Blótað með stæl að Rimum

Þorrablót Svarfdælinga um helgina komst nálægt því að vera uppskrift að fullkominni skemmtun af þessu tagi. Upp úr trogi Grundarbúsins komu kræsingar sem út af fyrir sig hefðu dugað til að bjargað kvöldinu í samkrulli við Kalda af Árskógsströnd og staup af dönsku ákavíti. En svo bættist við þessi líka eðaldagskrá blótsnefndarinnar og verður að segjast að nýskipuð skemmtinefnd blótsins 2008 er ekki öfundsverð að þurfa að toppa grínið þegar hún leggur verk sín í dóm gesta að ári. Svo öllu sé til skila haldið hef ég oft hlegið meira að annál ársins. Á blótinu fyrir tveimur árum stappaði til dæmis nærri því að heilann skorti súrefni til sómasamlegrar starfsemi því linnulausar hláturrokur leyfðu ekki eðlilega öndun á meðan Sölvi á Hreiðarsstöðum flutti helstu tíðindi ársins af álíka virðingu og nærgætni og Ragnheiður Ásta þuldi dánartilkynningar í Útvarpinu. Það gæti enginn farið í föt Sölva í þessum efnum.

 

Mörg fleiri dagskráratriði fyrri blóta eru eftirminnileg en það sem gerði blótið í ár sérstakt var heildarmyndin í suðrænum anda sem sveif yfir borðum. Meira að segja var þorrablótsnefndin uppáklædd sem senjórar og senjórítur suður á Spáni og Hjörleifur í Laugasteini töfraði nautabanatóna úr gítarbelgnum sínum. Það þurfti ekki fingrafarasérfræðing til að sanna að Hjöri hafði líka komið hér og þar að textum sem farið var með í lausu og bundnu máli um kvöldið. Drengurinn sá er auðvitað sérstakt eintak og fyrirbæri.

 

En senuþjófar kvöldsins voru aðrir. Annars vegar Eyþór Ingi Gunnlaugsson, 17 vetra menntskælingur, ríkmannlega búin leiklistargenum enda barnabarnabarn Jóa leikara á Dalvík, eins eftirminnilegasta karakters byggðarlagsins á árumárum. Jói lék til dæmis Grasa-Guddu í Skugga-Sveini betur en nokkurri konu hefur tekist. Afkomandi Jóa sýndi fádæma hæfileika á þorrablótinu. Hann spilaði, söng og sýndi látbragðsleik sem seint gleymist. Með fullri virðingu fyrir öllu og öllum var það samt Steinar frá Ingvörum sem toppaði allt á blótinu með því að syngja um sauðburð í sveitinni á jólanótt: Helg nótt í Helgafelli. Annállinn var vissulega góður í ár en náði ekki alveg hæstu hæðum í sögulegum skilningi. Leiknu atriðin sem með fylgdu voru hins vegar hvert öðru betra, bæði að efni og flutningi. Þau voru hreinlega í sérflokki og jólasálmurinn um lambakónginn í Helgafelli var þar hápunkturinn. Það hefði reyndar ekki þurft annað en þetta eina söngatriði á þorrablótinu til að gera samkomuna eftirminnilega lengi lengi. Augljóst er að Steinar muni hér eftir fara með Helgafellssálminn yfir gangnamönnum í Sveinsstaðaafrétt undir svefninn um ókomin ár og eftir atvikum víðar. Einboðið er líka að sauðburðarsálmurinn verði líka fastur liður í jólamessu á Tjörn.

 

Ýmislegt fleira mætti týna til og það af góðu einu en látum duga að víkja tali að leynigestinum á ballinu. Það reyndist vera sjálf Helena Eyjólfsdóttir. Hún gekk liðs við tvo Siglfirðinga til að sjá  blótsgestum fyrir dansmúsik og þrenningin sú varð brátt næstum því jafn heilög og helga nóttin í Helgafelli forðum. Helena hefur engu gleymt og sagðist undir morgun ekki hafa skemmt sér jafnvel á balli svo árum  skiptir. Sama sögðu sveittir Svarfdælingar.

 

Þetta var sum sé afskaplega skemmtileg og uppbyggileg samkoma í alla staði og nauðsynlegt að vera vel á sig kominn, bæði líkamlega og andlega, til að standa hana skammlaust til enda. Það tókst, þökk sé slímsetu í heitum potti Grundarbænda. Uppbyggingarstarfið hófst strax á föstudagskvöldið í frosti og beljandi sviptivindum í Svarfaðardal svo við lá að þakplötur losnuðu af húsum og dráttarvélar færðust úr stað á hlaðinu. Öldurót myndaðist  í pottinum, vatnið kólnaði og bjórbaukar fuku af pottbarminum um leið og komið var niður í þá miðja.

 

Æskilegt væri að Veðurstofan gæfi út stormviðvörun fyrir bændur og búalið á pottabæjum á þorranum:

  • Ef spáð er allt að 5 metrum á sekúndu er óvarlegt að leggja frá sér tómann bauk á pottbarminn.
  • Ef spáð er 10 metrum á sekúndu er hætta á að baukurinn fjúki ef hann er ekki að minnsta kosti hálfur.
  • Ef spáð er 20 metrum á sekúndu og þar yfir er ráðlegt að drekka hratt og vel og láta baukinn aldrei frá sér nema tæmdur hafi verið.

Þessa viðmiðun tileinkuðum við Friðrik Grundarbóndi okkur fljótt og vel í rokinu um helgina. Árangurinn varð í samræmi við það.


Fyrirsjáanlegt hrap

Óskaplega voru niðurstöður skoðanakönnunar Blaðsins um gengi stjórnmálaflokkanna fyrirsjáanlegar. Hver átti svo sem von á öðru en frjálslyndir hröpuðu niður í ekki neitt eftir það sem á undan er gengið. Þeir áttu sér von og meira að segja þokkalega von en fóru þá að daðra við rasisma og losa sig síðan við frambærilegasta foringjann sinn. Eftir situr að vísu geðslegur formaður að vestan en það dugar skammt þegar hann hefur alla þessa kverólanta og undirmálsmenn með sér í áhöfn. Þetta er feigur flokkur.  Samfylkingarforystan valdi þann kost að fara gera út á sömu mið í pólitík og vinstri grænir og reyna til dæmis að yfirbjóða VG í afstöðunni til stóriðjustefnunnar. Skemmst er frá að segja að háttvirtir kjósendur lögðu á flótta í stórum stíl. Þeir sem eru andvígir stóriðjustefnunni vilja eðlilega fyrirmyndina frekar en fjölritið og gefa sig upp á vinstri græna. Hinir forðuðu sér eitthvað annað og gefa sig kannski bara upp sem kandídatar fyrir Sjálfstæðisflokk í kjörklefanum í vor. Eftir situr Samfylkingin með trollið fast í botni, fiskana flúna og fylgið komið undir 20% - enn á niðurleið. Þetta er allt að verða svo kunnuglegt: Sjálfstæðisflokkur með langt yfir 40% fylgi, vinstri-grænir með fylgi Alþýðubandalagsins sáluga á góðum degi og Samfylkingin á leiðinni niður í það sem Alþýðuflokkurinn uppskar að jafnaði í kosningum. Ef þetta heitir uppstokkun í gamla flokkakerfinu heiti ég Salóme.


Gef oss í dag vor gömlu stef

Fréttastjóri Útvarpsins taldi brýna þörf á að yngja upp fréttastef Útvarpsins og gera nútímalegra. Yfir því var víst legið tímunum saman í Efstaleitinu að færa koma fréttunum inn í nútímann með nýju stefi. Sjálfsagt eru þeir hlustendur til sem þykir breytingin til bóta og ég bíð spenntur eftir að hitta á svo sem einn slíkan. Enginn hefur enn lýst ánægju sinni í mín eyru en margir eru hins vegar fúlir, sumir hundfúlir, af ýmsum ástæðum. Látum nú vera að stefið sé bæði ófrumlegt og karakterslaust. Verst er að það kallar ekki á hlustandann og biður hann að sperra eyrun. Stefið er nefnilega svo lágt að menn taka ekki eftir að fréttir séu að hefjast þegar Útvarpið er murrandi sem bakhljóð á vinnustað í erli dagsins. Má ég biðja um gömlu fréttastefin aftur. Ef nýja stefið hefur eitthvað með nútímann að gera kýs ég frekar að vera uppi á steinöld í þessum efnum.


Skrípaleikur frjálslyndra

Flokksþing frjálslyndra keppir við Spaugstofuna um verðlaunasæti í keppni um skrípamynd helgarinnar af samfélaginu. Ég er ekki frá því að hinir fyrrnefndu standi betur og eiga möguleika á að tryggja sigurinn með því að klofna alveg með stæl áður en þessi sólarhringur rennur á enda. Vér bíðum og sjáum. Andstæðingar frjálslyndra í pólitík hafa sérstaka ástæðu til að fagna úrslitum varaformannskjörsins, hvað sem öðru líður. Það boðar flokknum pólitíska feigð að hafna geðslegri konu í þetta forystusæti en veðja með atkvæðasmölun á karl sem sneyddur er af kjörþokka og best þekktur af skapbrestum sínum sem birst hafa í ýmsum myndum á opinberum vettvangi.

Leikreglur breytt eftir á

Framsóknarmenn á Suðurlandi fylltu skarð framboðslista síns eftir Hjálmar Árnason með konu sem tók ekki þátt í prófkjöri þeirra á dögunum! Það er auðvitað þeirra vandamál að breyta leikreglum eftir á en ekki er nú sérlega mikill glæsibragur á slíkri framkomu gagnvart þeim sem vörðu tíma og fjármunum í að taka þátt í leiknum. Auðvitað lá beint við að færa bara listann upp. Háttvirtir kjósendur höfðu talað og það lá beint fyrir að virða niðurstöðuna. Kontóristi flokksins á enga innistæðu fyrir þessu sæti sínu og kjósendur á Suðurnesjum geta bara sjálfum sér um kennt að ná ekki lengra eftir settum reglum.  Á sama hátt hefði það verið fráleitt hjá sjálfstæðismönnum í sama kjördæmi að hrófla við Árna Johnsen á framboðslista sínum. Leikreglur voru settar og eftir þeim farið, hvað svo menn segja og hugsa um stöðu Sjálfstæðisflokksins með Johnsen á ný í forystunni. Það er nú bara allt önnur Ella.

 


Sérframboð landeigenda?

 Stofnfundur Landssamtaka landeigenda var mögnuð samkoma og kann að vera upphafið að því að upp úr sjóði svo um munar í þessu ótrúlega þjóðlendumáli. Ríkisstjórn sem brýtur mannréttindi á fólki, með því að ætla að sölsa undir sig eignarland þess frá fjöru til fjalla, hefur tapað bæði áttum og skynsemi í tilverunni. Stjórnarandstaða sem lætur þjóðlendumálið afskiptalaust, en er hins vegar sannfærð um að skipulagsbreyting Ríkisútvarpsins sé mál sem standi undir Íslandsmeti í málþófi á Alþingi, hefur ekki jarðsambandið í lagi.  Þjóðlendukröfur ríkisins eru svo yfirgengilegar og út úr korti að engu tali tekur. Alþingi setti lögin sem ríkisvaldið notar sem skálkaskjól þegar erindrekar þess böðlast um landið og þinglýsir kröfum um þjóðnýtingu allt að 90% þinglýstra landareigna fólks! Ríkisstjórnin ber auðvitað pólitíska ábyrgð á þessum hamförum en Alþingi, þar með stjórnarandstaðan, ber líka sína ábyrgð. Þögnin um þjóðlendumálið á löggjafarsamkomunni er æpandi og skerandi.  Landeigendur eru saltvondir og skyldi nú engan undra. Þeir lásu stjórnmálamönnum pistilinn á stofnfundinum í gær. Einn ræðumaður kynnti sig sem fyrrverandi framsóknarmann og sagði að þjóðlendukröfur ríkisins hefðu fyllt mælinn sinn. Annan fundarmann hitti ég í fundarlok. Sá sagðist í óspurðum fréttum hafa gengið úr Sjálfstæðisflokknum vegna þjóðlendumálsins og væri nú í sambandi við fólk sem vildi kanna möguleika á framboði landeigenda til Alþingis í vor. Þessi fyrrum sjálfstæðismaður býr í Þingeyjarsýslu en sagði að umræða um sérframboð landeigenda grasseraði víða um land og hefði fengið byr undir vængi þegar fréttir bárust um væntanlegt sérframboð eldri borgara. „Ef eldri borgarar telja sig landlausa í pólitík, þá á það nú aldeilis við um landeigendur líka,“ sagði þessi viðmælandi minn. Margt athyglisvert var sagt og gert á stofnfundi landssamtakanna í gær en líklega hefur dr. Guðrún Gauksdóttir, dósent í lögum við Háskólann í Reykjavík, látið fundarmenn hafa með sér verðmætasta nestið til heimferðar. Hún færði afar skýr og trúverðug rök fyrir því að kröfur ríkisins gengju á svig við eignarréttarákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Ragnar Aðalsteinsson hrl er sammála þessu og bætir því reyndar við að aðgerðir ríkisins í þjóðlendumálinu kunni að varða við 257. grein almennra hegningarlaga!

Skipstjóranum förlast

 Innbyrðis átök í stjórnmálaflokkum eru oft á tíðum ágætis afþreyingarefni fyrir okkur sem heima situm og fylgjumst með úr fjarlægð. Frjálslyndir eiga senuna um þessar mundir og standa sig vel í að fremja á sér pólitíska kviðristu fyrir opnum tjöldum. Engu máli skiptir hvernig kjör varaformanns fer á landsfundinum um helgina, flokkurinn er nú þegar klofinn niður í rót og bara spurning um hvar brotin lenda eftir sprenginguna. Guðjón Arnar hefur alltaf haft yfir sér sérstaka áru í pólitík og kemst langt á henni. Hann er á svipaðri bylgjulengd og fólk flest, nær eyrum manna, talar umbúðalaust eins og sjóaarar gjarnan gera, einlægur og býsna sannfærandi. Honum förlast hins vegar skynsemin nú um stundir, sem kann að reynast afdrifaríkt. Það eru mikil mistök hjá formanninum að standa ekki við hliðarlínuna og láta flokksmenn eina um að velja flokknum varaformann. Vel að merkja, mistök ef hann hefur áhuga á að halda flokknum saman áfram. Ef hann er hins vegar á því að flokkurinn sé hvort eð er dottinn í parta, eða hann vill hreinlega losna við Margréti Sverrisdóttur og hennar lið, ja þá er hann vissulega á réttri braut. Engum blöðum er um það að fletta að Frjálslyndi flokkurinn hefði aðra og geðsþekkari ásjónu með Margréti í æðstu forystu en Magnús Þór Hafsteinsson. Sá hinn síðarnefndi er dæmi um stjórnmálamann sem hefur neikvæðan kjörþokka, eins og það myndi sjálfsagt heita á tungumáli verðbréfafólks í fjármálaheimum. Guðjóni Arnari þykir hann hins vegar fjandi glúrinn stýrimaður en nú er að sjá hvort sjálf útgerð skipsins er sammála, þ.e. landsfundurinn. Og svo eru það háttvirtir neytendur, háttvirtir kjósendur. Það þarf hvorki skoðanakönnun né kosningar til að segja fyrir um stöðu og álit varaformannsefnanna tveggja í röðum almennings. En skipstjóranum er skítsama um það og stýrimaðurinn rífur kjaft. Stríðið blívur, skítt með kjósendur og flokkinn.  Þetta verður yndisleg helgi á hliðarlínunni.ga!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband