Puttar í eyrum og dramatík á Drekasvæði

Það sem helst situr eftir frá uppgjöri stjórnmálaleiðtoganna í sjónvarpssal í gærkvöld er myndin af fulltrúa Borgarahreyfingarinnar með putta í eyrum til að verja hljóðhimnurnar fyrir áreitni þegar Bjarni Ben og Jóhanna Sig görguðust á um eitthvað sem ég man ekki hvað var. Umræðan var annars eftir bókinni og fyrirsjáanleg, enda efnistök spyrlanna fyrirsjáanleg. Það var bara farið í „málin “ eitt af öðru og engin einasta spurning kom gestum í opna skjöldu. Þeir gátu sagt sér sjálfir hverju mætti eiga von á. Það hlýtur nú að vera hægt að finna svo sem eina spurningu á mann sem kemur viðmælandanum á óvart og kryddar tilveruna fyrir þá sem heima sitja.


Sigmundur framsóknarformaður má hins vegar eiga það að koma Steingrími J. á óvart í upphafi þáttar og þjarma að honum út af einhverju undarlegu leyniskýrslumáli varðandi bankahrunið og þau ósköp öll. Steingrímur lenti þar í vörn og náði sér ekki á strik eftir það. Þetta var ekki kvöldið hans. Þetta var heldur ekki kvöldið hennar Jóhönnu en samt átti hún spretti, til dæmis þegar henni tókst að koma Bjarna Ben í vörn um stund í síðari hálfleik. Það var ekki nógu létt yfir ríkisstjórnarparinu, þau gátu alveg leyft sér að vera ögn glaðbeittari.


Bjarni komst í stórum dráttum vel frá þættinum og var einmitt dálítið glaðbeittur. Guðjón Arnar átti ágætan dag og einfalda þulan hans um ríkisfjármálin er reyndar það sem situr eftir í hausnum á mér eftir tveggja klukkutíma mal leiðtoganna. Sigmundur gerði sig betur þarna en í fyrri þáttum í kosningabaráttunni og mátti nú ekki seinna vera. Ef frammistaða stjórnmálaforingja í svona þætti skiptir á annað borð einhverju máli fyrir sveimhuga og óákveðna kjósendur ættu Frjálslyndir og Framsókn að hagnast eitthvað á leiðtogauppgjörinu og ekki er fráleitt að hugsa að einhverjir sjálfstæðismenn, sem hugðust sitja heima eða skila auðu, hafi ákveðið að lufsast á kjörstað og kjósa flokkinn sinn eftir allt saman upp á gamlan vana.


Hver hefði annars trúað því í janúar og febrúar í vetur að kosningabaráttan í heild yrði svo venjuleg og jafnvel syfjuleg á köflum sem raun ber vitni um? Fjandakornið að að hægt sé að merkja einhvern mun. Flokkarnir í sömu gömlu hjólförunum, fjölmiðlarnir líka.  Það er eins og gerst hafi í gær. Meira að segja Borgarahreyfingin – sem engin merki eru reyndar um að sé raunveruleg hreyfing – er ekki fersk á neinn hátt heldur gengur inn í settið sem „gömlu flokkarnir“ hafa smíðað og tekur á sig þreytulegt yfirbragð dægurstjórnmálanna fyrir aldur fram. Undarlegt að upplifa þetta eftir allt sem á undan er gengið í vetur!


Ímynd og yfirbragð kosningabaráttunnar birtist ekki síst í auglýsingum. Þar þykir mér Framsóknarflokkurinn og auglýsingastofa hans verið með forvitnilegasta innleggið, litaglatt og ferskt. Auglýsingaherferð vinstri-grænna er líka býsna frískleg, ég er alltaf hrifinn af því þegar andlitsmyndir af fólki eru skornar þröngt og karakter fyrirsætanna dreginn þannig sterkt fram. Auglýsingar Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins eru hins vegar kunnuglegar. Þær koma fyrir sem endurtekið efni og skortir frumleika og hugmyndaflug sem merki eru vissulega um hjá hjá Framsókn og vinstri-grænum. Auglýsingar Frjálslynda flokksins eru hallærislegar og ekki orðum á þær eyðandi. 


Skýr teikn eru á lofti um að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi einn flokka að taka á sig skell af efnahagshruninu með fylgishruni. Það er nokkuð sem flokksforystan virðist bara hafa sætt sig við orðinn hlut og reynir í besta falli að takmarka tjónið. Haarde og Davíð er kennt um allt saman. Samfylkingin var líka í ríkisstjórn í hruninu með bankamálaráðherrann og Fjármálaeftirlitið undir sinni stjórn en sleppur samt, þökk sé Jóhönnu.


Framsóknarflokkurinn nær engu flugi og ef niðurstaðan verður sú að hann er hjakkar í svipuðu fari nú og í kosningunum 2007 er það auðvitað kjaftshögg og ávísun á enn ein formannsskiptin þar á bæ. Framsókn hefur verið utan ríkisstjórnar frá 2007 og hefði átt að fiska eitthvað út á það en gerir ekki.


Frjálslyndi flokkurinn er á útleið, hvort sem hann nær inn manni nú eður ei. Tími hans er liðinn. Borgarahreyfingin er skyndibiti og á útleið líka hvort sem hún fær mann eða menn kjörna nú eður ei. Hún á ekki langlífi fyrir höndum.


Vinstri-grænir munu bæta stórlega við sig frá síðustu kosningum og voru reyndar á slíku flugi í síðustu viku að stefndi í enn meira og jafnvel að þeir sigldu upp fyrir Samfylkinguna. Svo fór greinilega að hægast um í byrjun vikunnar og að kvöldi vetrardags stoppaði Kolbrún umhverfisráðherra fylgisstrauminn með nokkrum velvöldum setningum á Stöð tvö og gerði reyndar gott betur. Hún sá til þess að einhver og einhverjir sem ella hefðu sest á Alþingi fyrir flokkinn verða áfram þar sem þeir eru. Umhverfisráðherrann lýsti því sem sagt yfir að flokkurinn væri á móti olíuleit og olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Sú yfirlýsing jafngilti sprengju sem varpað var inn í kjörvígi Steingríms formanns á norðausturhorni landsins og víbrarnir fundust  greinilega víðar um land, líka í höfuðborginni. Það var ótrúlega áþreifanlegt hve snögg og ákveðin áhrif ummælin höfðu gagnvart vinstri-grænum. Flokksforystunni tókst ekki að bæta skaðann þrátt fyrir að hún sendi út yfirlýsingu klukkustundu síðar þar sem ummælum umhverfisráðherrans var afneitað. Þar með fauk ráðherrastóllinn Kolbrúnar.


Drekasvæðið varð svo sjálfum flokksformanninum, Steingrími J., fótakefli og tungubrjótur tveimur kvöldum síðar og örlagavaldurinn var sem fyrr hinn dugmikli og klóki fréttamaður Stöðvar tvö, Kristján Már Unnarsson. Hann neyddist til að spyrja Steingrím sjö sinnum hvort vinstri-grænir styddu olíuvinnslu á Drekasvæðinu og fékk á endanum svar sem efnislega var á þá leið að flokkurinn styddi rannsóknir en nógur tími væri til þess síðar að ræða um sjálfa vinnsluna. Kvöldið eftir birtist yfirmaður á Orkustofnun á skjá Stöðvar tvö og sagði flokksformanninn ekki skilja málið því leyfi til rannsókna væru jafnframt vinnsluleyfi á Drekanum. Enn supu menn hveljur á norðausturhorninu.


Kolbrún í klóm drekans

Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra á ekki sjö dagana sæla í eigin flokki. Hún fór illa út úr prófkjöri í kjördæminu sínu í vetur og mátti þakka fyrir þriðja sætið á framboðslistanum.

Í kvöld sagði hún í fréttum Stöðvar tvö að vinstri-grænir væru andvígir olíuleit á Drekasvæðinu og fór miður fögrum orðum um slíkar og þvílíkar hugmyndir.

Þegar leið á kvöldið barst fjölmiðlum yfirlýsing frá vinstri-grænum þar sem þessi ummæli voru rekin öfug ofan í kok ráðherrans: Vinstrihreyfingin – grænt framboð áréttar að flokkurinn hefur ekki lagst ekki gegn olíuleit á Drekasvæðinu.

Á tímabili í kvöld voru tvær gjörsamlega gagnstæðar fréttir um stefnu flokksins í málinu á forsíðu mbl.is!

Drekar eru ekki lömb að leika sér við, hvorki í ævintýrum né í pólitík.

 

VG-gegn-drekanum-vonda

VG-með-drekanum-góða

Á visir.is voru sömu fréttir birtar samtímis á forsíðunni í kvöld og á milli þeirra reyndar skotið tíðindum sem flokkast væntanlega undir dapurlegt umhverfisslys af einhverju tagi: Lindsay Lohan veslast upp úr ástarsorg. Skyldi hún annars vera með eða á móti olíuleit á Drekasvæði, horrenglan sú?

 

nei nei og já já


Hvað eru þrenn Hvalfjarðargöng á milli vina?

Mér brá eins og fleirum þegar Stöð tvö flutti þær fréttir í gærkvöld að einn af stærstu lífeyrissjóðunum í landinu hefði tapað 60 milljörðum króna á síðasta ári. Það voru að sönnu ekki ný tíðindi að lífeyrissjóður hefði tapað miklum fjármunum í efnahagshruninu en þessi tala var himinhátt fyrir ofan allt sem áður hafði heyrst í þeim efnum frá einum sjóði á árinu 2008.

Þegar að var gáð kom í ljós að hér var ekki allt sem sýndist. Í nýjum ársreikningi  Gildis kemur nefnilega skýrt fram að hrein eign sjóðsins hafi rýrnað um ríflega 29,3 milljarða króna árið 2008 og að tap af fjárfestingum hafi verið 34, 2 milljarðar króna. Þetta var með öðrum orðum tapið á Gildi, 34,2 milljarðar króna, og býsna sennilegt að öllum sem málið varðar þar á bæ þyki afkoman nógu slæm í veruleikanum þó ekki sé nú bætt við heilum 26 milljörðum króna til að koma tölunni alla leið  upp í 60 milljarða króna! Þarna er með öðrum orðum skrökvað tapi upp á Gildi sem svarar til meira en þriggja Hvalfjarðarganga á núvirði og munar um minna –  jafnvel nú á síðustu og verstu Icesave-tímum.

Nú veit ég ekki hvernig þessi 60 milljarða króna taptala er tilkomin í fréttinni umræddu en leyfi mér að giska á að svar við þeirri spurningu sé að finna á blaðsíðu 19 í ársreikningi Gildis. Þar er birt tryggingafræðileg úttekt á Gildi og heildarstaða sjóðsins er þar metin neikvæð um 59,6 milljarða króna. Líkast til eru þarna komnir 60 milljarðirnir sem var efni í fréttauppsláttinn um aðalfundinn. Tryggingafræðileg staða er hins vegar allt önnur Ella en rekstrartap.

Þarna er með öðrum orðum verið að meta núverandi stöðu sjóðsins til framtíðar miðað við að honum hefði verið lokað um síðustu áramót og engir nýir sjóðfélgar teknir inn eftir það. Þeir sem í sjóðnum væru greiddu hins vegar áfram iðgjöld sín og raunávöxtun fjármunanna væri að meðaltali 3,5% á ári, eins og lög kveða á um.  Sjóðurinn myndi síðan standa undir því sem honum er ætlað að standa gagnvart sjóðfélögum þar til yfir lyki.

Þetta er þannig reiknuð framtíðarþróun eftir formúlu tryggingarstærðfræðinnar og aldeilis fráleitt að slá heildarskuldbindingu upp í frétt sem rekstrarniðurstöðu á síðasta ári! Hins vegar hefði Stöð tvö getað notað 60 milljarðana í mínus til að skýra ástæðuna fyrir því að þessi tiltekni lífeyrissjóður ætlar að skerða lífeyrisréttindi um 10% vegna þess að eignir hans hafa rýrnað. Staða sjóðsins er þannig sú að 13% vantar upp á að eignirnar standi undir heildarskuldbindingum og samþykktir sjóðsins og landslög mæla fyrir um að ef 10% vanti þar upp á verði að bregðast við. Þau vikmörk voru að vísu hækkuð til bráðabirgða upp í 15% vegna ársins 2009 en stjórn Gildis taldi hins vegar eðlilegt að lækka réttindin strax frekar en að bíða með það fram á næsta ár. Fleiri sjóðsstjórnir eru sama sinnis.


Vel má vera að viðmælandi Stöðvar 2, sjóðfélagi á ársfundinum, hafi misskilið ársreikninginn sinn svona svakalega og vitleysan ratað áfram út á öldur ljósvakans. Ágæt vinnuregla í fréttamennsku er hins vegar að „tékka sig af“ og sannreyna í sjálfum aðalfundargögnunum að rétt sé farið með grundvallaratriði af þessu tagi. Nóg er nú af erfiðleikum og fári í umhverfinu og í fréttum þótt  tap á ágætum lífeyrissjóði sé ekki aukið út í loftið um 75%!


Ég hugsa að Ari Edwald, forstjóri 365, myndi ekki þakka fréttastofunni sinni fyrir að nota sömu formúlu til að segja þjóðinni frá afkomu hins geðþekka fjölmiðlafyrirtækis sem rekur Stöð 2. Meira segja þar á bæ hlýtur að muna um keppi upp á meira en hálfan þriðja tug milljarða króna í sláturtíðinni.


Skrítnar skepnur í pólítík

Eitthvað meira en lítið þarf að gerast á næstu sólarhringum til að breyta því pólítíska landslagi sem við blasir: að kjósendur dubbi núverandi minnihlutastjórn upp í meirihlutastjórn á laugardaginn kemur.  Spurningin er frekar sú hvor flokkurinn verður stærri þegar upp er staðið. Hluti þess fólks sem kýs stjórnarflokkana er á móti stefnu þeirra í veigamiklum atriðum en kýs þá samt. Þetta er þverstæða en  stafar annars vegar af því að kjósendur eru á stundum skrítnar skepnur en hins vegar af sérstæðum aðstæðum í þjóðlífinu nú. Ég hefi til dæmis hitt á förnum vegi fólk sem veltir fyrir sér að kjósa vinstri græna en er fylgjandi álverum í Helguvík og Húsavík. Það gerir sér grein fyrir því að flokkurinn er þversum í stóriðjumálum en spáir samt í að greiða honum atkvæði! Ég hef líka hitt fólk á förnum vegi sem getur hugsað sér að kjósa annan hvorn stjórnarflokkinn þó það sé algjörlega andvígt yfirlýstri stefnu flokkanna um að ríkisvæða sjávarútveginn með fyrningu aflaheimilda en spáir samt í að greiða þeim atkvæði!


Þetta er birtingarmynd fyrirbæris sem kalla má stemningu og oft verður vart við í kosningabaráttu. Nú um stundir njóta Samfylkingin og vinstri grænir góðs af stemningu, einkum síðarnefndi flokkurinn. Enn ein mótsögnin er reyndar sú að ríkisstjórnarflokkar búi við stemningu í aðdraganda kosninga, oftar er stjórnarandstaða í slíkri stöðu eðli máls samkvæmt.


Samfylkingunni virðist, merkilegt nokk, ekki vera refsað fyrir að vera í ríkisstjórn í efnahagshruninu. Framsóknarflokkurinn virðist, merkilegt nokk, ekki njóta þess að hafa ekki verið í ríkisstjórn í hruninu og hann nýtur þess heldur ekki að hafa haldið á ríkisstjórninni undir skírn. Það stefnir í að Sjálfstæðisflokkurinn einn taki út refsingu fyrir hrunið og stóra spurningin er hve stór skellurinn verði. 


Hvers vegna kýs fólk flokka sem það er jafnvel ósammála í meginatriðum þegar flett er upp í stefnuskrám þeirra?  Núna er nærtækt að nefna formenn ríkisstjórnarflokkanna til að skýra fylgið sem flokkunum þeirra mælist núna. Jóhanna og Steingrímur J. hafa lengsta stjórnmálareynslu allra á Alþingi og það skilar þeim greinilega fylgi langt út fyrir raðir kjósenda sem í hjarta sínu eru hugmyndafræðilegir samherjar foringjanna tveggja í pólítík!  Þetta er svo sem vel þekkt. Sjálfstæðisflokkurinn vann glæsta sigra í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík forðum undir forystu Davíðs Oddssonar og víst er að drjúgur stokkur af atkvæðum var dreiddur D-listanum fyrst og fremst út á Davíð en ekki pólitík flokksins. Mikil stemning skapaðist í kringum Reykjavíkurlistann þegar hann kom fyrst fram í borgarstjórnarkosninum og hafði áhrif á kjósendur sem annars hefðu kosið D-listann. Steingrímur Hermannsson höfðaði til kjósenda langt út fyrir Framsóknarflokkinn, Jón Baldvin Hannibalsson og Vilmundur Gylfason höfðu að sama skapi persónuleg áhrif langt út fyrir raðir yfirlýsra jafnaðarmanna.

Steingrímur J. Sigfússon hefur náð á undraskömmum tíma að skapa sér landsföðurímynd sem dregur vagn vinstri grænna í þessum kosningum langt umfram stefnu og starf flokksins. Ímyndin er sterkt afl og þau Jóhanna mynda pólítískt par sem sankar „nýjum“ atkvæðum að Samfylkingunni og vinstri grænum. Yfirgnæfandi líkur eru á að fjöldi þessara „nýju “ atkvæða komi frá fólki sem treystir forystumönnum flokkanna en er á móti sumum eða jafnvel flestum af helstu stefnumálum flokkanna þeirra! Þannig er það nú bara.

Pólítík er skrítin skepna.


Gjaldeyrissjóðurinn lúrir á láni vegna ,,óróa í stjórnmálum"!

Sjónvarpið birti í kvöld frétt sem staðfestir þann orðróm sem uppi er í Stjórnarráði Íslands og vikið var að á þessum vettvangi fyrir helgina. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lúrir sum sé á láni sem hefði að öllu eðlilegu átt að vera búið að skila sér til íslenska ríkisins. Fulltrúi sjóðsins talaði annars vegar um það hefði dregist af „tæknilegum ástæðum“ að koma peningunum til skila, sem út af fyrir sig er forvitnilegt að heyra. Tækni hvað? Bilun í heimabanka? Hins vegar var nefndur til sögunnar „órói í stjórnmálum“. Halló! Stjórnmálaórói?! Hvað skyldi það nú nákvæmlega þýða?

Fréttastofu Ríkisútvarpsins þótti yfirlýsing talsmanns Gjaldeyrissjóðsins ekki merkilegri en svo að hún komst ekki í yfirlit kvöldfréttanna. Gott fyrir stjórnmálaflokkana. Þeir vilja örugglega tala um eitthvað skemmtilegra en aðfinnslur og þrýsting Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar til háttvirtir kjósendur eru komnir og farnir úr kjörklefanum á laugardaginn.

Einhvern tíma hefði nú orðið hvellur af minna tilefni en ummælum Franeks þessa Rozwadowskis. Hann var að vísu ekki sérlega orðmargur en ófáar voru þær semt spurningarnar sem hrúguðust upp við að hlýða á.


Af 20% leiðréttum bröns

Komin er mynd af manni á strætóskýlið efst á Grensási og flenniskilaboð með: 20% leiðrétting.  Þaut þar fram hjá áðan á heimleið úr Egilshöll og þarf að kanna málið betur vikð tækifæri á hægri ferð eða fótgangandi. Grunar að þarna sé Framsóknarflokkurinn á ferð með undarlegasta slagorð kosningabaráttunnar. Í framsóknarblaði sem borið var í hús í Fossvogi á dögunum, var mikið leiðréttingatal. Það á víst bæði að leiðrétta lán og skuldir. Leiðrétta?? Leiðrétta hvurn andskotann? Lán eru bara lán og skuldir eru bara skuldir. Skuldir aukast eða minnka eftir atvikum. Ef menn vilja minnka skuldir með einhverjum kúnstum á bara að segja það þannig. Hugtakið „leiðrétting“ kemur málinu ekkert við. Ekki nokkurn skapaðan hlut.


Verkalýðs foringja og fjölmiðlafólk með rýra máltilfinningu hafa oft og lengi tuðað um „leiðréttingu“ launa og kjara hópa á vinnumarkaði og á þá við það sem venjulegt fólk talar um sem kjarabót eða kauphækkun.  Meira að setja forseti Alþýðusambandsins talar um að „leiðrétta“  þurfi hitt og þetta þegar ég held hann eigi við að bæta þurfi kjör eða hækka kaup. Og nú kemur Framsóknarflokkuri nn og vill „leiðrétta“ heimilisskuldir landsmanna! Hvað kemur næst? 


Eina leiðréttingin sem þörf er á er að setja forystusveitir verkalýðsins og Framsóknar  á móðurmálsnámskeið og það sem fyrst. Þá er von um að frá þeim geti komið sæmilega skiljanleg og skýr skilaboð.


Á dögunum blasti við mér auglýsing í Morgunblaðinu þar sem mér var boðið í „bröns“ hjá Sjálfstæðisflokknum.  Bröns?? Ég hafði satt að segja ekki græna glóru um hvað þarna bauðst. Þarna var greinilega eitthvað sem allir áttu að þekkja og kunna. Allir nema ég en ég þorði ekki að spyrjast fyrir. Maður gerir sig nú ekki að fífli að þarflausu. Nóg er nú samt.


Mér flaug reyndar fyrst í hug að þarna væri prentvilla og ætti að vera brons, málmblandan úr kopari og tini sem notuð er í verðlaunapeninga fyrir þriðja sæti í íþróttum. Daginn áður hafði nefnilega verið birt niðurstaða skoðanakönnunar um pólítíska landslagið á landinu og Sjálfstæðisflokkurinn var þar í þriðja sæti. Sem sagt:  Má bjóða þér í brons(verðlaunaveislu)? Hljómaði þokkalega en að mér settist samt innri beygur, eðlislægur úr sveitinni.  Þetta gat svo sem verið bröns eftir allt saman.

Svo horfði ég betur á auglýsinguna. Gestgjafarnir voru þrír virðulegir forystumenn sjálfstæðismanna: Illugi og Guðlaugur Þór, framboðsleiðtogar í Reykjavíkurkjördæmunum (og ég sem man aldrei hvort ég er kjósandi í suður eða norður). Svo var með þeim Bjarni Ben, leiðtoginn fyrir landið og miðin. Bara karlar, sum sé. Var þarna komin kynjavísbending til að ráða gátuna? Var þetta einhvers konar samkunda ætluð körlum eingöngu og þá af kynþætti brönsmanna?


Samstundist laust ljóslifandi niður í kollinn l minnismiðanum sem sonurinn Helgi Hannes kom með heim úr Fossvogsskóla daginn áður:  Feðgafræðsla fyrir 11-12 ára drengi og feður þeirra, afa eða karlkyns forráðamenn, „afar mikilvægt námskeið fyrir unga drengi sem bráðum verða menn“ stóð þar. Ennfremur: „Námskeiðið er stranglega bannað stúlkum olg er alls ekki fyrir mömmur nema í undantekningartilvikum.“ Að vísu þótti mér ekki sennilegt að sjálfstæðismenn væru að bjóða körlum á kosningaaldri til sín að velta vöngum yfir typpum og kynþroska, ekki nema þá að flokkurinn teldi sig svo illa farinn að byrja þyrfti alveg á byrjuninni í uppbyggingarstarfinu og pæla í  gegnum kviknun lífs á jörðu, neðanmittisföndur Adams og Evu í aldingarðinum og samskipti kynja í höfuðborg Íslands að fornu og nýju. Líklegra var að Bjarni, Illugi og Guðlaugur Þór vildu frekar ræða kjörþroska en kynþroska karlmanna án þess að hafa konur í kallfæri á meðan. Innri beygurinn gerði samt enn vart við sig.


Neyðarúrræðið í brönsraunum var að hefja leit í orðabókasafni heimilisins. Sjaldan bregðast orðabækur þegar á reynir. Viti menn, fljótlega fann ég hugtakið bröns í skruddu sem hefur að geyma skýringar á ýmsum torkennilegum orðum og hugtökum í bókum eftir Laxness:  árdegisverður. Það var og. Sjálfstæðismenn voru að bjóða kjósendum í hádegissnarl! Og ég sem hafði lagt svo hart að mér við að brjóta heilann yfir brönsinum í Moggaauglýsingunni að kallaði á vel útilátinn hádegismat til að hafa áfram orku til rannsóknanna.

Ég var sum sé vel haldinn og bærilega saddur þegar lausnin datt yfir mig úr orðabókinni.  Þess vegna mætti ég ekki í bröns hjá sjálfstæðismönnum. Í staðinn ætla ég að mæta á feðganámskeiðið í Fossvogsskóla og læra að brúka typpið til annarra hluta en pissa. Það er nú kominn tími til að fræðast um sjálf grunngildi lífsins. Sjálfstæðisforingjar vita örugglega allt um typpi sem þörf er á að vita en þegar þeir bjóða mér næst í mat er einfaldast að fara bara einföldu leiðina og tala íslensku. Til þess er hún. Ég mæti í það minnsta hvorki í bröns né brons.


Hin æpandi þögn um Gjaldeyrissjóðinn

Í Stjórnarráði Íslands er orðrómur uppi um að hinn almáttugi Alþjóðagjaldeyrissjóður hafi tilkynnt ríkisstjórninni, í það minnsta óformlega, að stjórnvöld fylgi ekki nægilega vel eftir endurreisnaráætluninni sem þau voru tilneydd að samþykkja í vetur og því verði haldið eftir lánum þar til úr hafi verið bætt. Það fylgir sögu að Gjaldeyrissjóðsmönnum lítist ekki á blikuna í fjármálum ríkisins og vilji að stjórnvöld þjarmi ögn betur að þegnum sínum með því að setja á og herða mjög niðurskurðar- og skattheimtuskrúfur og það strax.

Ég spurði þá sem orðróminn bergmála hverju það sætti að slíkt stórmál væri ekki dregið fram í dagsljósið í pólitískri umræðu, ef satt væri á annað borð, og fékk efnisleg svör:

,,Pólitíska kerfið í heild ber ábyrgð á samningi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og áætlanir honum tengdum. Pólitíska kerfið hefur ekki hag af því að ræða þetta fyrir kosningar, hvorki stjórnarflokkarnir né stjórnarandstaðan. Flokkarnir vilja ekki rugga bátum háttvirtra kjósenda með því að ræða kröfur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hvernig bregðast skuli við. Þegjandi samkomulag eru um að ýta slíkum leiðindum á undan sér þar til kjörklefunum hefur verið lokað og kastljós kynningarfunda í sjónvarpssal hafa verið slökkt. Aðgerðirnar sem grípa þarf til, svo fullnægt verið hákörlum sjóðsins, eru svo rosalegar að stjórnmálamennirnir voga ser ekki út í að viðra þær fyrr en þingkosningar eru afstaðnar. Þess vegna er ríkir þessi æpandi þögn um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í kosningabaráttunni."

Í Morgunblaðinu í dag, 18. apríl, er frétt á blaðsíðu 31 sem kannski skýrir þögnina. Fyrirsögn: Gjaldþrot vofir yfir Lettlandi - hefur ekki uppfyllt kröfur AGS. Í fréttinni stendur m.a. um stjórnina í Lettlandi og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn:

Stjórnin hefur þegar fengið 269 milljarða króna af láninu en fékk hins vegar ekki 33,5 milljarða  milljarða króna lán afgreitt frá sjóðnum nýverið með þeim rökum að hún hefði ekki fylgt áætlun hans nægjanlega vel eftir.

Meginkröfur sjóðsins er að skorðið verði verulega niður í ríkisútgjöldum og greindi Einars Repse, fjármálaráðherra landsins, frá því í fyrradag að flest benti til að stjórninni myndi ekki takast að uppfylla skilyrði fyrir 285 milljarða króna væntanlegu láni frá sjóðnum nema henni tækist að draga úr útgjöldum um 40 prósent til viðbótar frá fyrri niðurskurði.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 210860

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband