Áheyrilegir framboðsþættir

Framboðsþættir Útvarpsins í Suðurkjördæmi og útsending Sjónvarpsins frá Ísafirði í gærkvöld voru ljómandi vel heppnaðir og áheyrilegir. Nú er staðfest að þetta skipulag Útvarpsins, það er að segja að útvarpa úr sama kjördæmi að morgni dags og aftur síðdegis, gengur ágætlega upp. Það kemur nefnilega á daginn að þessi síðdegistími er mjög ákjósanlegur til að hlusta á framboðsfund í útvarpi. Ísafjarðarþáttur Sjónvarpsins var mun betur heppnaður en hliðstæð útsending frá Selfossi á dögunum. Stjórnendurnir höfðu stjórn á umræðunum og þátttakendum í þeim og fulltrúar flokkanna voru líflegir flestir líflegir líka. Að vísu var undarleg ráðstöfun hjá vinstri-grænum að senda óvana menn gegn atvinnukjaftöskunum í þungaviktarumræður um samgöngur og sjávarútvegsmál en þeir um það. Samgönguráðherrann mætti vel stemmdur til leiks og var fastari fyrir í sókn og vörn en menn hafa vanist af honum svona að jafnaði. Það kom ágætlega út en virtist slá suma aðra í hópnum út af laginu á köflum. Í sjávarútvegsumræðunni situr hins vegar helst eftir að Össur var ljúfur eins og lamb, sáttfús og blíður. Sú sjávarútvegspólitík sem hann boðaði þarna var önnur og friðsamlegri en Samfylkingin var með í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum,  reyndar svo mjög að sjávarútvegsráðherrann varð hvumsa við í þættinum. Kapphlaup samfylkingarmanna og vinstri-grænna um að komast í ríkisstjórn (með sjálfstæðismönnum) tekur þannig á sig ýmsar myndir. Allt er nú boðið á góðum afsláttarkjörum, meira að segja taldi varaformaður vinstri-grænna í útvarpsviðtali hér á dögunum að einkavæðing orkufyrirtækjanna væri ekkert úrslitaatriði í stjórnarmyndunarviðræðum.  ,,Það gerist svo margt í beinni útsendingu," segir Hemmi Gunn gjarnan þegar hann þarf að afsaka eitthvað sem aflaga fer í þáttum hjá honum.  Sama trix er auðvitað hægt að nota í stjórnarmyndun, skítt með kjósendur og kosningavíxla.

Útvarpið var svo í morgun með Jón Sigurðsson í fyrstu foringjayfirheyrslunni fyrir kosningar. Það var ekki áhugahvert prógramm og alveg einstaklega fyrirsjáanlegt. Það gengur ekki að kalla formann í stjórnmálaflokki í 20 mínútna spurningaleik og nánast allar spurningar og öll svör eru margþvældar þulur og fyrirsjáanlegar í alla staði. Þarna vantaði meiri og betri heimavinnu spyrlanna. Markmiðið á að sjálfsögðu að vera að nálgast viðmælandann úr óvæntum áttum, í og með að minnsta kosti! Ef að stjórnmálamennirnir brúka sömu svörin við fleiri spurningum, eins og gerðist í þessum þætti í morgun, þá er eitthvað að spurningunum og stjórn yfirheyrslunnar!


Af fyrirtækjaheitum

Ég rakst á klausu í nýjasta tölublaði Sunnlenska fréttablaðsins um fyrirtæki á Suðurlandi sem er í rekstrarerfiðleikum með tilheyrandi veseni. Það heitir Í skilum ehf. og er sum sé komið á nauðungaruppboð vegna vanskila. Nafngiftir fyrirtækja eru vandaverk. Aðstendendur Í skila ehf. eiga í það minnsta þakkir skildar fyrir að hafa gripið til móðurmálins þegar þeir stóðu forðum frammi fyrir spurningunni: Hvað á barnið að heita? Þeir hafa hins vegar verið bjartsýnir úr hófi fram með rekstrargrundvöllinn hjá sér í upphafi, annars hefðu þeir trúlega valið félaginu annað heiti. Vonandi klórar Í skilum ehf. sig fram úr erfiðleikunum og verður áfram í  blómlegri fyrirtækjaflóru Suðurlands. Annað fyrirtæki og öllu þekktara gufaði hins vegar upp um helgina og er ekki lengur í fyrirtækjaflóru landsmanna, Olíufélagið ESSO. Það rann inn í fyrirtækjaklúbb eigenda sinna og heitir nú því sérlega frumlega og þjála heiti N1. Einhvers staðar las ég að það hefði tekið marga mánuði að fá botn í hvað barnið ætti að heita og það skil ég vel. Það flýtti hins vegar mikið fyrir að á Akureyri hefur lengi verið til fjölmiðlafyrirtæki sem neitir N4 og merki þess er meira að segja hvítir stafir á rauðum grunni. Hugmyndafræðingar Enn eins aulaheitisins í fyrirtækjaflórunni þurfu því ekki annað en breyta fjórum í einn og græjuðu það með glans á nokkrum mánuðum. N1 kraftaverk íslenskrar þjóðar, svo gripið sé til tungutaks þeirra sem sendu ESSO til himna um helgina.

Stöð 2 og Útvarpið glansa, Sjónvarpið höktir

Kosningaumfjöllun Stöðvar 2 og Útvarpsins fer mjög vel af stað en Sjónvarpið þarf að taka sig á. Útvarpsmenn leyfa möguleikum miðilsins að njóta sín með því að fara inn á nýjar og ferskar brautir, til dæmis í úttekt á Norðausturkjördæmi í dag. Þar var kjördæmið dekkað að morgni dags og aftur síðdegis í samtengdum útsendingum frá Sauðarkróki, Ísafirði og Borgarnesi. Þannig var þetta sundurleita kjördæmi saumað saman í spjalli og pælingum sem lyktaði með hringborðsumræðum foringjanna í kjördæminu. Þetta tókst ljómandi vel og heitt var í kolum. Umræður í sjónvarpi eiga það til að vera þvingaðar og líflitlar en þarna losuðu menn um bindishnúta og rifust. Stjórnendur morgun- og síðdegisútvarps höfðu gott vald á hlutunum og þessi nýbreytni Útvarpsins kallar vissulega á að lagt sé við hlustir líka í næsta kjördæmi og helst því þarnæsta líka...

Kjördæmaþættir Stöðvar tvö fóru af stað fyrir páska í Stykkishólmi, síðan barst leikurinn til Akureyrar og í kvöld var röð komin að Selfossi vegna Suðurkjördæmis. Þetta voru allt ljómandi áheyrilegir þættir og þeim var undantekningarlítið vel stjórnað. Það skiptir nefnilega miklu máli að svona prógrammi sé stýrt af myndugleika og hæfilegri ágengni en að áheyrendur og áhorfendur fái líka góðan skammt af gagnrýnni umfjöllun og fróðleik í bland. Þetta gengur allt saman bærilega upp hjá Stöð 2 svo úr verða þættir sem maður missir helst ekki af. Útvarpið lofar líka góðu að í þeim efnum.

Sjónvarpið sendi út frá frá Selfossi í gærkvöld. Það var á köflum þokkalegasta umræða, samt ekki jafn lífleg og á Stöð 2 á sama stað núna í kvöld. Þetta eru reyndar ekki sambærilegir þættir, annars vegar hrein kjördæmaumræða á Stöð 2 en landbúnaður og utanríkismál í Sjónvarpinu. Stjórnendur umræðna af hálfu Sjónvarpsins á Selfossi ættu að taka sér tak fyrir næsta þátt. Það var sérstaklega áberandi í seinni kaflanum þegar utanríkismál voru tekin fyrir. Stjórnandinn missti tökin úr höndum sér og virtist ekki fylgjast með hvað klukkunni leið. Alla vega vona ég að „mannleg mistök" af einhverju tagi sé skýringin á að sjálft Íraksstríðið komst ekki að í sérstökum utanríkismálaþætti vegna þingkosninga árið 2007! Of langur tími fór í útlendingafjas frjálslyndra og menn endurtóku sig þar hvað eftir annað. Varaformaður frjálslyndra tók í reynd stjórnina í sínar hendur um skeið, sem var nú ekki beinlínis til að flikka upp á þáttinn.

Óþarft er að hafa mörg orð um umræður stjórnmálaleiðtoganna í Sjónvarpssal að kvöldi annars dags páska. Þær voru í alla staði fyrirsjáanlegar og undarlega lausar við að vera áhugaverðar, ef undan er skilin rimma um skattamál. Þátturinn í heild var náttúrulaus og leiðinlegur. Stjórnendur hefðu getað blásið í glæður með nýjum sjónarhornum eða óvæntum spurningum en voru greinilega ekki búnir undir slíkt. Þeir létu lulla áfram í hlutlausum gír, sem er út af fyrir sig þægilegt og orkusparandi en ekki sérlega tilþrifamikið.


Engin hreyfing og því síður Ísland

Framboðshópur með veglegt nafn skorar ekki hjá kjósendum. Svokölluð Íslandshreyfing stendur hvergi undir nafni og er stóra floppið í kosningunum að þessu sinni. Niðurstöður skoðanakannana mæla þetta framboð aftur og aftur í kringum fjögur prósent, meira að segja í Suðurkjördæmi þar sem fyrirfram hefði mátt ætla að eitthvað myndi reitast að því af atkvæðum út á allt moldviðrið vegna Þjórsárvirkjana. En ekkert gengur og engin teikn eru á lofti um að restin af kosningabaráttunni breyti nokkru þar um. Vinstrigrænum er sýnilega létt enda hefði það einkum verið ógn við þá – og hugsanlega Samfylkinguna og frjálslynda að einhverju leyti líka – ef Íslandshreyfingunni hefði tekist að ná einhverju flugi. Niðurstöður skoðanakannana staðfesta það. Ómar hefur trúlega toppað í göngunni miklu í miðbænum í vetur og haldið að þá væri að rísa bylgja sem á endanum fleytti fjölda fólks af Austurvelli inn í sali Alþingis. En svo kemur á daginn að þarna hafa sennilega aðallega verið verðandi kjósendur vinstrigrænna á rölti með blys á lofti. Íslandshreyfingin er reyndar ekki á meiri hreyfingu en svo að hún á í basli við að koma saman framboðslistum. Jakob Frímann lá þannig í símanum um páskana og hringdi út og suður um landið til að bjóða hinum og þessum upp í dans. Viðmælendur hans skildu erindið eindregið á þann veg að spurn eftir frambjóðendum væri áberandi meiri en framboðið. Og enn sjást engir framboðslistar.


Þetta eru allt saman asnar, Guðjón

Þingflokksformaður Samfylkingarinnar tjáði sig óvenju skýrt um gáfnafar forystusveitar Frjálslynda flokksins á einhverjum safnaðarfundi í dag. Í kvöldfréttum Útvarpsins sagði Össur Skarphéðinsson að frjálslyndir skildu ekki samninginn um evrópska efnahagssvæðið og boðaði námskeið í þessum fræðum fyrir þessa bandamenn í stjórnarstöðunni til að gera þá ríkisstjórnartæka í vor - ef til kæmi. Það yrði óvenjulegt í stjórnarmyndun að setja menn í gáfnapróf til að kanna hvort þeir séu tækir til starfa í Stjórnarráðinu. Hins vegar er þetta skiljanlegt húsráð hjá Össuri, ef rétt reynist að svona tómlegt sé innan höfuðskelja frjálslyndra. Vér fylgjumst auðvitað spennt með asnastykkjum í pólitík. Össur er líffræðingur, að vísu sérmenntaður í kynlífi laxfiska, en veit trúlega hvað hann syngur með þeirri dýrafræðilegu greiningu að frjálslyndir tilheyri stofni sem ber fræðiheitið Equus asinus.

Pirraðir prestar og aulabrandarar

Ef að þjónar Þjóðkirkjunnar komast að því að það varði við lög að efna til þessa úrslitakvöld á föstudaginn langa er það einfaldlega lögreglumál og hlýtur lögreglan einfaldlega að skakka leikinn - nema þá að þeir hempuklæddu telji að löggan eigi að hafa hægt um sig líka á þessum helgasta helga degi ársins hjá kirkjunnar fólki. Ég minnist þess að hestamannafélag við Eyjafjörð auglýsti keppni í ístölti á föstudaginn langa hér um árið og sóknarprestur í héraðinu taldi slíkt raska helgiró kristinna manna og varða við landslög líka. Þjóðkirkjan sá hins vegar að sér og hrossin töltu um ísinn. Kristihaldið beið ekki nokkurn skaða af og ég efast um að einhverjir aulabrandarar í sal í Reykjavík breyti nokkrum sköpuðum hlut til eða frá um kristnihald landsmanna um páskana. Þjóðkirkjumenn ættu frekar að nota krafta sína í að berja saman ræður fyrir guðsþjónusturnar sínar um hátíðar en að taka þátt í að auglýsa þetta úrslitakvöld. Betri og ódýrari auglýsingu fær samkoman nefnilega ekki en þennan pirring prestanna.


mbl.is „Fáránlegt“ að úrslitakvöld Fyndnasta manns Íslands sé á föstudeginum langa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafnfirðingar og Vaðlaheiði

Það eru mikil tíðindi að hafnfirskir kjósendur skyldu ofan á allt annað hafa greitt atkvæði um hvernig staðið skyldi að jarðgangagerð gegnum Vaðlaheiði. Skyldu þeir hafa verið klárir á því sjálfir? En það má segja Samfylkingunni til hróss að nú er komið á samræmi í afstöðu frambjóðenda flokksins í norðurlandskjördæmunum til ríkisforsjár/einkarekstrar í samgöngumálum. Áður hefur komið fram að Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi vill þjóðnýta Hvalfjarðargöngin og þá skar nokkuð í augu að Samfylkingin í Norðausturkjördæmi gæti á sama tíma hugsað sér Vaðlaheiðargöng sem einkaframkvæmd með tilheyrandi veggjöldum. En nú hefur sem sagt komið skýrt fram að ríkisvæðing skal það heita, bæði undir Hvalfirði og Vaðlaheiði. Og þá veit maður það að frjálslyndi jafnaðarmannaflokkurinn er í það minnsta ekki alveg nógu frjálslyndur til að þola einkarekstur á samgöngusviðinu. Það er nú það og svo er nú það.
mbl.is Samfylkingin vill að ríkið kosti Vaðlaheiðargöng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 210864

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband