Fiskidagsörsögur I: Afturgenginn David Brown og list í Bergi

david-brown.jpgÞað var ekki leiðinlegt að grípa í glansandi fínan David Brown á Dalvíkurgötum um helgina, nýuppgerða dráttarvél sem Halldór bóndi keypti í Globus 1963 til bústarfa á Jarðbrú. Rabbi – Rafn Arnbjörnsson – eignaðist Bráninn í nöturlegu ástandi hér um árið og hefur lagt ómældan tíma + helling af peningum í að endurnýja djásnið í dráttarvélaflota Jarðbúra svo glæsilega að með ólíkindum er. Búið er að taka allt í sundur sem hægt er að taka í sundur, að olíuverkinu einu undanskildu (og nú stendur til að plokka það í sundur líka!), flytja inn varahluti frá Bretlandi, smíða annað hér heima og síðast en ekki síst sprautulakka gripinn. Vélin er svo flott að hvaða útrásarvíkingur sem er hefði boðið þyrluna sína í skiptum fyrir hana ef hún hefði verið komin á götuna velsældarárið 2007 en Rabbi hefði samt ekki fallið fyrir slíkum gylliboðum. Það er praktískara að eiga dráttarvél en þyrlu í Svarfaðardal, einkum og sér í lagi í heyskap. Ólafur Ragnar hefði átt að hafa með sér orðu norður til að festa á jakkaboðung velgjörðarmanns David Brown. Það flokkast undir menningarafrek að gera gefa svona góðu vinnutæki nýtt líf, einu dráttarvél sinnar tegundar sem til hefur verið í Svarfaðardal.


kristjana-og-orn.jpgMenningarhúsið nýja á Dalvík, Berg, er sérlega glæsilegt og mikil bæjarprýði. Innan dyra blasir svo við bjart og aðlaðandi rými og á veggjum í salnum hanga listaverk í eigu Ólafsfirðinga og Siglfirðinga eftir helstu nöfn í sögu olíumálverksins á 20. öld. Og tvær myndir eftir Salvador Dalí til viðbótar, takk fyrir og góðan daginn. Það er svo mikil upplifun að ganga um þetta hús og sýninguna að stendur fyllilega eftir ferð norður.  Sigríður Gunnarsdóttir listfræðingur gerði heimsókn í menningarhúsið enn magnaðri en ella með skemmtilegri kynningu á sýningunni þar sem hún tók fyrir hverja mynd og hvern listamann og setti allt í heildarsamhengi.

Svo má ekki gleyma allri hunangstónlistinni sem flutt var þarna frá hádegi til kvölds. Ótal kórar, einsöngvarar og hljóðfæraleikarar. Til dæmis hlýddum við á Kristjönu á Tjörn og Örn son hennar (sjá mynd) á hádegistónleikum sem tókust eins og best varð á kosið. Áheyrendur vel yfir 200 talsins! Svona byggðarlag gæti verið fullsæmt af Kristjönu einni saman en á heilt dúsín af listamönnum og súperfólki í lista- og menningarlífi til viðbótar!

 

 


Fiskidagsörsögur II: Fiskstykki í álbrynju og trjúttandi karlar

holmavikurfolk-1.jpgVið feðgar í Álftalandi prófuðum að pakka bleikju og þorski í stykkjatali inn í álpappír á Dalvík fyrir Fiskidagshelgina. Lágmark er nú að hjálpa eitthvað til og reyna að gera gagn. Þetta var reyndar svo gaman að við munum örugglega banka upp á dyr fiskvinnsluhússins Suðurstrandar að ári og biðja um að fá að pakka. Þarna voru  heimamenn auðvitað í miklum meirihluta í sjálfboðavinnu en líka hressir karlar frá Hólmavík sem komið hafa til Dalvíkur um þetta leyti svo árum skiptir til að pakka inn Fiskidagsfiski. Þeir höfðu hitt Steina Alla, forstjóra Norðurstrandar og stjórnarformann Fiskidagsins mikla, á Kanaríeyjum þegar í uppsiglingu var fiskidagur nr. 2. Steini bauð upp á glas með því skilyrði að Hólmvíkingar kæmu til Dalvíkur að pakka. Hann veitti svo vel að félagarnir hafa komið árlega síðan þá og sögðust koma líka 2010. Það getur ekki hafa verið neitt smáræði sem Norðurstrandarhöfðinginn blæddi á þá á Kanarí forðum.


jonmundiur.jpgÁ Fiskidaginn mikla 2007 var ég á rölti með myndavél á hafnarsvæðinu og skaut meðal annars á tvo káta karla. Þessi mynd var valin Fiskidagsmynd ársins og þegar hún var orðin svo söguleg þótti mér betra að vita hverjir hefðu setið fyrir á henni án þess að vita af því . Mér gekk vel að hafa upp á þeim sem vinstra megin stóð. Sá reyndist vera Tómas Óskar Malmberg, gullsmiður og tónlistarmaður í Reykjavík. Hann vissi hins vegar ekki baun um hinn fuglinn á myndinni og hafði hvorki heyrt þann né séð fyrr eða síðar. Það var sem sagt hrein tilviljun að þeir tjúttuðu saman á samkomusvæðinu við Dalvíkurhöfn þegar Rúnar heitinn Júl spilaði og söng. Báðir fíluðu greinilega konung rokksins úr Keflavík. Daginn sem menningarhúsið Berg var opnað á Dalvík á dögunum gekk ég svo allt í einu í fangið á hinni fyrirsætunni frá 2007 þar sem hann var á skrafi við hana Sillu safnvörð. Ég sveif auðvitað á kappann. Sá heitir Jónmundur Friðrik og býr á Skagaströnd. Hann vissi vel af verðlaunamyndinni og gekk meira að segja með hana í seðlaveskinu sínu. Svo fékk ég meira að heyra af högum Jónmundar, til dæmis að hann væri að koma á Fiskidaginn mikla í þriðja sinn. Fjórum sinnum hefur hann svo verið á Ljósanótt í Reykjanesbæ. Þess vegna fílaði hann auðvitað Rúnar Júl eins og dæmin sanna. Og svo fékk ég að vita að Jónmundur héti í höfuð Friðriks huldulæknis. Sá hafði annast móðurina á meðgöngunni og sinnti henni svo vel að ekki kom annað til greina en skíra sveininn Friðrik og hengja aftan í Jónmundarnafnið sem að hálfu var úr ættinni en að hálfu út í lofti.

fiskidagur_2007.jpg


Fiskidagsörsögur III: Af ótímabærri fjarveru Frissa og borverki Skara

fridik-spar.jpgSá sem öðrum fremur á heiðurinn af því að risið er menningarhúsið Berg á Dalvík er Friðrik Friðriksson, sparisjóðsstjóri um árabil eða allt þar til snemma árs 2009. Hann átti frumkvæðið að framtakinu og lagði línur að því hvernig yrði staðið að málum. Stjórn Sparisjóðs Svarfdæla samþykkti hugmyndina og á heiður skilinn fyrir að taka fjármuni út fyrir sviga til þess arna sem ella hefðu tapast í bankahruninu alrlæmda. Mér þótti stórlega einkennilegt að Friðriki skyldi ekki fundið hlutverk þegar menningarhúsið var tekið í notkun á dögunum. Sannaðist þá enn einn ganginn að fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá. Ég ætla rétt að vona að sveitungar mínir gleymi ekki hvað Frissi spar og Sparisjóður Svarfdæla hafa gert til stuðnings og uppbyggingar um árabil – sem er hreint ekki sjálfsagður hlutur þegar fjármálafyrirtæki eiga í hlut. Menningarsjóður Sparisjóðsins kemur strax upp í hugann, sparkvöllurinn á Dalvík, skíðamannvirki í Böggvistaðafjalli og svo mætti áfram telja. Svo þykist ég vita að Frissi hafi prívat og persónulega verið betri en enginn þegar ýmis verkefni voru annars vegar sem hann vildi að næðu fram að ganga og lagði lið svo lítið bar á. Hann átti með réttu heima í þeim hópi sem stóð að formlegri opnun menningarhússins hvað sem líður stundarþrefi um erfiðleika Sparisjóðsins.


oskar-bormadur.jpgFall er fararheill. Allir lyklar að nýja menningarhúsinu á Dalvík lokuðust óvart inni á kontór framkvæmdastjóra Bergs daginn sem húsið var tekið í notkun með viðhöfn. Innan dyra er meðal annars stjórnkerfi loftræstingar hússins og ekkert var hægt að gera fyrir en prúðbúnir gestir með forsetahjónin í broddi fylkingar voru komin út á götu áleiðis í hressingarteiti í ráðhúsinu. Þá hljóp til Óskar Pálmason Tréverksmaður, vopnaður borvél, og boraði sig í gegnum skrána í hurðinni. Og viti menn, hann frelsaði heila lyklakippu og skipti svo um skrá. Guði sé lof fyrir að Skari er löghlýðinn borgari á Dalvík þegar haft er í huga að í næsta húsi er sparisjóður og á slíkum stöðum er gjarnan seðlageymsla. Læstar gullkistur eru tæplega mikið mál fyrir laghenta Tréverksmenn en þeir ganga víst ekki lengra en að bora sig inn í menningarhús.


Fiskidagsörsögur IV: Stofa Brimars á Jaðri og Jónsa á Jarðbrú

Sérkennilegt listaverk stendur uppi í menningarhúsinu á Dalvík og klóra margir sér í höfði yfir því. Á vegg hangir mynd af Böggvistöðum eftir Brimar Sigurjónsson frá Jaðri á Dalvík. Inni í kassanum er hins vegar módel af vinnustofu Brimars og þessi sama mynd er einmitt í vinnslu þegar listamaðurinn, Þórarinn Blöndal, „frystir augnablikið“. Það skal svo fylgja sögu að húsið Jaðar á Dalvík var upphaflega reist á Ársskógsströnd í byrjun síðustu aldar og hét þá Bröttuhlíð. Þar fæddist í stofu Jón afi Jónsson á Jarðbrú í stofu 12. júlí 1902. Heilsubrestur og erfiðleikar urðu til þess að fjölskyldan í Bröttuhlíð neyddist til að bregða búi.

jonsi-afi-i-kassanum.jpgBröttuhlíðarhúsið var þá selt, tekið niður, flutt í bútum til Dalvíkur og reist þar út við Brimnesá. Þar var sem sagt kominn Jaðar og stóð áratugum saman eða þar til Árni verktaki Helgason tók húsið í heilu lagi upp á vagn og fór með það fyrir Múlann til Kleifa við Ólafsfjörð. Nú er Jaðarshúsið á Kleifum, endurgert og flott (heitir því miður ekki Brötuhlíð, sem vel hefði átt við). Í menningarhúsinu á Dalvík er trékassi með rifu og kíki menn þar inn sést annars vegar vinnustofa Brimars á Jaðri og hins vegar fæðingarstofa Jónsa á Jarðbrú. Svona er nú veröldin sérstök á stundum.

 


Fiskidagsörsögur V: lágstemmdir gestir og bílakraðak á tjaldstæði

kleinusalar.jpgFiskidagsgestir á Dalvík voru mun fleiri nú en nokkru sinni fyrr en samt fór samkoman ótrúlega vel fram, reyndar var það lyginni líkast. Við vorum á tjaldstæðinu sjöunda Fiskidaginn í röð og verðum þar áfram. Það er helmingur stemningarinnar. Nú var (loksins) gefið út að gestir borguðu gistinguna og þó fyrr hefði verið. Þeir voru samt ekki skyldaðir til að borga, sem er óþarfa hæverska og misskilin gestrisni. Ég heyrði ekki nokkurn einasta mann kvarta yfir gjaldheimtunni, ekki einn! Ég heyrði hins vegar fólk undrast að gjald væri ekki innheimt af öllum og gengið eftir því. Slíku er fólk vant af tjaldstæðum. Tekjurnar á að nota til að manna vaktir til að taka á móti þeim sem koma inn á Dalvíkina og vita ekkert hvert þeir eiga að snúa sér til að fá leiðbeiningar um hvar sé hægt að koma fyrir húsbílnum eða tjaldvagninum. Í Fiskidagsblaðinu, sem dreift var með Mogganum eftir verslunarmannahelgina, var meira að segja ekki kort af Dalvík og yfir því heyrði ég marga kvarta. Það er nefnilega svo að fjöldi fólks var að koma í fyrsta sinn og kvartaði yfir því að fá ekki leiðbeiningar, einkum þegar leið á Fiskidagsvikuna. Ég hitti fólk við OLÍS með hýsi í eftirdragi eftir að myrkur var skollið á og allt að fyllast í bænum. Það hafði heyrt í útvarpinu á leiðinni að enn væri laust pláss ofan við kirkju en hvar var kirkjan og hvernig átti að komast „upp fyrir kirkju“?

umferd-a-tjaldstaedi-1.jpgÁhættusamt og rangt er að hafa allt opið og frjálst á tjaldstæðunum! Afleiðingar sjálfstýringar sáust vel í ár. Niðurstaðan varð til dæmis sú að fleiri en nokkru sinni áður lögðu bílum út um allt á tjaldsvæðunum sjálfum frekar en að skilja þá eftir utan við og ganga nokkra metra. Breiðstrætin sem byrjað var að teikna í öryggisskyni þvers og kruss um tjaldsvæðin fyrir þremur árum eða svo hafa aukið bílaumferð svo í óefni er komið. Eina ráðið er að hafa þarna gæslufólk sem heldur aftur af tilgangslausri bílaumferð og beinir henni  annað. Dalvíkingar sjálfir voru meira að segja komnir á rúntinn um tjaldstæðinu til að kíkja á lífið bæði kvölds og morgna!

Ég hefði ekki boðið í útganginn gróðrinum ef rignt hefði hressilega og oftar en raun varð á. Þá hefði tjaldsvæði Dalvíkur verið þannig útlítandi að bæjarstarfsmenn væru nú önnum kafnir við að tyrfa þar og á fleiri skikum í bæjarlandinu. Þetta er óþarfi, látið okkur gistivinina borga fyrir þjónustuna! Ég ætla að spara mér að nöldra yfir rafmagninu. Sauðkrækingum tókst að halda landsmót á dögunum með þúsundum manna á tjaldstæðum og þar var víst notaður leigður dísilrokkur til að framleiða rafmagn þannig að allir sem vildu gátu fengið og borgað fyrir – að sjálfsögðu. Þannig virka líka markaðslögmálin, líka eftir hrun. Dalvískur forráðamaður sagði mér að það væri svo dýrt að leigja rafstöð að slíkt kæmi ekki til greina. Jamm og jæja. Innheimtið þá bara nógu helvíti hátt gjald af þeim sem vilja stinga í samband og fá rafmagn! Og hana nú. 

rafmagnskassi.jpgAnnars skal það sagt hér og nú að mannlífið á tjaldstæðinu var til fyrirmyndar – ef bíladellan er undanskilin. Fyrr í sumar vorum við á tjaldstæðinu við Þórunnarstrætið á Akureyri og sváfum ekki dúr í tvær nætur vegna djöfulsgangs fram á bjartan dag (landsmótshelgin). Þar er samt gæsla allar nætur eða svo átti að heita. Á Dalvík er sem sagt ekki gæsla á tjaldstæðinu en þar var samt vandalaust að sofa og hvílast allar nætur í Fiskidagsvikunni. Fólk kunni sig einfaldlega og sýndi náunganum tillitssemi. Hins vegar  vantaði sárlega gæslu á daginn og á kvöldin, til að halda uppi lágmarksstýringu á því hvar og hvernig gestir tjalda + stöðva bílaöngþveitið tjaldstæðinu eða í það minnsta draga verulega úr því.


Góð sending frá Alþýðusambandinu

Ljúf dagsstund var það í sólskálanum að lesa Vinnuna, tímarit Alþýðusambands Íslands,  sem barst inn í forstofuna í gegnum bréfalúguna í tilefni dagsins. Flott mynd af Evu Maríu útvarpsþuli og Guðmundi Gunnarssyni verkalýðsforingja á forsíðunni dró athyglina að prentgripnum og þegar betur var að gáð reyndist hann vera hin fínasta lesning. Ég fór einfaldlega í gegnum Vinnuna frá upphafi til enda og þakka fyrir mig. Það er einfalt mál að gera svona blað óþarflega hátíðleg eða jafnvel dálítið þunglyndislegt eða leiðinlegt í tilefni verkalýðsdagsins en þarna tekst ritstjóranum, Skúla Má Helgasyni, að búa til kokkteil af aðgengilegu og áhugaverðu lesefni.

Vinnan hélt mér við efnið frá upphafi til enda og ég verð sérstaklega að nefna viðtalið við forsíðufyrirsæturnar, hina hliðina á Gylfa Arnbjörnssyni ASÍ-forseta í máli og myndum og svo  unaðslega grein eftir Rab Christie sagnfræðing um rætur knattspyrnunnar í verkalýðsstéttinni á Bretlandseyjum. Rab er mikill fótboltaáhugamaður og gegnumheill Skoti. Hann passar vel upp á að lauma inn í greinina sína skoskum þjóðernismolum svo lítið ber á, til dæmis: „Eins og margir atvinnumenn í greinini kom lausnin að þessum vandamálum að norðan.“ Sum sé norðan úr Skotlandi! Þetta er grein sem ætti að vera skyldulesning í fyrsta bekk í fótboltaskólanum.

Tilefni þess að ég yfirleitt skrifa um Vinnuna hér og nú er að þakka ASÍ fyrir sendinguna að morgni 1. maí.  Þegar viðtakandi blaðs fer að fletta, síðan að lesa og hættir ekki fyrr en allt er upplesið til agna þarf ekki að meira að segja. Vel heppnaður prentgripur.


Talniningarskandall í þingkosningunum

Vitleysa í einhverju tölvuforriti gerði það að verkum að yfirkjörstjórnir þriggja kjördæma birtu rangar fréttir um útstrikanir í þingkosningunum og yfirkjörstjórn eins kjördæmis til viðbótar treysti sér lengi vel ekki til að gefa upp neinar tölur um útstrikanir! Morgunblaðið birtir okkur þessa stórfurðulegu frétt í dag og verður að segjast að kannski var meiri þörf fyrir alþjóðlegt kosningaeftirlit hér á landi en margur hugði. Þetta er auðvitað ekkert annað en skandall og ekki boðlegt að réttar upplýsingar um úrslit kosninganna á laugardaginn skuli ekki vera lagðar á borð fyrr en komið er fram á föstudag! Breytir engu að röð frambjóðenda hafi ekki verið breyst, aðalatriðið er að hægt sé að ganga að því sem vísu að yfirkjörstjórnir í mörgum kjördæmum fari ekki með bull og vitleysu í tölum sem þær birta.

Útstrikanir eru nú í fyrsta skipti vopn sem kjósendur nota í stórum stíl til að tjá flokkum og frambjóðendum hug sinn í verki. Það svíður undan þegar frambjóðandi er strikaður rækilega út og augljóslega mikilvæg að rétt sé farið í einu og öllu með viðkvæm persónuleg skilaboð af því tagi. Yfirkjörstjórnir hafa með vinnubrögðum sínum brotið á frambjóðendum og kjósendum með því að birta rangar útstrikunartölur. Frammistaða yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis var sýnu verst og hún ætti að fá sérstakan undirkafla í skýrslu alþjóðlegu eftirlitsnefndarinnar að skilnaði því ekki dettur mér annað í hug en skipt verði þar um áhöfn í heilu lagi. Þessari kjörstjórn tókst að sleppa alveg útstrikunum Einars Kr. Guðfinnssonar þegar úrslitin voru birt í kjördæminu sem varð til þess að Ólína Þorvarðardóttir var ítrekað krýnd sem útstrikunarsigurvegari kjördæmisins. Svo kom í ljós að Einar Kr. fékk ekki bara útstrikanir heldur langflestar útstrikanir í kjördæminu. Sama kjörstjórn skrifaði líka miklu fleiri útstrikanir á Lilju Rafney Magnúsdóttur en innistæða var fyrir og hún var ítrekað nefnd meðal útstrikunarkónga í fréttum. Einar græddi á skandalnum en Ólína tapaði og Lilja Rafney miklu frekar.  Og það er sum sé yfirkjörstjórnin sem býr til þessar „fréttir“ sem sýna sig vera bull.

Svona þvæla kemur sem sagt upp á því herrans ári 2009 og tölvuforriti kennt um. Núna á árinu 2009 gerist það líka og það í fyrsta sinn að kjörstjórnir aðskilja auð og ógild atkvæði í talningu.  Hingað til hefur auðum og ógildum atkvæðum verið hrúgað í einn pott í talningu og lufsur yfirkjörstjórna þar með í raun komið í veg fyrir að þeir sem skiluðu auðu kæmu boðskap sínum óbrengluðum á framfæri.  Ég sem hélt að einfalt mál væri að líta svo á að ógilt atkvæði væri ógilt og auður atkvæðaseðill væri auður.  Úrslit skyldu birt í samræmi við það. Hingað til hefur hins vegar verið brotið á réttindum þeirra sem velja að skila auðu með því að telja atkvæðaseðlana þeirra með ógildum. Þeirri skandalsögu í talningu lauk sum sé nú og þó fyrr hefði verið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 210860

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband