Á sömu leið og Kolbeinsey?

Einu sinni líkti Framsóknarflokkurinn sér við klettinn í hafinu í auglýsingum fyrir þingkosningar - með góðum árangri. Nú verður ekki betur séð að flokksins bíði sömu örlög og Kolbeinseyjar og það af svipuðum ástæðum. Kolbeinsey er að molna niður undan sjálfri sér og þannig er að fara líka fyrir Framsókn. Fróðlegt væri annars að vera fluga á vegg í herbúðum sjálfstæðismanna nú um stundir. Þeir hljóta að klóra sér í höfuð yfir atburðum undangenginna sólarhringa í forystu samstarfsflokks síns í ríkisstjórn og hugsa margt. Aðrir landsmenn fylgjast auðvitað með líka, af mismiklum áhuga og spenningi. Sumir eru fegnir að fá óvænt skemmtiefni til að fylla upp í sumarleyfisskarð Spaugstofunnar í Sjónvarpinu, aðrir líta á hnotabit milli framsóknarforingjanna sem tragedíu án leikstjórnar og enn aðrir sjá þarna eitthvað sem helst minnir á uppákomu eftir handriti frá Hrafni Gunnlaugssyni.

Auðheyrilega vex þeirri skoðun fylgi í Sjálfstæðisflokknum að taka af skarið og snúa sér til háttvirtra kjósenda fyrr en ráð var fyrir gert, sem er afskaplega skiljanlegt. Það væri einfaldlega skynsamlegasta niðurstaðan að kjósa til Alþingis síðar í sumar eða í síðasta lagi í haust; samt ekki fyrr en heimsmeistarakeppninni í fótbolta er örugglega lokið.


Dapurlegur mórall

Dómur yfir formanni Sjómannafélags Reykjavíkur í gær varpar ljósi á siðferðisbresti í forystusveit þess félagsskapar. Maðurinn var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir manndráp af gáleysi með stórfelldri vanrækslu og ófyrirleitnum brotum á almennum skipsstjórnarskyldum sem leiddu til þess að tvennt fórst í sjóslysi á Viðeyjarsundi í september í fyrra. Verkalýðsforinginn var drukkinn við stýrið á skemmtibátnum sínum og reyndi að koma ábyrgð af eigin gjörðum yfir á þá sem létust. Dómurum svelgdist greinilega á af undrun og skelfingu ef marka má dóminn, sem lesa má í heild sinni á mbl.is. Hann er sannarlega hrollvekjandi texti.

Það hlýtur svo að vekja sérstaka athygli og undrun að Sjómannafélag Reykjavíkur skuli ætla að hafa þennan dæmda mann í forystu sinni áfram eins og ekkert hafi í skorist!  Í einum fjölmiðli var haft eftir einhverjum forystumanni félagsins að ekki hefði einu sinni verið rætt um að hrófla við stjórnarformanninum. Í öðrum miðli var haft eftir Sjómannafélagsmanni að ekkert væri hægt að gera fyrr en í fyrsta lagi á einhverri samkundu í haust.

Hvers konar skilaboð er Sjómannafélag Reykjavíkur að senda sjómönnum og þjóðinni allri? Ganga menn ekki á öllum kertum á þeim bæ? Auðvitað átti stjórnarformaðurinn að víkja strax í september og enn frekar nú þegar dómarar hafa talað jafn skýrt og raun ber vitni um. Aðgerðaleysi Sjómannafélagsins er því til skammar og þess vegna hljóta einhver apparöt í verkalýðshreyfingunni að nudda augu forystu þess svo siðblindir fái sýn. Það getur bara ekki verið að verkalýðsbatteríð láti þess ósköp yfir sig ganga. 


Sumarkveðja úr Svarfaðardal

c_documents_and_settings_atli_desktop_sumarkve_ja_sumarkvedja2.jpg

Það eru ekki alltaf jólin við Eyjafjörð og ekki heldur alltaf vor þegar á að vera vor samkvæmt dagatalinu. Kalli búfræðingur Grund í Svarfaðardal bjóst ekki við að geta þeyst á vélsleða um dal og hóla nú þegar maímánuður er senn á enda. En svo blasir við nógur snjórinn fyrir vélfákana eftir hretið á dögunum. Kalli fór upp á Böggvistaðadal í gær og tók þessar myndir sem segja margfalt meira en nokkur orð um fannfergið til fjalla við Eyjafjörð!

Og svo þetta: 

ískyggileg þögn mun svo ríkja hér á bloggsíðunni næstu dagana. Ekki vegna þess að skrifari verði í kjaftstoppi og sjokki yfir kosningaúrslitum, hver sem þau verða, heldur vegna fjarveru og meðvitaðrar ákvörðunar um að hafa hugann við allt annað í eina viku en þennan skrítna sandkassaleik sem kallast íslensk sveitarstjórnamál. 

Þegar úrslitin dynja yfir þjóðina í kvöld verð ég sem sagt í tugþúsunda feta hæð yfir Bandaríkjunum áleiðis til Kaliforníu. Og þá ég sný aftur verður Svanfríður líklega kominn langleiðina í bæjarstjórastól í Dalvíkurbyggð og Villi langleiðina í borgarstjórastól í Reykjavíkurbyggð. Jörðin snýst nú samt áfram hvað sem gerist og hvernig sem fer. Og hana nú.


Kosningavaðallinn kvaddur - með litlum söknuði

Morgunblaðið gerði okkur, dyggum lesendum og velunnurum, þann greiða undanfarnar vikur að birta greinaflóð frambjóðenda og atkvæðasmala með lúsarletri sem aðrir frambjóðendur og aðrir kosningasmalar reyndu að stauta sig fram úr gegnum stækkunargler til að geta svo sest niður og svarað með greinum sem Mogginn birti líka með lúsarletri. Þannig sparaði blað flestra landsmanna helling af pappír og flýtti fyrir þeim lesendum á morgnana sem vildu gjóa augum yfir annað aðsent efni en kjörprumpið. Og nú lýkur þessari smáleturstíð Morgunblaðsins á morgun og hörðustu áhugamenn um stjórnmál stinga stækkunarglerjunum upp í eldhússkáp og geyma þar til hallar að þingkosningum vorið 2007. Þá fer að blómstra á nýjan leik lýðræðisleg umræða með letri í lúsarstærð á síðum Morgunblaðsins. Þetta var settleg og pen kosningabarátta, fjandakornið að bærðist hár á höfði nokkurs staðar. Enda eru allir svo sammála inn við beinið um allt og alla að enginn útilokar samstarf við neinn annan að kosningum loknum frekar en í landsstjórninni og vesalings liðið sem kýs flokkinn sinn hefur ekki glóru um upp á hverju flokksforystan tekur þegar rennur af henni (móðurinn) á sunnudagsmorguninn. Þetta er eina landið í veröldinni þar sem kjósendur eru hafðir að fíflum alltaf og endalaust. Flokkarnir eru bara stoltir af því að vera innilega sammála um að gera það sem þeim sýnist að kosningum loknum! Það eru til dæmis afskaplega miklar líkur á að mynduð verði samsteypustjórn í höfuðborginni í næstu viku. Kjósendur hafa hins vegar ekki græna glóru um það hvaða flokkar koma þar við sögu og hvaða hnoðmör verður á borð borinn sem stefnuyfirlýsing nýs meirihluta í borgarstjórn - ekki frekar en þegar ríkisstjórnir eru myndaðar. Enda botnar ekki nokkur erlendur fréttaskýrandi eða pólitískur áhugamaður í útlöndum í íslenskri pólitík. Ekki nokkur maður ef marka má það sem ég hef séð og heyrt í dagana í erlendum fjölmiðlum um íslensk stjórnmál. Kjósendur í öðrum löndum vita yfirleitt nokkurn veginn hvers má vænta að kosningum lokum, hverjir starfa saman og hverjir ekki. Á Íslandi er hins vegar kjósendum boðið upp á svipuð býti og ef Þjóðleikhúsið færi einfaldlega að auglýsa: sýning í kvöld! Aðgangseyrir væri hirtur af áhorfendum og svo létu þeir sig hafa það þolinmóðir að bíða þar til dregið væri frá. Þá fyrst kæmi í ljós hvort á sviðinu væri að hefjast Íslandsklukkan, Skuggasveinn, Dýrin í Hálsaskógi eða Hryllingsbúðin. Ætli Hart í bak verði á fjölunum þegar dregið verður frá í Ráðhúsinu við Tjörnina í næstu viku?

 


Pólitískar taugar bresta

Ég fékk upphringingu í morgun frá forystumanni í knattspyrnudeild Víkings sem bar mér þau skilaboð frá enn hærra settum forystumanni Víkings að meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur hefði slegið á frest áformum um langþráðan gervigrasvöll á svæði félagsins í Fossvogsdal. Því væri rétt láta þau boð út ganga að Víkingar kysu Sjálfstæðisflokkinn á laugardaginn. Þessu var sem sagt komið á framfæri við mig sem formann í 5. flokki drengja í knattspyrnudeild Víkings og ég gat ekki skilið erindið öðru vísi en keflið væri komið til mín í þessu atkvæðaboðhlaupi Víkings fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík. Það hefur lengi staðið í stappi að fá gervigrasvöll í Víkina og ljótt væri nú ef satt væri að meirihluti borgarstjórnar væri hlaupinn frá þeirri ákvörðun að setja málið á dagskrá seinna á þessu ári og á því næsta. Hins vegar vissi ég það að framgangur málsins tafðist óvænt þegar íbúar í nokkrum húsum næst Víkingssvæðinu mótmæltu gervigrasvelli þar sem þeir óttast aukið ónæði og áreiti sem fylgir flóðlýsingu og sparki fram á kvöld. Þess vegna þarf aukin kynning til að koma gagnvart íbúunum og jafnvel athugun á því hvort færa megi gervigrasvöllinn lengra frá næstliggjandi húsum. Þetta er reyndar heimavinna sem borgin og Víkingsforystan hefði getað sinnt og unnið betur til að komast hjá þessum töfum eða klúðri, allt eftir því hvaða nöfn menn vilja gefa þessu. Það er hins vegar ansi bratt, svo ekki sé nú meira sagt, að forystumenn í Víkingi hlaupi til sjö mínútum fyrir kosningar og reyni í nafni félagsins að hagræða sannleikanum, í gervigrasmálinu á þann veg sem gert var í símtalinu í morgun, til að snapa atkvæði í kosningunum um helgina! Það rifjaðist hins vegar upp fyrir mér í dag að í prófkjöri sjálfstæðismanna vegna borgarstjórnarkosninganna datt inn í forstofuna hjá okkur bleðill frá stuðningsmönnum Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa, og þar voru á blaði nöfn manna úr forystusveit Víkings. Í ljósi þess sem gerðist í morgun virðist þessi stuðningsvíxill  hafa fallið núna í kosningavikunni og aðinnheimtumennirnir séu komnir á kreik. Það er ljótt að skrökva og það er ljótt að misnota íþróttafélög. Og ef það skyldi nú reynast rétt - sem ég reyndar ætla ekki að trúa fyrr en ég sé það gerast - að Víkingur bjóði bæjarstjóranum í Kópavogi að vera heiðursgestur í Víkinni á morgun, þegar Víkingar mæta Breiðabliki í úrvalsdeildinni, ja þá yrði það nú bíta höfuðið af skömminni. Gamli yfirmaður minn á fréttastofu Útvarps, Margrét Indriðadóttir, kenndi okkur fótgönguliðunum að draga andann djúpt einu sinni og aftur til öryggis í vikunni fyrir kosningar til að halda kúrs í moldviðri stjórnmálaflokkanna sem einskis svífast þegar þeir fara á taugum á síðustu metrunum. Forystumönnum í mínu ágæta félagi í Fossvoginum veitti ekki af að draga andann djúpt minnst fimm sinnum og helst einu sinni enn.

Kjörleiði

Ég efast um að ég nenni á kjörstað um aðra helgi. Síðast kaus ég Ingibjörgu Sólrúnu til að vera áfram borgarstjóri og það lukkaðist ágætlega. Nú er hún komin á annan vettvang, pólitíska baklandið hennar sprungið í frumeindir sínar og ég orðinn munaðarlaus. Það verður þá svo að vera. Þessi svokallaða kosningabarátta í höfuðborginni er dularfull en eitt mega samt flokkarnir eiga, allir með tölu. Þeir hafa blessunarlega látið oss kjósendur í friði. Fyrsti bleðillinn datt til dæmis ekki inn um bréfalúguna hjá okkur fyrr í dag. Þar eru sjálfstæðismenn í hverfinu að gera hosur sínar grænar fyrir atkvæðum heimilisins.

Einu sinni var Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík staðfestan uppmáluð og haggaðist ekki frekar en sólin sem rís og hnígur sæmilega reglubundið hvað sem dynur yfir heimsbyggðina. Allt í einu tóku sjálfstæðismenn  í borgarstjórn upp á því að vilja pakka Reykjavíkurflugvelli saman og eltu þannig málflutning meirihlutans í borgarstjórn. Svo þegar vinstri-grænir fóru á dögunum að taka undir sérhagsmunatengd sjónarmið nokkurra lækna varðandi nýtt háskólasjúkrahús fóru sjálfstæðismenn líka að murra eitthvað um að endurskoða áform um nýjan spítala. Ég sem hélt að búið væri að lenda spítalamálinu og skil ekki hvað þessum flokkum gengur til.

Samfylkingin nær engu flugi í kosningabaráttunni og virkar leið á sjálfri sér. Framsókn rak upp á Löngusker og tommar ekki af strandstaðnum. Eina merkjanlega lífsmarkið þessa sólarhringana er í kringum þessa frjálslyndu, af öllum flokkum. Fari svo sem horfir mun fylgi þeirra sæta tíðindum á kosninganótt. Það þarf hins vegar meira að gerast til að sjálfstæðismenn nái meirihluta í borgarstjórn og hugsanlega fá þeir til sín nægilega sveiflu í næstu viku. Hver veit. Sjálfstæðisflokkurinn hefur yfirleitt fengið betri útkomu í skoðanakönnunum en í kosningum og gangi það eftir núna líka þarf hann einfaldlega enn meira fylgi til að ná takmarki sínu annan laugardag.

Sjálfur hefði ég viljað að Steinunn frænka frá Göngustöðum yrði borgarstjóri áfram en af því verður víst ekki. Samfylkingunni hefði farnast betur með hana á toppnum en það er ekki mitt vandamál heldur flokksins.

Í þessum kjörleiða sækir að manni ákveðin heimþrá. Ég hefði helst viljað vera á kjörskrá í Svarfaðardal og nágrenni nú um stundir og taka þátt í að gera Svanfríði Jónasdóttur að bæjarstjóra. Hún hefði reyndar sómt sér vel líka í ráðhúsi Reykjavíkur en ekki verður nú á allt kosið.


Sylvíupestin-II

Ríkisútvarp vort, sem ber ábyrgð á útflutningi Sylvíu til Grikklands, hlýtur að draga lærdóm af útreið gærkvöldsins, og sjá til þess að gerpið verði kyrrsett um aldur og ævi þar suður frá svo hin íslenska þjóð geti snúið sér að einhverri annarri vitleysu. Þessi skrítna þjóð getur víst ekki svarið af sér gerpið, að minnsta kosti sá hluti hennar sem borgaði Símanum okurgjald forðum fyrir að greiða henni atkvæði. Það sem kórónaði vitleysuna á sviðinu í Grikklandi var að söngur gerpisins var afar slakur, atriðið illa æft og í raun enn skelfilegra en efni stóðu til. Enda var baulað meira á fyrirbærið en samanlagt í áratuga sögu Júróvísjon. Og dómgreind manna sem hrærast í þvælunni er orðin svo brengluð að helst var á þul sjónvarps íslenska ríkisins að það hefði getað staðið til að gerpið kæmist áfram. Alla vega tókst honum að töfra fram býsna trúverðuga grátstafi í kverkarnar. Evrópuþjóðum sé lof og prís að losa okkur við gerpið og nú ættu sæmilega viti bornir menn að sjá til þess að það heyri sögunni til. Alveg. Alla vega heyri ég að foreldrar barna sem gerpið plataði til að vera viðstaddir uppákomu við ESSO á Ártúnshöfða  á dögunum hafa engu gleymt. Og sýni gerpið sig á nýjan leik hér heima gæti komið til þess að það þyrfti raunverulega lífverði....


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband