Af 20% leiðréttum bröns

Komin er mynd af manni á strætóskýlið efst á Grensási og flenniskilaboð með: 20% leiðrétting.  Þaut þar fram hjá áðan á heimleið úr Egilshöll og þarf að kanna málið betur vikð tækifæri á hægri ferð eða fótgangandi. Grunar að þarna sé Framsóknarflokkurinn á ferð með undarlegasta slagorð kosningabaráttunnar. Í framsóknarblaði sem borið var í hús í Fossvogi á dögunum, var mikið leiðréttingatal. Það á víst bæði að leiðrétta lán og skuldir. Leiðrétta?? Leiðrétta hvurn andskotann? Lán eru bara lán og skuldir eru bara skuldir. Skuldir aukast eða minnka eftir atvikum. Ef menn vilja minnka skuldir með einhverjum kúnstum á bara að segja það þannig. Hugtakið „leiðrétting“ kemur málinu ekkert við. Ekki nokkurn skapaðan hlut.


Verkalýðs foringja og fjölmiðlafólk með rýra máltilfinningu hafa oft og lengi tuðað um „leiðréttingu“ launa og kjara hópa á vinnumarkaði og á þá við það sem venjulegt fólk talar um sem kjarabót eða kauphækkun.  Meira að setja forseti Alþýðusambandsins talar um að „leiðrétta“  þurfi hitt og þetta þegar ég held hann eigi við að bæta þurfi kjör eða hækka kaup. Og nú kemur Framsóknarflokkuri nn og vill „leiðrétta“ heimilisskuldir landsmanna! Hvað kemur næst? 


Eina leiðréttingin sem þörf er á er að setja forystusveitir verkalýðsins og Framsóknar  á móðurmálsnámskeið og það sem fyrst. Þá er von um að frá þeim geti komið sæmilega skiljanleg og skýr skilaboð.


Á dögunum blasti við mér auglýsing í Morgunblaðinu þar sem mér var boðið í „bröns“ hjá Sjálfstæðisflokknum.  Bröns?? Ég hafði satt að segja ekki græna glóru um hvað þarna bauðst. Þarna var greinilega eitthvað sem allir áttu að þekkja og kunna. Allir nema ég en ég þorði ekki að spyrjast fyrir. Maður gerir sig nú ekki að fífli að þarflausu. Nóg er nú samt.


Mér flaug reyndar fyrst í hug að þarna væri prentvilla og ætti að vera brons, málmblandan úr kopari og tini sem notuð er í verðlaunapeninga fyrir þriðja sæti í íþróttum. Daginn áður hafði nefnilega verið birt niðurstaða skoðanakönnunar um pólítíska landslagið á landinu og Sjálfstæðisflokkurinn var þar í þriðja sæti. Sem sagt:  Má bjóða þér í brons(verðlaunaveislu)? Hljómaði þokkalega en að mér settist samt innri beygur, eðlislægur úr sveitinni.  Þetta gat svo sem verið bröns eftir allt saman.

Svo horfði ég betur á auglýsinguna. Gestgjafarnir voru þrír virðulegir forystumenn sjálfstæðismanna: Illugi og Guðlaugur Þór, framboðsleiðtogar í Reykjavíkurkjördæmunum (og ég sem man aldrei hvort ég er kjósandi í suður eða norður). Svo var með þeim Bjarni Ben, leiðtoginn fyrir landið og miðin. Bara karlar, sum sé. Var þarna komin kynjavísbending til að ráða gátuna? Var þetta einhvers konar samkunda ætluð körlum eingöngu og þá af kynþætti brönsmanna?


Samstundist laust ljóslifandi niður í kollinn l minnismiðanum sem sonurinn Helgi Hannes kom með heim úr Fossvogsskóla daginn áður:  Feðgafræðsla fyrir 11-12 ára drengi og feður þeirra, afa eða karlkyns forráðamenn, „afar mikilvægt námskeið fyrir unga drengi sem bráðum verða menn“ stóð þar. Ennfremur: „Námskeiðið er stranglega bannað stúlkum olg er alls ekki fyrir mömmur nema í undantekningartilvikum.“ Að vísu þótti mér ekki sennilegt að sjálfstæðismenn væru að bjóða körlum á kosningaaldri til sín að velta vöngum yfir typpum og kynþroska, ekki nema þá að flokkurinn teldi sig svo illa farinn að byrja þyrfti alveg á byrjuninni í uppbyggingarstarfinu og pæla í  gegnum kviknun lífs á jörðu, neðanmittisföndur Adams og Evu í aldingarðinum og samskipti kynja í höfuðborg Íslands að fornu og nýju. Líklegra var að Bjarni, Illugi og Guðlaugur Þór vildu frekar ræða kjörþroska en kynþroska karlmanna án þess að hafa konur í kallfæri á meðan. Innri beygurinn gerði samt enn vart við sig.


Neyðarúrræðið í brönsraunum var að hefja leit í orðabókasafni heimilisins. Sjaldan bregðast orðabækur þegar á reynir. Viti menn, fljótlega fann ég hugtakið bröns í skruddu sem hefur að geyma skýringar á ýmsum torkennilegum orðum og hugtökum í bókum eftir Laxness:  árdegisverður. Það var og. Sjálfstæðismenn voru að bjóða kjósendum í hádegissnarl! Og ég sem hafði lagt svo hart að mér við að brjóta heilann yfir brönsinum í Moggaauglýsingunni að kallaði á vel útilátinn hádegismat til að hafa áfram orku til rannsóknanna.

Ég var sum sé vel haldinn og bærilega saddur þegar lausnin datt yfir mig úr orðabókinni.  Þess vegna mætti ég ekki í bröns hjá sjálfstæðismönnum. Í staðinn ætla ég að mæta á feðganámskeiðið í Fossvogsskóla og læra að brúka typpið til annarra hluta en pissa. Það er nú kominn tími til að fræðast um sjálf grunngildi lífsins. Sjálfstæðisforingjar vita örugglega allt um typpi sem þörf er á að vita en þegar þeir bjóða mér næst í mat er einfaldast að fara bara einföldu leiðina og tala íslensku. Til þess er hún. Ég mæti í það minnsta hvorki í bröns né brons.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 210194

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband