Mánudagur, 28. ágúst 2006
Skammarleg framkoma þjálfara
Atvik á knattspyrnuvelli Eskfirðinga í gærmorgun situr í mér. Þar var ég staddur sem fylgifiskur Víkingsdrengja í úrslitarimmu Íslandsmóts 5. flokks drengja í fótbolta. Í fjórðungsúrslitum áttust samtímis við Víkingur og Völsungur á Húsavík á helmingi vallarins en við hliðina HK úr Kópavogi og Þór á Akureyri. Það fór ekki fram hjá okkur við hliðarlínuna að talsvert gekk á strax á upphafsmínútu leiks HK og Þórs. Strákur úr HK fékk boltann langt úti á velli strax í upphafi leiksins, þrumaði yfir völlinn og skoraði. Þá var komið að þætti þjálfara Þórs. Sá náungi hafði reyndar vakið athygli annarra á sérkennilegum skapsmunum sínum fyrir leikina með því að heimta að fá að spila hinum megin á vellinum en þjálfarar annarra liða sáu enga ástæðu til að taka þátt í slíkum sálfræðihernaði og þar við sat. Þegar hins vegar HK hafði skorað gekk Þórsþjálfarinn af göflunum og kenndi öskrandi einum liðsmanni sínum um að bera ábyrgð á að liðið fékk á sig mark. Hann tók drenginn út af og setti ekki inn á aftur það sem eftir lifði leiks! Aumingja drengurinn mátti því dúsa utan vallar allan leikinn og leið auðsjáanlega afar illa.
Mig varðar ekkert um hverjir þjálfa hjá Þór, hvernig þeir haga sér og hvernig þeir eru andlega innréttaðir. Hins vegar var þetta atvik umtalað fyrir austan í gær, enda sem betur fer einsdæmi að menn verði vitni að slíkum skepnuskap þjálfara í barna- og unglingastarfi í íþróttum. En þegar mannýg naut ganga laus innan um börn og unglinga ber að segja frá og vara við - einkum og sér í lagi nú á haustdögum þegar félögin eru að festa sér þjálfara til næstu leiktíðar.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 25. ágúst 2006
Endemisþvælan
Engin göng væru til undir Hvalfirði ef efnt hefði verið til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið eins og ýmsir predikuðu um á sínum tíma. Jónas Kristjánsson, Dagblaðsritstjóri, var manna kjaftforastur í þeim efnum, eins og oftar, og hvatti til stofnunar almannasamtaka gegn Hvalfjarðargöngum. Meira að segja menn úr hópi verkfræðinga voru daglegir gestir á sjónvarpsskjánum og sögðu þjóðinni að gangagerðin væri hreint glapræði, þau myndu fyllast af sjó og fólk farast. Í besta falli myndi mannvirkið aldrei borga sig. Slíkur málflutningur var auðvitað hrein þvæla á sínum tíma og dómur sögunnar um allt þetta holtaþokuvæl er að vonum ekki blíðlegur. Gjörningaveðrið sem sífellt er verið að magna gegn Kárahnjúkavirkjun minnir um margt á það sem talað var og skrifað gegn Hvalfjarðargöngum. Því er nánast haldið blákalt fram að heill her sérfræðinga hafi dundað sér við að búa til stíflur sem fyrirfram sé vitað að muni bresta og vatn flæða yfir Austurland og Austfirðinga. Stíflurnar eru byggðar á sprungum og hver étur upp eftir öðrum: misgengi, meira að segja VIRKT misgengi. Ég man ekki til þess að Jónas Kristjánsson og hinir þokulúðrarnir hafi verið búnir að læra þetta jarðfræðilega hugtak á sínum tíma. Kannski hafa þeir haldið að þetta væri eitthvað gengi sem varðaði meira Seðlabankann en Hvalfjörð. Ef ef þeir hefðu nú getað bætt misgenginu við í umræðuna hjá sér á sínum tíma, Drottinn minn dýri. Það hefði nú orðið tilefni nokkurra forystugreina í viðbót í Dagblaðinu og enn fleiri hasarviðtala við verkfræðinginn Hansen í Sjónvarpinu. Hvalfjarðargöng voru nefnilega grafin í gegnum á annað hundrað misgengissprungur af ýmsu tagi og á kafla að sunnanverðu voru misgengin virk svo um munaði. Hiti í berginu og vatni sem úr sprungum lak fór upp í 57 stig á celsíus. Samt urðu göngin til og mér er sagt að þó nokkrir aki um þau daglega - keyri með öðrum orðum í gegnum heilt safn af misgengjum með bros á vör. Ég spái því að dómur sögunnar yfir þeim sem hæst hafa um Kárahnjúkavirkjun verði afskaplega líkur og dómurinn yfir þeim sem andskotuðust gegn Hvalfjarðargöngum forðum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 24. ágúst 2006
Sparisjóðurinn bakaði Orkuveituna
Ég var að skoða myndir frá Fiskideginum mikla á Dalvík á dögunum og þessari óskaplegu og ekta hamingju og gleði sem ríkir á þeirri samkomu. Við Álftlendingar fórum svo í bæinn um síðustu helgi til að lykta aðeins af Menningarnóttinni. Niðurstaðan: Megum við þá frekar biðja um Fiskidaginn. Það er ekki sérlega gaman að vera sardína í dós í miðborg Reykjavíkur og vita oftar en ekki hvort maður er að koma eða fara í straumi mannhafsins. Svo er þetta eiginlega dálítið uppskrúfað og yfirgengilegt. Bissnessinn hefur tekið völdin og Glitnir gleypti maraþonið. Við stöldruðum við á Klambratúni og hlustuðum á klassíska tónleika. Það var gaman. Svo fórum við niður í bæ og vorum þar um stund. Þar var aðallega troðningur og ekki gaman. Meira að segja flugeldasýningin á Dalvík í boði Sparisjóðs Svarfdæla var flottari en flugeldasýningin við Reykjavíkurhöfn í boði Orkuveitu Reykjavíkur. Sparisjóðurinn bakaði Orkuveituna og fór létt með það.
Gleymið þessari uppskrúfuðu Menningarnótt og farið til Dalvíkur á Fiskidaginn mikla. Hitið upp með því að skoða myndirnar sem þar voru teknar um daginn....
Vinir og fjölskylda | Breytt 25.8.2006 kl. 08:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 18. ágúst 2006
Naktir keisarar
Verkstjórar á ritstjórn Morgunblaðsins hljóta að hafa sofið laust og fundið fyrir bakþankaverkjum eftir að framkvæmdastjóri Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen fletti ofan af meintum prófessor frá Bandaríkjunum sem Mogginn lagði heila síðu undir á miðvikudaginn var, 16. ágúst. Þessi fulltrúi Oregon háskóla vtjáði sig fjálglega út og suður um framkvæmdirnar við Kárahnjúka og gaf lítið fyrir hönnun stóru stíflunnar og verkefnið yfirleitt. Morgunblaðsmenn hefðu nú átt að staldra aðeins við þegar viðmælandinn lét þá hafa eftir sér að stífla ein í virkjun í Brasilíu hefði gefið sig í sumar og lón þar tæmst af vatni. Í staðinn lét blaðið fylgja með mynd af Kárahnjúkastíflu og undir stendur: Stífla sem er eins uppbyggð og Kárahnjúkastífla brast nýlega í Brasilíu.
Ætli CNN hefði nú ekki rofið útsendingu ef stíflan hefði brostið í raun og veru? Ætli hefði nú ekki verið fjallað um málið fram og til baka í fjölmiðlum veraldar, þar á meðal hérlendis, ef þetta hefði gerst í raun og veru? Auðvitað! Þetta gerðist bara alls ekki, heldur gaf sig botnloka í hliðargöngum við brasilísku stífluna - sem vissulega er nógu slæmt - en stíflan hélt. Það hlýtur að skipta máli að fara rétt með staðreyndir í frásögnum eða hvað?
Enginn kippir sér lengur upp við að formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands fari með svona þvælu, hann fær jú borgað fyrir að umgangast sannleikann frjálslega ef það gagnast málstaðnum sbr. það þegar hann sællar minningar birti grein um Kárahnjúkavirkjun í erlendu blaði og birti með mynd af Dettifossi sem myndi hverfa vegna virkjunar við Kárahnjúka! Blaðið hefur eftir þessum sama framkvæmdastjóra um suður-amerísku stífluna 12. ágúst: ,,Sú brasilíska hrundi fljótlega eftir að hún var tekin í notkun." Ekkert verið að skafa af hlutunum þarna, skítt með sannleikann!
Málflutningur Árna Finnssonar er fyrir löngu orðin þekkt stærð og fyrirsjáanleg og meira að segja fjölmiðlarnir taka ekki mark á honum lengur - annars hefði nú Blaðið auðvitað lagt alla forsíðuna undir þau stórbrotnu tíðindi að heil stífla í Brasilíu hefði hrunið! Uppákoman með hinn meinta prófessor frá Oregon er hins vegar öllu verra mál - ekki síst fyrir Moggann. Það þurfti nefnilega framkvæmdastjóra VST til að tékka af hluti sem ritstjórnin sjálf átti auðvitað að gera áður en lengra var haldið í vinnslu viðtalsins. Niðurstaða framkvæmdastjórans er þessi:
- Disiree D. Tullos, viðmælandi Morgunblaðsins um virkjanamál um víða veröld, er ekki prófessor í Oregon heldur lektor.
- Tullos er ekki vatnsaflsfræðingur heldur með ,,bakgrunn í vistfræði áa, river engineering, sem er annar hlutur".
- Tullos segist hafa rannsakað vistfræðileg málefni vatnsaflsvirkjana víða um heim í áratug en lauk samt verkfræðiprófi fyrir aðeins fjórum árum.
- Tullos segir að ekkert bandarískt fyrirtæki myndi láta sér detta í hug að koma að gerð Kárahnjúkavirkjunar en samt er það svo að einmitt bandarískt fyrirtæki er í aðalhlutverki við hönnun sjálfrar Kárahnjúkastíflu.
- Tullos segir að hliðstæð stífla og við Kárahnjúka hafi brostið í sumar í Brasilíu, sem er hrein og klár þvæla.
Hlutverk fjölmiðla er að upplýsa fólk og skapa þannig forsendur vitrænna skoðanaskipta. Á dögunum var norskur blaðamaður staðinn að því að skáldaðupp heilt viðtal við tölvugúrúinn Bill Gates og í Beirút var líbanskur ljósmyndari staðinn að því að lagfæra myndir af loftárásum Ísraelsmanna til að auka áhrifamátt myndanna enn frekar. Skáldskapur hins meinta prófessors er af sama meiði og er beinlínis ætlað að afvegaleiða upplýsta umræðu í ákveðnum tilgangi. Það má búa við að Náttúruverndarsamtök Íslands segi skröksögur en æskilegt er að háskólinn í Oregon finni sér göfugra hlutverk.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 05:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 17. ágúst 2006
Fiskidagurinn á Dalvík
Miðvikudagur, 19. júlí 2006
Ofstækisflón í hinu hvíta húsi
![]() |
Bush neitar að skrifa undir lög um aukin framlög til stofnfrumurannsókna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 19. júlí 2006
Eðalmyndir frá Keflavík
Enn berast bloggsíðunni skemmtilegar myndir úr fortíðinni, nú frá Keflavík, úr safni Harðar Guðmundssonar og Rósu Helgadóttur (tvíburasystur Ingibjargar ættmóður frá Jarðbrú). Þetta eru aðallega myndir frá Jarðbrú, hátt í hálfrar aldar gamlar sumar hverjar!
Sjá Albúmin mín eða Ýmsar myndir til vinstri á síðunni.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar