Stífla?Já, takk!

Viðskiptaritstjóri Fréttablaðsins getur ekki orða bundist í dag og segir það ábyrgðarlausa afstöðu að hætta við að renna vatni í Hálslón Kárahnjúkavirkjunar nú á síðustu stundu framkvæmdanna, hvaða skoðun sem fólk kunni að hafa á þessari stærstu framkvæmd Íslandssögunnar:

,,Nýjar hugmyndir um að vatni verði ekki hleypt á Kárahnjúka er fyrst og fremst áróðursbragð. Það hljómar þokkalega í munni heittrúaðra náttúruverndarsinna en stutt er í óbragð þegar stjórnmálamenn, sem ætlast til að tekið sé mark á þeim í almennri umræðu, taka undir slík sjónarmið." 

 Eitt er að vera bara á móti þessari virkjun og forsendum hennar að hluta eða öllu leyti. Það er einfaldlega gjaldgeng afstaða og efni til að rökræða. Annað er svo þetta dæmalausa rugl sem nú er skyndilega orðið mál málanna og ættað er frá Ómari Ragnarssyni, uppáskrifað af öllum helstu samtökum og forkólfum náttúruverndarsinna í landinu að því er virðist!  Það á að frysta tilveruna eystra á staðnum og stundinni, hætta við lónið, selja hlutabréf í stíflunni og borga starfsmönnum álversins fyrir að gera ekki neitt næstu árin, þar til rafmagn finnst einhvers staðar annars staðar - hugsanlega og einhvern tíma. Jú, og svo á reyndar að sletta einhverjum skaðabótum í Alcoa og setja svo allt virkjunarklabbið á náttúruminjaskrá. Undir þessum merkjum gengu þúsundir manna í miðbæ Reykjavíkur. Hvort þeir voru sjö þúsund, fimmtán þúsund eða hundrað þúsund breytir engu um að fleiri en viðskiptaritstjórinn fyrrnefndi hljóta  þessa dagana að klóra sér aðeins í kollinum í spurn og forundran. 

Hér um árið kjaftaði fjöldi manna sig upp í mikinn æsing út af sölu Símans í ljósvakaþáttum og blaðagreinum og þóttist ætla að kaupa fyrirtækið. Þegar ró færðist yfir þynntist hópurinn og nú muna fáir eftir að hafa nokkurn tíma haft minnsta áhuga á Símanum. Sagan endurtekur sig. Brátt munu ekki margir kannast við að hafa gengið um götur Reykjavíkur með kröfur á lofti um að kaupa Kárahnjúkastíflu og borga nokkur hundruð álversmönnum kaup fyrir að gera ekki neitt svo árum skiptir.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tja, stífla, virkjun, álver eða ekki. Þessi hörðu mótmæli koma allt of seint en það er ekki hægt að loka augunum fyrir því að jafnvirtir vísindamenn hafa fært rök á móti virkjun og þeir sem hafa fært rök með og það er fyrst nú sem sú umræða nær eyrum almennings en tæpast dettur nokkrum í hug í alvöru að hætt verði við að safna vatni og leir í lónið.
Göngurnar minna á símamótmælin í byrjun aldarinnar sem sagan hefur þegar dæmt. Vigdís Finnbogadóttir fannst mér svara skynsamlega þegar hún var spurð hvort þessi mótmæli hefðu eitthvað að segja: - Já, vegna þess að þeirra verður getið í Íslandssögunni.
Með þessum mótmælum eru þeir sem ekki eru með á Kárahnjúkavirkjunar- og álnótunum á eftirminnilegan hátt að leggja skoðanir sínar undir dóm framtíðarinnar, sögunnar. Vonandi dæmast framkvæmdirnar eystra jafnmikið framfaraspor og að koma landinu í símasamband við umheiminn. Hins vegar efast ég mjög um það og legg þann efa að sjálfsögðu undir dóm sögunnar.

Kveðjur, - Þórir J.

Þórir Jónsson (IP-tala skráð) 27.9.2006 kl. 23:50

2 identicon

Umræðan þessa dagana er eins og oft áður þegar umdeild mál eru uppi í þjóðfélaginu. Kjarninn er ekki ræddur - hann kemst hreinlega ekki að fyrir öfgunum!
Heyrði í Kastljósi Þórhildi nokkra Þorleifsdóttur, Kvennalistaþingkonu fyrrverandi, fabúlera um að margfalda megi mannfjöldann í Ómarsröltinu í miðbæ Reykjavíkur í vikunni því að baki hverjum sem þátt tók hafi svo og svo margir mótmælendur setið heima! Í hæsta máta öfgafull margföldun hjá þingkonunni fyrrverandi. Er búinn að heyra af nokkrum einstaklingum sem þarna voru og allir fóru bara vegna veðurblíðunnar á haustkvöldi í Reykjavík og fengu þarna einfaldlega fína afþreyingu eitt kvöld! Voru hreint ekki að leika neina mótmælendur heldur njóta lífsins sem útivistarfólk á kvöldgöngu!
Ómarsæðið í fjölmiðlum þessa dagan er svo auðvitað hrein komedía. Sjálfur er hann í keppni við sjálfan sig í fyrirsögnum og hugmyndaflugi, fjölmiðlarnir eru búnir að uppgötva að með hverju viðtalinu við hann bætist einhver ný og stjarnfræðileg vitleysa frá honum í safnið en Ómar sjálfur virðist hreinlega trúa því að hann sé hinn nýi talsmaður sannleikans sem þjóðin tilbiðji nú þegar! Í mínum augum er hann bara ósköp venjulegur einstaklingur með sínar skoðanir á þessu máli - en ég ætla að fá að hafa mínar í friði og styðja þessar framkvæmdir vegna heildaráhrifanna á Austurland. Þrátt fyrir flauminn í Ómari Ragnarssyni.

Furðulegt finnst mér að horfa á náttúruverndarsamtökin sem nú klappa saman höndum og heimta í Ómars Ragnarssonar nafni að háspennulínur verði lagðar norðan úr landi og allt til Reyðarfjarðar til að keyra álverið. Furðulegt að heyra að þetta fólk telur slíkt engin náttúruspjöll - jafnvel þótt augljóslega verði að fara í gegnum miklar náttúruperlur hér austur í Þingeyjarsýslum. Man ég það ekki rétt að þessi sömu náttúruverndarsamtök voru í upphafi stóriðjuumræðu á Reyðarfirði brjáluð yfir hugmyndum um línulagnir yfir Skeiðarársand frá Suðurlandi til Reyðarfjarðar, enn verri yfir hugmyndum um línulögn norðan Vatnajökuls og töldu sko aldeilis fráleitt að setja um víravirki norðan úr landi! En af því að Ómar Ragnarsson þykist orðinn mesti hag-, verk- og tæknifræðingur þessarar þjóðar þá er allt í einu núna í lagi að þruma línulögn norðan úr landi - helst í gegnum Mývatnssveit - bara ef Kárahnjúkastíflan fengi að hanga þurr fyrir veggjakrot!
En snautlegast finnst mér samt í þessu Ómarsmáli að heyra yfirmenn hans hjá RÚV bjóða þjóðinni uppá að maðurinn verði áfram í starfi - fjalli bara ekki um umhverfismál. Hvernig getur fréttamaður á sjálfu Ríkissjónvarpinu verið hlutlaus að hluta! Eða væri þá ekki eðlilegt að hann fengi laun að hluta, samkvæmt "starfsgetu"? Maðurinn er nefnilega ekki aðeins búinn að blanda sér formlega í umhverfismál heldur kemur hann því að í öllumviðtölum að hann muni ljá krafta sína til að stofna stjórnmálaflokk - systurflokk vinstri grænna! Það er aldeilis kúnstugt að nú þegir Steingrímur J. og Vinstrigræna hreyfingin gervöll! Ekki fer nú fyrir fagnaðarlátunum á þeim bænum og sjaldan verða þau nú kjaftstopp, Steingrímur, Kolla og Ögmundur!

Jóhann Ólafur

Jóhann Ólafur Halldórsson (IP-tala skráð) 29.9.2006 kl. 22:26

3 identicon

Varðandi raflínulagnir: Enn sem komið er hefur ekki verið til umræðu að leggja raflínur í jörð eins og nú er unnið að frá Dalvík til Ólafsfjarðar og það einfaldlega slegið af og bara sagt of dýrt. "Of dýrt" er ákaflega teygjanlegt hugtak sem mætti vel taka inn í arðsemisútreikninga við álframleiðslu. Prívat og persónulega langar undirritaðan sáralítið í félagsbúskap við raflínur og burðarvirki þeirra - og reyndar freistar búseta neðan Kárahnjúkastíflu ekki giska mikið heldur.

Þórir Jónsson (IP-tala skráð) 30.9.2006 kl. 13:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 210181

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband