Miðvikudagur, 19. júlí 2006
Afmælisveislur í báðum fjölskylduvængjum
Álftlendingar hafa setið tvær merkar afmælisveislur á þremur dögum, sem gerð eru skil í myndum á Vefnum. Þetta byrjaði allt í Sambýlinu Blesugróf á sunnudaginn þegar Jóhanna, föðursystir Guðrúnar, fagnaði 82 ára afmæli í góðra vina hópi. Svo barst leikurinn til Keflavíkur í gærkvöld, í fimmtugsafmæli Höllu Harðardóttur, frænku húsbóndans í Álftalandi. Eins og gefur að skilja náði Helga, tvíburasystir Höllu, nákvæmlega sama áfanga líka en hún var fjarri góðu gamni hérna megin hafsins og hélt upp á daginn við Mexíkóflóa.
Myndasöfn úr afmælisveislunum tveimur eru undir Ýmsar myndir neðst til vinstri á síðunni!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 15. júlí 2006
Þarf slys svo stjórnvöld rumski?
![]() |
Lífshætta skapast sé ekið með of háan farm í göngin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 11. júlí 2006
Fótboltatörn í nafni olíufélaga
Shellmótið í Eyjum er þreytt og þátttakendur þar voru augljóslega færri nú en undanfarin ár. ESSOmótið á Akureyri er mun fjölmennari samkoma og spræk sem slík. Skrifari var að ljúka fjórða mótinu í Eyjum og öðru mótinu á Akureyri. Það væri illbærileg hugsun að eiga eftir að fara einu sinni enn á Shellmót en tilhlökkunarefni er að fara oftar norður.
Óánægja kraumar með ýmislegt hjá Eyjamönnum en þeir kjósa að leiða það hjá sér og halda sitt strik. Það er sjónarmið út af fyrir sig en kostar það að Haukar úr Hafnarfirði létu ekki sjá sig í ár og Skagamenn ekki heldur. Ekki kæmi á óvart að þátttökufélögum á Shellmóti fækkaði enn frekar á næsta ári. Á fararstjórafundum sem ég sat þar forðum í Eyjum hóf forkólfur Shellmótsins mál sitt með því að segja að menn gætu svo sem haft skoðanir á hinu og þessu í mótshaldinu en engu yrði breytt. Á fararstjórafundum á Akureyri er beinlínis kallað eftir athugasemdum og mótshaldarar reyna ljúfmannlega að sníða af þá agnúa sem gestir þeirra telja sig geta bent á. Í Eyjum hanga menn eins og hundar á roði á að ljúka mótinu ekki fyrr en á sunnudagskvöld en á Akureyri er punktur settur aftan við að kvöldi laugardags. Á því er mikill munur fyrir þá sem eru langt að komnir. Akureyringar láta spila fótbolta fram á kvöld og teygja ekki lopann lengur en ástæða er til. Eyjamenn gera í því að halda fólkinu í Eyjum eins lengi og kostur er, sjálfsagt til að ná sem mestum peningum af því fyrir gistingu og þjónustu sem er út af fyrir sig göfug hugsun frá þeirra bæjardyrum séð! Á knattspyrnuvöllunum í Eyjum var ekkert að gerast í 100 mínútur á hverjum degi á meðan mótið stóð yfir, þ.e. HLÉ frá kl. 12 á hádegi til kl. 1:40! Ef Eyjamenn hefðu áhuga á að ljúka mótinu á laugardegi gætu þeir til dæmis skipulagt leiki í hádegishléinu. Ef það dugar ekki mætti fella líka niður innanhúsmótið, sem fáir myndu syrgja, og klára með glans á laugardegi. En slík hugsun er bara nokkuð sem hvergi örlar á hjá mótshöldurum. Fram á sunnudagskvöld skal þetta standa hvað sem tautar og raular. Skipulagið sem slíkt er ágætt í Eyjum og tvennt má nefna sem norðanmenn gætu velt fyrir sér að taka upp hjá sér til að gera gott betra. Eyjamenn gefa út mótsblað á hverju kvöldi með úrslitum dagsins og öðrum upplýsingum. Það er til fyrirmyndar. Eyjamenn útkljá færri leiki með vítaspyrnukeppni en Akureyringar, sem er líka til fyrirmyndar. Eðli máls samkvæmt dreifist ábyrgð af sigri og tapi á tvo menn í vítaspyrnukeppni en ekki liðið í heild. Slíkt getur beinlínis verið mannskemmandi. Það er sanngjörn lausn Eyjamanna að útkljá jafna leiki með því að láta tímann ráða hvenær mörk eru skoruð í leik. Vítaspyrnukeppni er því aðeins notuð að markalaust sé í venjulegum leiktíma. Eyjamenn ættu svo að tileinka sér viðmót og viðhorf norðanmanna til gesta sinna á mótinu. Þar er munur á, Eyjamönnum í óhag. En vísast er þeim skítsama um það og þeir halda sitt strik að ári, jafnvel þó fækki enn þátttakendum af fastalandinu.Íþróttir | Breytt s.d. kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 11. júlí 2006
Á ljósmyndastofu dómsmálaráðuneytisins
Við fórum með drengi vora tvo á opinberan kontór í Borgartúninu í dag til að sækja um vegabréf fyrir þá eftir kúnstarinnar reglum. Þá reyndi á ríkisvædda passamyndatöku sem tekin var upp að frumkvæði dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins eigi alls fyrir löngu. Ríkið er með öðrum orðum búið að leggja af með lagaboði að almenningur geti látið taka af sér mynd þar sem honum sýnist í vegabréf og framvísað hjá skriffinnum þess. Takk fyrir, góðan daginn. Nú er ríkið sjálft orðið ljósmyndari þjóðarinnar fyrir vegabréf þess og fjöldi atvinnumanna í ljósmyndun situr eftir með sárt ennið, færri verkefni og minni tekjur. Lifi frelsið, hin háleita einkavæðing og allt það. Halleljúja og amen.
Og ekki flýtir ríkisvæðing ljósmyndunar fyrir sjálfu framleiðsluferli vegabréfa. Það tekur 10 virka daga að búa til slíkan bevís; endurtek: TÍU vinnudaga! Nema vér kúnnar borgum tvöfalt, þá treysta skriffinnar kerfisins sér til að klára klabbið á fimm dögum.
Það eru hvorki til rök fyrir ríkisvæðingu passamynda né þessu ógnardrolli við að búa sjálfa passana til.
Dægurmál | Breytt 16.7.2006 kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 10. júlí 2006
Systrafundur á Hvammstanga
Systurnar Ingibjörg ættmóðir frá Jarðbrú og Sigrún frænka Sigtryggsdóttir hittust á Hvammstanga 1. júlí 2006 þegar sú fyrrnefnda var á leið til Akureyrar ásamt frumburði sínum. Meðfylgjandi myndir eru frá þessum fagnaðarfundi. Sigrún er á dvalardeild Heilbrigðisstofnunar Hvammstanga og unir sér auðheyrilega vel.
Fleiri myndir er að finna undir Albúmin mín hér til vinstri á síðunni!
Vinir og fjölskylda | Breytt 11.7.2006 kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 25. júní 2006
Jarðbúrar og viðhengi safnast til afmælisfagnaðar í Borgarnesi
Fulltrúar allra greina Jarðbrúarfamilíunnar mættu í Borgarnes í gær til að fagna 35 ára afmæli Ingu Dóru, framkvæmdastýru og borgarstjórafrúar í Borgarbyggð. Samkoman hófst með gönguferð um bæinn og staldrað var við á íþróttavellinum, Bjössaróló og í nýja ráðhúsinu í Borgarbyggð, uppgerðum fyrrum vistarverum sparistjóðsins. Þar eru mikil og glæsileg salarkynni, hátt til lofts og vítt til veggja. Eins og vænta mátti trónir málverk af héraðshöfðingjanum til margra ára, Halldóri E. Sigurðssyni, á vegg í ráðhúsinu - gjöf afkomenda hans til Borgarbyggðar. Síðast en ekki síst var farið í nýja landnámssafnið og numinn fróðleikur um landnám Íslands og Egil Skallagrímsson með hjálp margmiðlunartækni. Þetta er magnað safn og óhætt að mæla með heimsókn þangað.
Um kvöldið bauð afmælisbarnið svo til veislu og bar á borð grillaðan kjúkling með alls kyns meðlæti. Sjón er sögu ríkari. Nærtækast er því að kíkja á myndirnar úr ferðinni.
Álftalandsfeðgar voru kvenmannslausir í Borgarnesi enda frú Guðrún einhvers staðar langt suður í Atlantshafinu að kanna hafsbotninn á Reykjaneshrygg sem leiðangursstjóri á flaggskipi Hafró, Árna Friðrikssyni. Vér feðgar höfðum fellihýsi heimilisins, Fengsæl GK, í eftirdragi upp á Vesturland og gistum í túnfæti hótels Venusar Reykjavíkurmegin við Borgarfjarðarbrúna. Þar var gott að vera og bærðist ekki hár á höfði.
Á heimleiðinni renndum við á Akranes og fylgdumst með leik C-liða Víkings og KR á Skagamóti 7. flokks. KR-ingar unnu þar verðskuldað í skemmtilegum leik en við tókum nokkrar myndir af strákunum og stemningunni:
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 23. júní 2006
Æpandi fjarvera
Héraðsblaðið góða, Norðurslóð, barst inn um bréfalúguna í daq. Þar blasir meðal annars við á forsíðu mynd af nýja bæjarstjóranum í Dalvíkurbyggð að taka við húslyklum Ráðhússins á Dalvík. Slíkt er táknræn athöfn í pólitík, hvort heldur er í sveitarstjórnum eða ráðuneytum, og þar fá menn tækifæri til að slá á létta strengi í tilefni dagsins, hvort heldur eiga í hlut samherjar eða svarnir andstæðingar. Auðvitað hefði Valdimar, fráfarandi bæjarstjóri, átt að standa þarna á myndinni og gauka lyklakippu að Svanfríði, eftirmanni sínum. En auðvitað hlaut hann að kóróna ferilinn á sinn hátt með því að láta bæjartæknifræðinginn um gjörninginn! Það þarf ekki að taka fram að sjálfsagt er engum betur treystandi til að rétta kippu af lyklum en einmitt tæknimenntuðum manni í embætti hjá sveitarfélaginu en ætli rótin að æpandi fjarveru fráfarandi bæjarstjóra hafi ekki verið sú staðreynd að hann var í hópi þeirra sem vildu hvorki sjá né heyra myndun þess meirihluta bæjarstjórnar sem samstaða náðist loks um eftir að þjóðin hafði fylgst í forundran með tilraunum áhrifamanna í gamla meirihlutanum og vinstri-grænna til að reyna að koma í veg fyrir að valdahlutföll í Ráðhúsinu væru í samræmi við raddir háttvirtra kjósenda.
Nú kann vel að vera að fyrrverandi bæjarstjóri hafi verið legið í flensu eða þurft að sinna áríðandi erindum í öðrum heimshornum akkúrat þegar hann átti að hitta Svanfríði út af lyklakippunni. Það er náttúrulega afskaplega leiðinlegt fyrir hann að vera ekki með á sögulegri mynd á forsíðu Norðurslóðar. Engar upplýsingar er hins vegar að hafa í blaðinu um hvar maðurinn var niðurkominn eða hvort hann hreinlega vildi bara ekki gegna þessum síðustu skylduverkum sínum í Ráðhúsinu! Ef síðarnefnda skýringin er sannleikanum samkvæm eru svokölluð stjórnmál í gömlu heimabyggðinni komin á ansi lágt plan. Steinunn Valdís hefði þá í sama anda átt að fela gatnamálastjóra að afhenda Villa Vill lyklana að Ráðhúsi Reykjavíkur á dögunum. Hún skilaði sínum hlut hins vegar með stæl og kunni að taka ósigri. Slíkt er nefnilega hluti af hinu pólitíska geimi.
Dægurmál | Breytt 25.6.2006 kl. 16:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar