Þeim var nær

Lítið var gefandi fyrir málflutning formanns Blaðamannafélagsins á Rás tvö í dag í tilefni af sigri Bubba Morthens í máli sem hann höfðaði fyrir dómstólum vegna þess að hann taldi slúðurblað hafa brotið á sér. Það mátti skilja formanninn svo að yfir fjölmiðlum vofði meiriháttar skerðing á athafnafrelsi í kjölfar dómsins, sem er auðvitað bara rétt og slétt bull. Einhver mörk hljóta hins vegar að vera til á milli friðhelgi einkalífs annars vegar og réttinda/skyldu fjölmiðla til að upplýsa, afhjúpa og gagnrýna. Þetta tiltekna slúðurblað bókstaflega bað um að dómstólar fjölluðu um hvar mörkin lægju í þessu tiltekna máli, svo gróft fannst mér að Bubba vegið þegar ég sá umfjöllun þess. Það hlýtur að vera sjálfsagður réttur og skylda borgaranna - líka fræga fólksins! - að láta reyna á hvar mörkin liggja í þessum efnum ef dómgreind fjölmiðla og fjölmiðlamanna brestur. Umfjöllunin um Bubba var vísvítandi og skammarleg atlaga að æru hans. Ég held að forystusveit blaða- og fréttamanna geti notað orku sína betur til margra annarra hluta en að leggjast í vörn fyrir málstað slúðurblaðsins en rýna frekar í dóminn sjálfan og oftúlka hann ekki út um allar koppa grundir eins og mér heyrðist stéttarfélagsformaðurinn gera ótæpilega í útvarpi í dag. Ég skil Hæstarétt einfaldlega þannig að hann biðji fjölmiðla um að sýna það sem sveitamenn kalla skikkanlega mannasiði í umgengni við fólk.

Heimamenn njóta góðrar afkomu

Alltaf er nú gaman að vera Svarfdælingur að ætt og uppruna en sjaldan eins og í dag! Mér er reyndar málið líka skylt sem viðskiptavini Sparisjóðs Svarfdæla alla tíð og er afskaplega stoltur af því sem fjármálastofnun heimilisins er að gera. Sparisjóðurinn er sýnilega afar vel rekinn og skilar góðri afkomu. Þess nýtur hann auðvitað sjálfur en þess njóta líka heimamenn í ríkum mæli eins og sannast hér og nú. Svo margar háar tölur fljúga um borð og bekki í ýmsu samhengi í fjölmiðlaumræðu dagsins að menn gera sér eftir til vill ekki grein fyrir því hve stór þessi gjöf er. Lítill fugl hvíslaði að mér, og verður ekki selt dýrara en það er keypt, að Kaupþing þyrfti til dæmis að snara út gjöf að verðmæti ca. 20 milljarða króna til að jafna höfðingsskap Sparisjóðs Svarfdæla! Hvað um það. Útspil sparisjóðsins míns er glæsilegt og ég læt hiklaust eftir mér að renna rauðvínstári í glas með matnum í kvöld og skála síðan til norðurs í tilefni dagsins....


mbl.is Sparisjóður Svarfdæla kostar byggingu menningarhúss á Dalvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fagleg vinnubrögð hjá National Geographic

Mikil búbót er það að hafa aðgang að Discovery og National Geographic þegar manni dettur í hug að horfa á sjónvarp en dagskrá hinna íslensku stöðva býður ekki upp á annað en skipulögð leiðindi. Ekki síst á það nú við um föstudags- og laugardagskvöld. Þar virðast stjórnendur sjónvarpsfyrirtækja vorra hafa samráð um að fólk sé fífl og haga framboði sínu í samræmi við það. Á Discovery og National Geographic er hins vegar oftast að finna úrvalsefni og nærtækt dæmi um það var á hinni síðarnefndu síðdegis í gær þegar frumsýnd var mynd um Kárahnjúkavirkjun: Rock Eaters of Iceland í þáttaseríu um risamannvirki.

Ég beið reyndar spenntur eftir að sjá þessa mynd af ákveðnum ástæðum því í ágúst í fyrra hitti ég ástralskan framleiðanda hennar, Rob Cerr, austur við Kárahnjúka og var með honum og aðstoðarmanni hans tvo fyrstu dagana á flakki um virkjunarsvæðið. Það var á við heilt háskólanámskeið í fjölmiðlun að kynnast vinnubrögðum Cerr í upphafi Íslandsdvalarinnar, sem á endanum varð eitthvað á fimmtu viku. Myndin hans er líka í samræmi við það, faglega unnin í alla staði og afskaplega fróðleg og skemmtileg á að horfa. Aftur og aftur stóð maður sig að því að spyrja sjálfan sig í hljóði: Af hverju sýndu íslenskar sjónvarpsstöðvar því ekki áhuga að gera mynd um Kárahnjúkavirkjun út frá sömu forsendum og National Geographic? Er ekki umhugsunarefni að bandarísk sjónvarpsstöð telji þessa framkvæmd svo merkilega í verkfræðilegum og tæknilegum skilningi að hún hafi hér starfsmenn vikum saman til að kynna sér málið niður í kjölinn en íslenskar sjónvarpsstöðvar láti duga að fleyta af yfirborðinu? Í safni National Geographic er nú með öðrum orðum til hellingur til af myndefni fyrir sjónvarp af ýmsum merkilegum verkþáttum Kárahnjúkavirkjunar sem finnst ekki svo mikið sem sekúndubrot af í spólusöfnum íslenskra sjónvarpsstöðva. Nú er of seint að gera neitt til að redda málum því framkvæmdunum er að ljúka. Þáttagerðarmenn í íslensku sjónvarpi geta hins vegar huggað sig við það í framtíðinni að í New York er til álitlegt safn heimildakvikmynda um Kárahnjúkavirkjun frá Íslandsheimsókn Robs Kerr. Þar er meira að segja till siðs að varðveita efnið en henda ekki.

Svo öllu sé nú til skila haldið: Íslenskir fjölmiðlar, þar á meðal sjónvarpsstöðvarnar, hafa verið duglegir að fjalla um Kárahnjúkavirkjun sem umdeilda framkvæmd og hluta af samfélagsumræðu. Auðvitað hafa þeir líka fjallað um virkjunina sem slíka, skárra væri nú, og gert þar margt vel. En ég áttaði mig fljótt á því í ferðum með Rob Kerr um svæðið í fyrrasumar hvað vantaði og fékk svo staðfestingu á því þegar myndin hans var frumsýnd í gær. Hann hafði fyrst og fremst áhuga á tæknilegum og verkfræðilegum vandamálum sem menn stæðu frammi fyrir og hvernig menn leystu margvísleg risavaxin verkefni þar að lútandi. Þessa hlið málsins hafa íslenskir fjölmiðlar vanrækt, allir með tölu. Ég nefni bara eitt einasta dæmi: Heilmikið var að vonum fjallað hér í fréttum og þáttum um skemmdir í stíflu í Brasilíu í aðdraganda þess að byrjað var að safna vatni í Hálslón í september. Enginn einasti fjölmiðlamaður hérlendis gerði samt það sem hlaut að liggja beint við, að skreppa að Kárahnjúkum og setjast að sérfræðingunum þar til að fara ofan í sauma á þvi sem gerðist í Brasilíu og hvaða lærdóma mætti draga varðandi Kárahnjúkastíflu. Rob Kerr hafði sett sig mjög vel inn í atburðina í Brasilíu og settur var upp fundur um málið strax á fyrsta degi dvalar hans við Kárahnjúka. Það var eftirminnileg samkoma og alveg sérlega upplýsandi um fjöldamarga tæknilega hluti. Enginn íslenskur fjölmiðlamaður sá hins vegar ástæðu til setja stíflugerðarmenn við Kárahnjúka svona á grill í tilefni af óförum kollega þeirra í Brasilíu. Það hefði nú samt verið ómaksins virði, ekki síst til að reyna að skilja síðar af hverju steypta kápan á Kárahnjúkastíflu hefur ekki haggast og sjálf stíflan lekur nánast ekki neitt.

Ýmsir Íslendingar hafa nefnilega áhuga á umfjöllun um tæknileg efni líka (og hafa nú ekki allir aðgang að National Geographic!). Það er hið besta mál að eiga myndarlegt safn mynda til framtíðar af Ómari að sigla um Hálslón, af andstæðingum framkvæmdanna með fána uppi á stíflunni eða af krökkum að kasta grjóti í vinnuvélar verktaka við Kárahnjúka og príla upp í byggingarkrana á álverslóðinni við Reyðarfjörð. En Kárahnjúkavirkjun er nefnilega líka stórmerkilegt verkfræðilegt fyrirbæri sem okkar eigin fjölmiðlar hafa annað hvort valið að horfa fram hjá eða ekki fattað. Þá er nú gott að eiga hauk í horni sem er National Geographic. Myndin verður endursýnd þar 1. og 2. mars!


Klámbændagrín, völd og áhrif

Bændasamtökin létu sogast inn í dæmigert íslenskt múgsefjunarrugl og samþykktu að banna hópi klámframleiðenda að gista hjá sér á hóteli Sögu í marsmánuði. Samtökin eiga vissulega Sögu, hafa þar húsbóndavald, geta þar með ákveðið hverjir fá þar að sofa og hverjir fá að éta. Ráða því að sjálfsögðu líka hvaða þjónustu þau veita gestum sínum - þeim sem á annað borð fá að lúra yfir nótt - þar á meðal hvaða kvikmyndafóður sýnt er í kerfi hótelsins. Á Sögu geta velkomnir gestir nefnilega keypt sér klám að sjá á skjá herbergja sinna eða eigum vér frekar að tala um mannlegar tilhleypingar, svo haldið sé til haga orðabúskap hótelhaldaranna. Í það minnsta segja þeir, sem gist hafa þarna á Melunum og keypt klámþjónustu hús-bændanna, að þarna sé í boði bláasta blátt fyrir sanngjarnan prís. Aldrei hefi ég gist á Sögu og hef því ekki notið klámþjónustunnar þar. Þess vegna veit ég heldur ekki hver er klámframleiðandi hótelsins.  Tæplega samt liðið sem fær ekki gistingu en aldrei skyldi maður nú segja aldrei. Það hlýtur að verða upplýst á næsta miðstjórnarfundi samtakanna hvaða vörumerki er á Sögukláminu. Klám er Sögubændum sem sagt ekki ógeðfellt sem slíkt en kannski hallast Bændasamtökin að annarri línu í klámiðnaði en þessir væntanlegu, hugsanlegu, fyrrverandi gestir þeirra í mars. Það væri fróðlegt að vita líka meira um það í kjölfar næsta miðstjórnarfundar.  Jamm og jæja. Það lá kýrskýrt fyrir að kjörnir fulltrúar hefðu blásið þetta mál upp, langt út fyrir alla ramma skynsemi og þvert á flokkslínur, á Alþingi, í borgarstjórn og víðar. Ég hélt hins vegar að bændur héldu ró sinni og gerðu sér grein fyrir því að þá fyrst er hætta á ferðum þegar fulltrúar allra stjórnmálaflokka landsins verða sammála um eitthvað. Þá þarf venjulegt fólk að hugsa kalt og skýrt og vera sérstaklega á varðbergi, líka til sveita. En meira að segja bændur, sem jafnan eru manna þekktastir fyrir gestrisni við ókunnuga, létu glepjast og múgsefjast í þetta skiptið. Megi klámiðnaðurinn hins vegar færa hóteli Sögu ómældar tekjur hér eftir sem hingað til. Amen.

------ OOO-----

 Eitthvað hefur komið yfir gamla ritstjórann minn á Alþýðublaðinu sáluga, Árna Gunnarsson. Ég las grein eftir hann í Morgunblaðinu í flugi frá Egilsstöðum í kvöld og þar stendur orðrétt: ,,Enginn dregur það í efa að ritstjóri Morgunblaðsins er með valdamestum mönnum þessa lands." Ég segir nú bara, í hvaða félagsskap er hann Árni dagsdaglega? Sjálfur þekki ég ekki nokkurn mann sem telur að Moggaritstjórinn sé með valdamestu mönnum landsins! Og reyndar efast ég um að mér takist að finna einhvern sem telur að þessi ágæti ritstjóri hafi verið einhvern tíma með valdamestu mönnum. Ritstjórinn hafði hins vegar umtalsverð áhrif á sínum tíma en það á ekki við lengur. Ég man þá tíð að stjórnmálamenn og þjóðmælapælarar töldu forystugreinar Morgunblaðsins skyldulesningu dagsins, biðu jafnvel skjálfandi eftir Stórudómum Reykjavíkurbréfsins á sunnudögum og gátu ekki á heilum sér tekið ef dómsorðið þar eða í Staksteinum var þeim ekki hagstætt. Núna hitti ég ótrúlega marga stjórnmálamenn og þjóðmálapælara sem ekki nenna að lesa Reykjavíkurbréf og forystugreinar - hvorki í Mogga né í öðrum blöðum - og er sléttsama um það sem þar stendur. Alþýðublaðsritstjórinn fyrrverandi er í öðru tímabelti í skrifum sínum um Morgunblaðið. Þetta hefði getið verið dæmigert leiðarapex ritstjóra fyrir 30-40 árum en passar ekki inn í neina veruleikamynd dagsins.


Rós í hnappagat markaðsfólks Icelandair

Góublót klámiðnfræðinga í Reykjavík hlýtur fyrst og fremst að vera til marks um ágætis árangur markaðssóknar Icelandair á erlendri grundu. Boðskapurinn í auglýsingum frá þessu fyrirtæki erlendis verður ekki misskilinn: Reykjavík er lostaborg með dillandi næturlífi, svellandi djammi og léttgirtum konum. Fengitíðin er viðvarandi ástand, amen og hallelúja. Að maður nú ekki tali um hvað bíður útlendra fola í Bláa lóninu. Ég minnist teiknimyndbands á útlensku frá þessu óskabarni þjóðarinnar í fluginu þar heldur betur var nú frygð og fjör í hitaveituvatni Suðurnesjamanna. Hvar annars staðar ættu alþjóðlegir iðnjöfrar í klámframleiðslu að koma saman á árshátíð en einmitt á Íslandi þar sem sjóðandi girndin bíður á hverju götuhorni? Svo talar borgarstjórinn um að klámblótið eyðileggi markaðsstarf Reykjavíkurborgar, ríkisstjórnarfundur er tekinn í klámspjall og heilu stjórnmálahreyfingarnar heimta að samkoma klámjöfranna verði bönnuð! Halló, halló! Hér eru nektar- og klámbúllur starfandi, hér er vændi og allur pakkinn. Hér er djammið og djúsið, samanber ötult kynningarstarf Icelandair erlendis. Rökréttast væri því að menn breiddu út faðminn og fögnuðu góðum gestum í mars. Klámfólkið verður ekki búið að vera hér lengi þegar því finnst það hreinlega vera eins og heima hjá sér. Til þess er leikurinn líka gerður þegar helgardvöl í Reykjavík er kynnt sem ein allsherjar brundtíð. 

Krónikan og ,,þessi maður"

Starfsmaður á Stöð 2 hringdi í mig eftir hádegi í gær og spurði hvort ég hefði tök á, og kærði mig um, að segja álit á Krónikunni, nýja fréttatímaritinu sem var að koma á markað. Ég gat út af fyrir sig hugsað mér það og útvegaði mér blaðið. Skemmst er frá að segja að fyrstu kynnin voru ekki sérlega heillandi, einkum og sér í lagi vegna þess að ritstjórnin hafði leyft sér þann munað að sleppa prófarkalestri. Svo var orðum skipt eftir hentugleikum en ekki reglum um íslenska tungu. Ég er nefnilega þannig gerður að gera þær kröfur til fjölmiðla að þeir umgangist íslenskuna af lágmarks virðingu. Það hefði verið sama hve efnið í þessu tilekna blaði, Króniku hefði verið spennandi. Blaðið hefði fallið á prófinu hjá mér fyrir subbulegan frágang. Það er þekkt í íslensku skólakerfi og er ekki bara mín sérviska.

Í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld var ritstjóri Krónikunnar mættur og bar sig aumlega. Fjölmiðlar og fjölmiðlamenn mega nefnilega gagnrýna allt og alla en ef orði er hallað á þá sjálfa er byrjað að væla og snökta. Ég var að vísu ekki nafngreindur heldur titlaður ,,þessi maður" sem tjáði sig á Stöð 2 í gærkvöld og ég er sagður hafa haft í frammi ,,einhliða málflutning".

Þetta er nú heldur þreytt lumma en látum það vera. Tilefnið hlýtur að ráða upplifun manna hverju sini og um leið hvort sú upplifun verður einhliða, tvíhliða eða fjölhliða. Ef ritstjóra fjölmiðils gengur illa að skilja þetta er hann ekki á réttri hillu í lífinu. Fyrsta tölublað Krónikunnar var slappt en ég afskrifa ekki blaðið, síður en svo, og óska því alls velfarnaðar. Útgáfustjórnin hlýtur að taka sig á og umbrotsmennirnir að læra á forritin sín, hafi þeir á annað borð haft forrit til að skipta orðum rétt í textanum. Ritstjórinn viðurkenndi reyndar í Kastljósinu í kvöld að orðaskiptingargagnrýni ,,þessa manns" hefði verið réttmæt en að skýringin væri sú að tilheyrandi forrit hefði hrunið nóttina fyrir prentun blaðsins (!). Ég hefði nú kosið að ritstjórinn hefði bara sagt satt. Rit á borð við Krónikuna tekur marga daga í umbroti og allir góðir umbrotsmenn byrja á að renna textanum í gegnum skiptingarforrit, áður en umbrot hefst. Það  er með öðrum orðum fyrsta verkið en ekki það síðasta að skipta orðum. Það kann vel að vera að forrtitið hafi hrunið nóttina fyrir prentun en á öllum venjulegum heimilum í prent- og útgáfubransanum hefði slíkt ekki haft minnstu áhrif því löngu átti að vera búið að sinna þessum hluta heimilishaldsins. Ritstjórinn kaus því að skrökva í Kastljósinu og veðja á að fólk sé fífl. Í minni sveit hefði það nú þótt heldur ljótt að reyna að ljúga sig út úr vandræðunum. Væri nú ekki nær fyrir ritstjórann að kyngja kökknum og búa í staðinn til spennandi blað í næstu viku, orðaskipt og sómasamlega prófarkalesið?


Skemmdarverkavika

Skemmdarverk og aftur skemmdarverk eru það sem stendur upp úr þegar horft er til baka yfir vikunar sem senn líður. Næst mér í Fossvogi og næst mér í vinnunni við Síðumúla sá ég bætast við krot á veggjum og heyrði í fréttum að nú væri enn einn veggjakrotsfaraldurinn í gangi í borginni.  Hvernig uppeldi fær þetta lið sem þeysir um bæinn með úðabrúsa og krotar og eyðileggur linnulaust?

Svo eru það skemmdarverkin á bílum og vinnuvélum í Hafnarfirði. Þá verður manni orða vant, jafnvel þó í hlut eigi krimmagengi sem ,,hefur komið við sögu lögreglunnar áður" eins og það heitir svo stillilega á RÚV-máli.

Skyldu verktakarnir sem grófu sér gröf í Heiðmörk í þágu Kópavogskaupstaðar hafa komið við sögu lögreglunnar áður? Eigi veit ég það svo gjörla en bæjarstjórinn - margreyndur verktaki sjálfur - treysti sér til að ganga svo langt á opinberum vettvangi að segja að skemmdarverkin þarna hefðu ,,ekki verið til fyrirmyndar"! Manni létti nú verulega að heyra það. En skyldi verktaki sem er ekki læs á kort fá að valsa áfram eftirlitslaust og refsingarlaust?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 210864

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband