Af heimspeki og leikaraskap

Þingmenn í leynisprungu III
Þingmenn í leynisprungu

Mikið gladdi það hjarta gamals MA-ings að lesa boðskap læri- og skólameistarans, Tryggva Gíslasonar, í laugardagsblaði Mogga. Hann óskaði meira að segja að Austfirðingum til hamingju með virkjun og álver, sem er meira en pólitískusar þora að gera nú um stundir – þ.e.a.s. þeir sem stóðu að því að samþykkja á sínum tíma stóriðju og tilheyrandi virkjun þar eystra. Látum vera þó forysta Samfylkingarinnar hafi söðlað um og telji sér best borgið í kosningabaráttunni framundan sem einhvers konar vinstri grænt afrit í umhverfispólitík. Skrýtnara er að sjá að stjórnarflokkarnir halda málinu heldur ekki á lofti eins og þeir auðvitað eiga að gera. Eðalkratinn Birgir Dýrfjörð, úr forystusveit Samfylkingarinnar, tekur foringja sína til bæna í laugardags-Morgunblaði í tilefni af sinnaskiptum þeirra og segir að rekja megi þetta til manns sem þingflokkurinn réði til að skrifa stefnu flokksins um náttúruvernd: ,,Hann er að sögn hinn mætasti maður, lærður leikari með svo einbeittan vilja til náttúruverndar, að það jafnast á við að flokkurinn fengi Gunnar í Krossinum til að skrifa fyrir sig stefnu um fóstureyðingar og málefni samkynhneigðra.” Amen. Svo vill til að einmitt nefndur leikari leggur undir sig miðopnu lesbókar Morgunblaðsins einmitt núna um helgina en lesbókin er fyrir löngu orðið einn helsti vettvangur skírlífis- og ofsatrúarmanna í umhverfismálum. Þarna er líka birtur pistill í sama dúr frá lektor í heimspeki og stjórnarmanni Náttúruverndarsamtaka Íslands. Í þessum skrifum kennir ýmissa grasa sem vert væri að nefna. Látum eftirfarandi duga:

  1. Fullyrt er að borun ganga Kárahnjúkavirkjunar sé ,,langt á eftir áætlun”.
    • Svar: Eigi veit ég gjörla hvað telst stutt og hvað langt í tímans ranni í heimspeki en gert var ráð fyrir að lokið yrði við að bora aðrennslisgöngin í september 2006. Nú blasir við að þetta gerist í nóvember 2006. Með öðrum orðum tveggja mánaða seinkum sem reynt verður að vinna upp í vetur. Þetta er nú öll seinkunin sem klifað er á!
  2. Fullyrt er að framkvæmdakostnaður hafi farið ,,marga milljarða fram úr áætlun.”
    • Svar á skýrri íslensku: silkitær lygi. Fjárhagsáætlun verkefnisins hefur staðist og það þó að búið sé að semja um viðbótargreiðslur til verktaka fyrir vegna meiri bergþéttingar undir stíflum, tafir boranna í lausu bergi osfrv. Það er nefnilega svo að margir verkþættir eru á undan áætlun og kosta minna en ætlað var, nokkrir eru hins vegar eitthvað á eftir áætlun eða kosta meira en áætlað var. Í heildina tekið hefur kostnaður við virkjunina hins vegar ekki farið fram úr áætlun en vera má að virkjunin verði ræst allt að tveimur mánuðum síðar en ætlað var – ef ekki tekst að vinna upp tafir í vetur. Þannig er þetta nú bara hvað sem menn bulla og rugla um milljarða framúrkeyrslu. Lygi verður ekki að sannindum bara við það að endurtaka hana nógu oft.
  3.   Fullyrt er að Kárahnjúkavirkjunarmálið hafi verið ,,keyrt í gegnum þingið á ofurhraða af óbilgirni”, stjórnvöld hafi þaggað niður í vísindamönnum og beitt Alþingi ,,vísvitandi blekkingum og hylmingum til að koma í veg fyrir upplýsta umræðu.”
    • Svar: Vonandi á leikarinn, sem skrifaði Samfylkinguna til vinstri á grænu í umhverfispólitík, einhverja innistæðu fyrir svo svakalegu fullyrðingum. Sjálfur fylgdist ég með störfum Alþingis í hátt í tvo áratugi sem þingfréttaritari þriggja fjölmiðla og get ómögulega séð annað en virkjunarmálið hafi farið á ósköp hefðbundnu róli um löggjafarsamkunduna. Ætli kjarninn sé ekki bara þessi gamli og góði að andstæðingar virkjunarmálsins vildu bara alls enga afgreiðslu þess á þingi og finna síðan málsmeðferðinni allt til foráttu frekar en láta kyrrt liggja. Greinargerð Gríms á Orkustofnun var á ferðinni víða á sínum tíma, innan þings og utan. Upplýst var meira að segja á dögunum að um hana hafi verið þvargað á þingfundi. Leyndin var nú ekki meiri en svo, þrátt fyrir að hún hafi verið stimpluð sem trúnaðarmál í kerfinu. Engin ástæða var til slíks. Best hefði verið að birta hana strax í heild á forsíðu Moggans – eða þess vegna í lesbókinni. Grímur hafði meðal annars efasemdir um að bortæknin hentaði við íslenskar aðstæður. Staðreyndin er samt sú að gengið hefur ljómandi vel að bora víðast hvar en einn borinn lenti hins  vegar í erfiðu misgengi og var stopp mánuðum saman á meðan bergið umhverfis var þétt. Þarna fékkst reynsla sem nýttist í misgengjum sem á eftir komu. Staðreyndin er hins vegar sú að tafir við borun stafa bara að hluta af misgengjum. Þær stafa ekki síður af  þrálátum vandræðum með færibönd boranna,  einkum samt við bor 1. Slíkar tafir skrifast fjandakornið ekki á íslenskt berg heldur á ranga hönnun þessa búnaðar sem fylgdi bor 1. Svo er klifað áfram á að þaggað hafi verið niður í einhverjum vísindamönnum. Samt hafa vísindamenn, fræðingar og spekingar af öllu mögulegu tagi tjáð sig stöðugt um virkjunarmálið alla tíð og gera enn. Það er vel. Gat ekki títtnefndur Grímur til dæmis skrifað blaðagrein á sínum tíma og þess vegna líka bæði fyrr og síðar? Og svo í bláendann fáein orð um meintan blekkinga- og feluleik gagnvart Alþingi sem enn er klifað á, til dæmis í grein leikarans í lesbókinni. Þannig hefur  verið fullyrt aftur og aftur að þingmenn hafi verið leyndir því að á stíflustæðum Hálslón væru sprungur í jörðu. Nú vill svo til að ég varð nokkrum sinnum vitni að því að fastanefndir Alþingis kynntu sér virkjunarmál á vettvangi eystra, bæði áður en ákveðið var að virkja og eftir að framkvæmdir hófust. Iðnaðarnefndin hefur til dæmis farið nokkrum sinnum þarna um og einu sinni var sérstaklega stoppað við sprungur, sem búið var að hreinsa jarðveg ofan af undir öðrum enda Desjarárstíflu, til að þingmennirnir gætu gert sér grein fyrir hvernig sprungið bergið liti út og hvernig staðið væri að því að fylla og þétta. Ég  tók meira að segja myndir af Alþingi að stúdera sprungurnar og læt eina fylgja með að gamni. Hún sýnir tvo Samfylkingarþingmenn í hópnum bókstaflega ofan í stærstu sprungunni á svæðinu. Þannig var nú farið að því að leyna þá upplýsingum um sprungna jörð við Kárahnjúka!

Þingmenn í leynisprungu II

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 210248

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband