslustöðvarmenn að segja „bara“ upp 180 manns af alls 320 en nóg var nú höggið samt fyrir Eyjasamfélagið. Hefði nú heldur betur heyrst hljóð úr horni á höfuðborgarsvæðinu ef álíka margir hefðu misst vinnuna þar hlutfallslega á einu bretti.
 

Nú eru sum sé liðin tíu ár og Vinnslustöðin orðin eitt öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins. Viðsnúningur í rekstrinum hefur verið ævintýri líkastur. Þar er mikið sagt en engu að síður bæði satt og rétt. Ég hef notið þeirra forréttinda að fylgjast nokkuð með Binna og öðrum í vaskri stjórnendasveit fyrirtækisins reisa fyrirtækið úr rústum og koma því í fremstu röð fyrirtækja í sinni grein og þó víðar væri leitað. Mér var nefnilega falið að sjá um að gefa nokkrum sinnum út ársreikninga Vinnslustöðvarinnar og þegar fyrirtækið varð sextugt í árslok 2006 tók ég þátt í að skrá og gefa út sögulega samantekt um það til dreifingar í hvert hús í Eyjum. Þegar afmælisins var minnst með veislu og myndasýningu Sigurgeirs Jónassonar varð ég sem betur fer veðurtepptur og skemmti mér með „fólkinu á gólfinu“ í VSV langt fram eftir nóttu. Minnisstæðust úr því samkvæmi eru ummæli starfsmanna sem sögðust áður hafa skammast sín fyrir að vinna hjá Vinnslustöðinni og logið til um vinnustað ef viðmælendur þeirra  spurðu hvað þeir gerðu. Nú var öldin hins vegar önnur og sama fólk sagðist vera stolt af vinnustaðnum sínum.

Oft hefur flogið að mér að viðskiptafræðideildir háskólanna ættu að fá Binna og aðra úr stjórnendateymi Vinnslustöðvarinnar til að fjalla um það í fyrirlestrum hvernig yfirleitt tókst að láta fyrirtækið rísa svo rækilega upp úr öskustónni á tiltölulega skömmum tíma. Og reyndar ætti sjálf ríkisstjórnin að panta námskeið hjá Vinnslustöðvarstjórunum og tileinka sér þá hugmyndafræði, áræðni, útsjónarsemi og agaðar rekstrarformúlur sem dugðu til að reisa fyrirtækið við. Ég treysti Binna miklu betur en Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að ráða Jóhönnu og Steingrími J. heilt í kreppulífróðrinum. Verkefnið sem menn stóðu frammi fyrir í Eyjum fyrir tíu árum var nefnilega ekkert minna en efnahagshrun á mælikvarða samfélagsins þar og kallaði á hreinræktaðar neyðarráðstafanir. 

Vinnslustöðin er sterkt fyrirtæki og ég sé í opnuviðtali sem Fréttir í Eyjum birtu við kappanm Binna í gær að fyrirtækið muni standa af sér kreppu og áföll í síld og loðnu en VSV og öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum standi mun meiri ógn af svokallaðri fyrningarleið sem ríkisstjórnarflokkarnir aðhyllast (gert ráð fyrir að ríkið hirði ákveðið hlutfall aflaheimilda á ári og útdeili eftir einhverjum reglum enginn hvernig hvernig líta muni út).

Freistandi er að birta hér drjúgan kaafla úr viðtalinu í Fréttum því þar tekur framkvæmdastjórinn lesendur í kennslustund í fyrningarfræðum og vísar meðal annars til sauðfjárbúskaparins á Gunnarsstöðum í Þistilfirði, æskuheimili fjármálaráðherrans, máli sínu til stuðnings!


Binni sér fáar eða engar jákvæðar hliðar við fyrningarleiðina og tekur sem dæmi vísindaverkefni sem Vinnslustöðin stendur að um veiðar og vinnslu á humri. Þar er takmarkið að ná sem mestri arðsemi út úr þeim 2.200 tonnum sem úthlutað er árlega.  „Sérstök skattlagning á sjávarútveg líkt ,og veiðigjaldið, dregur kraftinn úr sjávarútveginum og getu fyrirtækjanna til þróunar. Þau munu samt  hafa áhuga á að byggja upp verðmæta fiskistofna og bæta umgengni við fiskimiðin því mestu verðmæti sjávarútvegsins felast í stórum og heilbrigðum fiskistofnum.  Á því er enginn vafi. 

En fyrningarleiðin, þar sem ríkið tekur til sín aflaheimildir og býður upp eða ráðstafar til annarra en fyrir eru í greininni í nafni nýliðunnar, felur í sér skelfilegar og ófyrirséðar afleiðingar.  Tökum sem dæmi humarrannsóknir okkar þar sem við höfum ráðið skoskan doktorsnema, Heather Philp, til að skoða umgengni okkar við búsvæði humars, aldursgreina humar, ástæður skyr- eða mjölhumars og fleira.  Hún er þegar  búin að finna aðferð við aldursgreiningu humars, nokkuð sem enginn kunni hér á landi áður en er gríðarlega mikilvægt við stofnstærðarmat.  

Svo er annað. Veiðisvæðin humars eru mörg og aðskilin, allt frá Eldey austur að Hornafirði og er mjög misjafnt hvað þau gefa af sér á hverju ári.  Enginn veit hvort humarinn berst frá einu svæði til annars eða hvort humarinn er staðbundinn á sínum svæðum.  Þetta er Heather að rannsaka líka.  En eðlilega er mest sótt á þau svæði sem best gefa hverju sinni og þannig er er til vill allt of mikil sókn og óskipulögð á einstaka veiðisvæði sem leiðir til þess að afraksturinn er minni en annars gæti verið.  Heather hefur hugmyndir um að koma upp kerfi þar sem gefinn er út kvóti fyrir hvert svæði og að nýtingin verði eitthvað í líkingu við það hvernig bændur nýta slægjulönd sín af skynsemi og nærfærni.  Með því  móti náum við bestri nýtingu út úr stofninum, ekki bara nú heldur um alla framtíð.   

Um leið og við fáum þau skilaboð að hlutdeild í humarkvótanum sé ekki okkar til framtíðar  höfum við að sjálfsögðu ekki áhuga á rannsóknum sem varða framtíð humarstofnsins.  Ef við höfum humarkvótann einungis til 5 – 10 ára hugsum við um hvernig við fiskum sem mest á þeim tíma og náum okkar peningum sem hraðast til baka.  Um leið og fyrningarleið yrði tekin upp yrðu rofin tengsl framtíðarhagsmuna útgerðarfyrirtækjanna við stærð og heilbrigði humarstofnsins.  Engin ástæða  er til að leggja orku og fjármuni í þessar rannsóknir verði fyrningarleiðin farin.  Þá verður humarkvótinn tekinn af okkur í skömmtum sem verður til þess að stúta öllu sem heitir langtímasjónarmiðum í rekstri.  Þessi sjónarmið eru líka gríðarlega mikilvæg þegar kemur að því að markaðssetja afurðir eins og t.d. humar.  Það er einfaldlega þannig að langtímasjónarmiðin eru söluvara og auka  verðmæti. 

Þegar ég útskýri þetta fyrir kaupendum að humri svara allir einum rómi: „Þetta er auðvitað eina vitið!“   Í mínum huga er hér engin pólitík á ferðinni heldur nokkuð sem ég kalla heilbrigða skynsemi.  Allir sjá að skynsöm nýting fiskistofnanna er mikilvægasta mál sjávarútvegsins og um leið náttúrunnar og alls umhverfisins.  Hér fléttast því saman hagsmunir náttúrunnar, markaðarins, atvinnulífsins og þar með afkoma samfélaga á borð við Vestmannaeyjar.“


Binni tók annað dæmi sem ætti að standa Vinstri grænum  nærri en það eru Gunnarsstaðir í Þistilfirði þar semsegir að  fjölskylda flokksformannsins, Steingríms J. Sigfússonar, rekur eitt myndarlegasta fjárbú landsins. Og Binni ætti að vera nokkuð dómbær hvað teljist myndarbúskapur og hvað ekki, menntaður búfræðingur sjálfur! „Fjölskyldan á Gunnarsstöðum stendur mjög framarlega í kynbótum en ef fulltrúi ríkisins kæmi þar árlega í hlað,  tæki með sér 5- 10% fjárstofnsins af bæ og úthlutaði öðrum með rökum um réttlæti og auðveldari nýliðun í bændastétt, hvernig færi þá fyrir kynbótunum sem eru ætlaðar til langtíma í rekstrinum á Gunnarsstöðum? Með þessu móti væri auðvitað verið að búa til allt aðra hvata en þá sem miða að því að koma upp góðum sauðfjárstofni í Þistilfirði. Það er nefnilega eins í landbúnaði og sjávarútvegi að umhverfisvernd og eignarréttur fara saman.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband