Klassekampen og Selvstendighetspartiet

Dagblaðið Klassekampen í Noregi sló upp í dag ummælum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra um að leið Íslendinga lægi til Brussel, inn í Evrópusambandið. Blaðið átti altsvo tal við ráðherrann og hafði þetta upp úr krafsinu. Þar með hefur ritstjórn málgagns norskra maóista trúlega talið sig hafa fengið staðfest að leiðir heyfingarinnar og Sjálfstæðisflokksins í ESB-málum lægju ekki lengur saman. Það er af sem áður var.

Síðla árs 1994 komst Árni M. Mathiesen, þá óbreyttur þingmaður, á forsíðu Klassekampen í risauppslætti gegn ESB, með mikilli velþóknun maóistanna. Hann var á Norðurlandsráðsþingi í Tromsö þegar örfáir dagar voru í þjóðaratkvæðagreiðslu í Noregi um Evrópusambandsaðild og afar heitt í kolum í þjóðmálaumræðunni í landinu. Blaðamenn frá Klassekampen voru á ferli á fundarstað að krækja í norræna viðmælendur sem vildu ekkert með Evrópusambandið hafa og féllu því vel í kram lesendanna. Ég benti þeim umsvifalaust á fulltrúa Sjálfstæðisflokksins á svæðinu, þar væru sannfærðustu samherjar Arbeidernes kommunistparti marxistene-leninistene í ESB-málum á Íslandi, hægrimenn, langstærsti flokkurinn og forystuafl í ríkisstjórninni. Þetta þótti útsendara Klassekampen undarlegt og býsna lygilegt en hætti sér samt í að svífa á Árna Matthiesen sem kom þar aðvífandi. Svo kom blaðamaðurinn ljómandi af ánægju með afraksturinn og þakkaði mér fyrir ábendinguna. Árni fékk daginn eftir einn mesta uppslátt sinn í fjölmiðli fyrr og síðar og allir undu glaðir við sinn hlut, aðstandendur Klassekampen, lesendur blaðsins og Árni.

Undir kvöld missti málgagn norskra maóista - og yfirleitt allir fjölmiðlar sem höfðu útsendara á Norðurlandaráðsþinginu - af einstæðu myndefni í andófinu gegn Evrópusambandsaðild í Noregi. Nei-hreyfingin gegn ESB efndi til fjöldagöngu um götur Tromsö og leiðin lá meðal annars fram hjá hótelinu þar sem forsætisráðherra Íslands bjó. Þarna gengu menn í þúsundavís undir rauðum fánum og fjandsamlegum slagorðum gegn ESB, syngjandi og gólandi baráttusöngva.

Svo vildi til að Davíð Oddsson kom út af hótelinu á leið til kvöldverðar fyrirmenna einmitt þegar baráttugangan fór þar hjá. Hann hreifst með á augabragði, snaraðist út á götuna og gekk undir rauðum fánum og ydduðum slagorðum þónokkra metra, áður en ringlaðir öryggisverðir í fylgdarliðinu náðu áttum og vísuðu forsætisráðherranum veginn af byltingarvettvangi götunnar til veislusala fyrirfólksins.

Daginn eftir rakst ég á blaðamann Klassekampen í þinghúsinu og sagði frá því að leiðtogi Sjálfstæðisflokksins af Íslandi hefði toppað óbreyttan liðsmann sinn, Árna Matt, með því að sogast með velþóknun inn í Nei-gönguna og berast áfram með straumnum nokkur augnablik áður en norska leyniþjónustan tók í taumana. ,,Fjandinn sjálfur," svaraði Klassekampen að bragði. ,,Nú verðum við að setja vakt á þennan Sjálfstæðisflokk. Við hefðum lagt alla forsíðuna undir Oddsson og miðopnuna líka ef við hefðum staðið hann að verki. Við hefðum meira að segja átt góðan séns í fréttamynd ársins!"

Þar með kvaddi Klassekampen og gekk hryggur á braut. Enn raunamæddara er maóistablaðið væntanlega nú þegar það hefur sannreynt að staðfesta forystu sjálfstæðismanna af Íslandi í ESB-málum sé óðum að rakna upp. Klassekampen getur þá huggað sig við að í Seðlabankanum eigi Nei-hreyfingin í Norge ennþá staðfastan bandamann frá því í göngunni miklu í Tromsö 1994. Það er huggun harmi gegn á örlagatímum. 


Rubba af Ólympíuleikunum, bankinn bíður

Landsliðsþjálfari Íslendinga er bankastarfsmaður og þarf að flýta sér heim í vinnuna strax eftir Ólympíuleikana; bankinn bíður! Þetta var einn af mörgum fróðleiksmolum og gullkornum sem þulir sænska sjónvarpsins stráðu í útsendingunni af leik Íslendinga og Pólverja í morgun. Ég hafði byrjað að horfa á RUV en álpaðist til að tékka á hinum norrænu sjónvarpsstöðvunum í miðjum fyrri hálfleik. Svíarnir sendu beint frá leiknum en Danir og Norðmenn voru í róðri og kappreiðum á sama tíma. Ekki varð aftur snúið til RÚV. Þulurinn þar hafði fátt annað að segja en hver var með boltann, hver var í sókn og hver var rekinn út af - nokkuð sem hver einasti áhorfandi með þokkalega sjón vissi hvort eð var. Sænsku þulirnir unnu hins vegar fyrir sínu kaupi með því að greina leikinn fyrir þá á slíku þurftu að halda. Hvað klikkaði í sókn eða vörn? Hvað lukkaðist í sókn eða vörn. Hvað réði úrslitum yfirleitt þegar upp var staðið?

Sænsku þulirnir voru afskaplega hrifnir af íslenska liðinu, sérstaklega hlóðu þeir hóli á Björgvin Pál Gustavsson markvörð og sögðu að stutt væri í að hann yrði keyptur frá Fram í atvinnumennsku í Þýskalandi eða Danmörku. Þessi leikur myndi jafnframt tryggja Björgvin sæti aðalmarkmanns landsliðsins en hann hefði komið til móts sem varamarkvörður. Þeim fannst vörnin sérlega fín, hældu Sverre, Guðjóni Val og Ólaf Stef - með rökum en ekki blaðri.

Svíarnir færðu rök fyrir því að Íslendinganar ættu góða möguleika á móti Kóreumönnum eða Spánverjum í undanúrslitum og töldu meiri likur en minni á að Ísland spilaði til úrslita í handbolta á Ólympíuleikum í fyrsta sinn.

Það skulum vér og vona en hvað sem öðru líður vel ég útsendingu Sveriges Radio strax í upphafi undanúrslitaleiksins. Ef að líkum lætur fæ ég þá meira að vita um mína menn og leik þeirra en í ,,þjóðarsjónvarpinu" RUV! Merkilegt en satt.

PS. Ólafur Ragnar toppaði á réttum tíma eins og landsliðið. Var mættur á svæðið í morgun og baðaði sig í sviðljósunum að leik loknum en menntamálaráðherra illu heilli kominn heim til Íslands frá Beijing. Æ æ. Einboðið að ráðherrann hætti við að taka upp úr töskunum, fari til Kína á nýjan leik og vonandi ríkisstjórnin í heild og stjórnarandstaðan öll (enda fá sæti í flugi sem þarf fyrir hana), fráfarandi og verðandi borgarstjóri líka, biskupinn, ríkisskattstjóri, siglingamálastjóri og yfirdýralæknir. Elítan út, Íslandi allt.


Símanúmer Styrmis undir ráðherrasíma

Halldór Ásgrímsson varð utanríkisráðherra í nýrri ríkisstjórn Davíðs Oddssonar 23. apríl 1995. Þann dag tók ég viðtal við hann fyrir Útvarpið skömmu eftir að hann hafði fengið lyklavöldin í ráðuneytinu. Það var ekki pappírssnifsi á borðum og bekkjum og bókahillur biðu galtómar eftir að nýr húsbóndi raðaði þar í skruddum og gögnum sem hann vildi hafa nálægt sér í vinnunni. Þegar viðtalinu var lokið og ég á leið út úr skrifstofunni kallaði ráðherrann í mig og sagði mér að kíkja að gamni undir símtækið sem stóð við hlið tölvunnar á vinnuborðinu hans. Það var sími með beinni fastlínu út úr húsinu. Mér þótti ósk ráðherrans undarleg en gekk að símtækinu og lyfti því upp. Undir símanum blasti við lítill miði, límdur fastur á borðið. Á honum stóð: Styrmir - bein lína og símanúmer skráð þar hjá. ,,Ræstingaliðið hefur auðvitað haldið að beina línan til Styrmis tilheyrði ráðherraembættinu en ekki Jóni Baldvin og ekki þorað að hrófla við miðanum þegar skrifstofan var þrifin í tilefni stjórnarskipta!" sagði utanríkisráðherrann. 

Þessi litla saga rifjaðist upp þegar ég gluggaði í dagbækur Matthíasar Johannessens Morgunblaðsritstjóra á Vefnum í dag. Þar er margt fróðlegt að finna um samskipti þáverandi ritstjóra og stjórnmálaforingja og óspart vitnað í nokkurra ára gömul trúnaðarsamtöl og alls kyns palladóma viðmælenda ritstjóranna um samherja og andstæðinga í pólitík. Flestir viðmælendanna hefðu nú annað hvort látið vera að hitta ritstjórana yfir hádegissúpu eða þá þegið súpuna og bitið í tunguna á sér oft og lengi yfir diskunum hefðu þeir haft hugarflug til að ætla að í samtölin yrði vitnað á opinberum vettvangi 2008.

Ég held að vísu að Davíð Oddssyni sé nokk sama þó Matthías vitni í bréf frá DO til Morgunblaðsritstjórans frá í mars 1995 (í aðdraganda þingkosninga) þar sem segir m.a.:

Það verður ekki við því gert, Matthías minn, þótt ég og fjöldi annarra manna og kvenna í þessu landi hafi þá skoðun að misnotkun Morgunblaðsins í þágu kratanna sé auðmýkingarefni fyrir blaðið og kannski ekki síst fyrst að blaðið hefur ekki einu sinni burði til að kannast við það sem allir sjá.

Hins vegar er ég ekki alveg sannfærður um að Svavar Gestsson hafi haft opinbera dagbók í huga þegar hann ræddi við Matthías 2. apríl 1965:

Þegar Svavar talaði um að hann væri undrandi á því hvað fjölmiðlar hefðu þyrmt Ólafi Ragnari þótt þeir hafi vitað undan og ofan af þessu ósiðlega fjármálabraski hans sagði ég við hann að ég hefði ekki fyrr heyrt orð af því sem hann hefði sagt.

Á þessum trúnaðarfundum var greinilega oft rætt um fjármál Alþýðubandalagsins, um fjármál Ólafs Ragnars Grímssonar og fleiri manna. Þar var farið í frumheimildir, beint úr Landsbankanum:

Styrmir er kominn heim frá Ameríku. Setti hann inn í öll mál í morgun. Sverrir Hermannsson kom rétt fyrir hádegi og sagði að hann væri með skjöl úr Landsbankanum sem ákveðnir menn vildu ná af honum upp á líf og dauða. Við hlustuðum. Hann tók upp skjöl úr pússi sínu, yfirlit um fyrirgreiðslu bankans við pólitíkusa og skuldir stjórnmálaflokka við bankann. Þetta var allt með ólíkindum.

Um sama leyti voru forsetahjónin í ,,opinberri heimsókn" á Seltjarnesi, í sveitarfélaginu þar sem þau  höfðu búið um árabil. Þessa heimsókn bar á góma á trúnaðarfundinum með Sverri Hermannssyni, sem og það að hús Ólafs Ragnars og Guðrúnar Katrínar væri veðsett vegna áhvílandi skulda við Landsbankann. Matthías hefur eftir Sverri í dagbókinni:

Við hefðum átt að halda uppboð á húsinu hans á Nesinu í tilefni dagsins. Það hefði kórónað þessa opinberu heimsókn!

Það gerist margt - eða gerist ekki - yfir glasi. Enn og aftur er það staðfest í dagbók Morgunblaðsritstjórans fyrrverandi. Þeir Steingrímur Hermannsson hittust á Þingvöllum vorið 1987 og Matthías hefur meðal annnars eftir viðmælandanum:

Flestir teldu að hann ætti að hafa stjórnarforystu á hendi í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og framsóknarmanna, það og útvíkkun með þriðja flokki væri að hans mati niðurstaða kosninganna. Saknaði þess að geta ekki talað við Þorstein eins og hann kysi, hann gæti fengið sér í staupinu með Svavari Gestssyni og líkaði það vel, en ekki Þorsteini! Hann hringdi varla nokkurn tíma af fyrra bragði. Það væri þá frekar að aðrir sjálfstæðismenn hringdu til að ræða málin.

Staup og stjórnmál koma líka við sögu í dagbókarfærslu 17. október 1998:

Styrmir sagði mér eftir Jóni Baldvini sem drakk kahlúa-líkjör með Halldóri Ásgrímssyni í Washington um daginn (hann getur víst drukkið ótæpilega af honum), að Halldór ætli sér forsætisráðherraembættið, þótt hann láti líta svo út sem hann hafi ekki áhuga á því. Davíð telur víst að Halldór hafi ekki þennan metnað,  en hann þarf kannski að horfast í augu við hann, ef Framsókn fær oddastöðu eftir næstu kosningar.


Borgarblús

Það vantar í fjölmiðlaumfjöllun hingað til um hræringar í Ráðhúsi Reykjavíkur að varpa ljósi á kulnunina sem hefur átt sér stað í minnihlutanum í borgarstjórn frá því allir voru vinir í þar í skóginum þar til nú að Óskar Bergsson og stuðningsmenn hans í Framsókn ganga til meirihlutamyndunar með sjálfstæðismönnum.  Samstaðan í borgarstjórnarmeirihlutanum var ekki sú sem menn vildu vera láta en samstaðan í minnihlutanum var heldur ekki sú sem menn vildu vera láta. Þar eru rætur þess sem nú er að gerast. Óskar og hans menn hafa til dæmis aldrei fyrirgefið Samfylkingunni að kaupa spurningu í vagni hjá Gallup og leita álits svarenda á frammistöðu foringja Framsóknar í borgarstjórn, þ.e. Óskars Bergssonar. Framsókn er á öndverðum meiði við hina minnihlutaflokkana Bitruvirkjunarmálinu og fleira mætti nefna.

Fyrir liggur að skelfileg útreið fráfarandi borgarstjórnarmeirihluta í nýlegri fylgiskönnun herti á og flýtti atburðarásinni sem fór í gang núna í vikunni. Stjórnarskiptin geta út af fyrir sig lagað stöðuna eitthvað gagnvart kjósendum en það er ekki gefið að næsta Gallupkönnun verði skárri en sú síðasta. Vandinn sem nýi meirihlutinn stendur nefnilega frammi fyrir er að borgarbúar, hvar í flokki sem standa eða flokksleysingjar, eru upp til hópa löngu búnir að fá nóg af pexi, væringum og pólitískum skyndikynnum út og suður í borgarstjórninni. Ætla má að kjósendur láti þann pirring bitna á stjórnarflokkunum hverju sinni frekar en minnihlutanum.

Fráfarandi meirihluti lenti á dramatískum tímamótum í lífi sínu þegar hann ákvað að brúka meira en hálfan milljarð króna til að kaupa húsræskni við Laugaveginn í Reykjavík. Þetta mál skaðaði meirihlutann miklu meira en ráðamenn hans virtust gera sér grein fyrir, tætti af þeim atkvæði í höfuðborginni og gerði sjálfstæðismenn um land allt rasandi og reiða. Ég hef sjálfur farið víða um land undanfarna mánuði og alls staðar hitti ég sjálfstæðismenn á förnum vegi sem voru afskaplega óhressir með samstarfið við Ólaf F. í borgarstjórn og nefndu kaupin á kofabrakinu í miðborginni sem nærtækasta dæmið um hve dýrkeypt meirihlutamyndunin hefði verið í meira en einum skilningi. Síðar bættist fleira við, sumt býsna skrautlegt. Eins og til dæmis það þegar varaformaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur lýsti í sumar yfir samúð með málstað Saving Iceland-safnaðarins! Þá stirðnaði nú bros á ýmsum.

Í lokin vinsamleg tilmæli til fjölmiðla og stjórnmálamanna í höfuðborginni: Hættið nú í öllum bænum að kenna einhvern hóp manna í Ráðhúsinu við sönghópinn góða úr Svarfaðardal. Að blanda Tjarnarkvartettinum inn í pólitíska ruglið í höfuðborginni er ekki einu sinni fyndið.


Fréttaleysisraunir í Ráðhúsi

Miklar eru raunir fjölmiðlamanna orðnar þegar það er orðið fréttaefni út af fyrir sig að blaða- og fréttamenn sitji í Ráðhúsinu, við þá vilji enginn tala og þar með sé ekkert að frétta! Ef miklar hræringar eru á annað borð í og við Ráðhúsið, og hafa verið í allan dag, er ansi aumt að skila auðu í fréttatíma eftir fréttatíma og hafa fátt annað fram að færa en endurteknar speglasjónir um málmþreytu í núverandi meirihluta. Það er nú ekki beinlínis nýjabrum á þeim tíðindum. En er ekki hugsanlegt að málmþreytu sé líka að finna í minnihlutanum og þar sé komin skýring á óróanum? Einn nánasti samverkamaður Óskars Bergssonar borgarfulltrúa um árabil skrifaði á bloggsíðu sína kl. 13:43 í dag (miðvikudag) eftirfarandi klausu sem segir öllu meira en ekki-fréttir hefðbundinna fréttamiðla:

Dagur Eggertsson segir í fréttum í morgun að samstaða minnihlutaflokkana í borgarstjórn sé mikil.  Þar hefur þó borðið nokkurn skugga á.   VG og Samfylking stukku til við úrskurð Skipulagsstofnunar um Bitruvirkjun og fögnuðu niðurstöðunni og stóðu að frestun framkvæmda.   Þetta var gert án nokkurs samráðs í minnihlutanum og ekki öllum framsóknarmönnum að skapi.   Eftir þetta fagn er ljóst að málefnaleg samstaða minnihlutans í atvinnumálum er ekki til staðar.  Atvinnumál eru brýnustu málin í dag.   Fulltrúar Samfylkingar í nefndum og ráðum titla sig síðan sem talsmenn minnihlutans í hinum ýmsu málaflokkum án nokkurs samráðs og taka sér völd og áhrif á nokkurs umboðs.   Svo má auðvitað minna á dæmalausa skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir Samfylkingu og lét vera að spyrja um frammistöðu Óskars Bergssonar.   Félagsvísindastofnun skuldar framsóknarmönnum afsökun á arfaslökum vinnubrögðum við gerð þessarar könnunar.

 

 


Gestir Dalvíkinga borgi fyrir tjaldstæðin

Umgjörð Fiskidagsins mikla er orðin hefðbundin og skipulagið öruggt enda vanir menn við stjórnvölinn. Við vorum á tjaldstæði Dalvíkur núna um Fiskidagshelgina sjötta árið í röð. Að vera á tjaldstæðinu er að minnsta kosti helmingurinn af Fiskidagsfjörinu og nánast óhugsandi að breyta út af því.

Auðveldara er um að tala en í að komast að taka á móti öllum gestaflaumi Dalvíkinga svo vel fari. Nú sem fyrr var gisting á tjaldstæðum Dalvíkur ókeypis frá miðvikudegi til sunnudags um Fiskidagshelgina en gestir sem notuðu rafmagn borguðu 200 krónur á sólarhhring - ef þeir á annað borð höfðu fyrir því sjálfir að rölta inn í afgreiðslu sundlaugarinnar og gera grein fyrir sínum málum. Við vorum á tjaldstæðinu í tíu daga samfleytt, borguðum fyrir dvöl og rafmagn en urðum aldrei vör við að tékkað væri á því hvort gestir hefðu greitt fyrir þjónustuna eður ei. Ég skil ekki og hef aldrei skilið af hverju ekki eru innheimt gjöld af Fiskidagsgestum á tjaldstæðinu og tekjurnar meðal annars notaðar til að efla gæslu og þjónustu. Fólk er að fá ókeypis súpu í heimahúsum, fisk og fínerí við höfnina og skemmtidagskrá eins og best gerist. Að bæta fríu tjaldstæði ofan á allt saman er absúrd. 

Rafmagnsmálin á tjaldstæðinu voru sérkapítuli í fyrra og aftur í ár og verða það að óbreyttu líka næsta sumar. Færri en vilja geta stungið í samband og fengið rafmagn í farhýsin sín og álagið er langt yfir mörkum í kerfinu. Þess vegna sló út aftur og aftur og rafmagnslaust var tvær nætur
í röð. Lofthiti á Dalvík fór niður fyrir þrjár gráður um tvöleytið aðfararnótt laugardagsins og þá var nú heldur svalt í svefnstæðum fellihýsins Fengsæls GK úr Álftlandi þar sem rafmagn þurfti til að ræsa gasmiðstöðina!

Skýrum stöfum stóð á upplýsingatöflu tjaldstæðanna að bannað væri að brúka þar rafmagnsofna af því þeir tækju svo mikinn straum. Gott og vel. Vandinn er bara sá að rafmagnsofnar eru orðnir útbreiddir í þessum bransa og meira að segja komst ég að því að í það minnsta tvær tjaldvagnaleigur láta rafmagnsofna fylgja með vögnum sem þær leigja út.  Slíkar græjur eru sum sé orðnar standardbúnaður með tjaldvögnum! Og lái nú hver sem vill fólki sem gengur til hvílu í innan við þriggja stiga hita að það reyni að fá hita í kroppinn með ofni sem það hefur leigt með vagninum sínum. Sjálfur hefði ég borgað tíu þúsund kall fyrir rafmagn nóttina köldu ef einhver orkusveinn hefði bankað upp á og boðið slíka munaðarvöru þá stundina. En raforka var bara ekki föl þá fyrir nokkurn pening og því glömruðu tennur fram undir morgun. 

Þetta rafmagnsástand var verra nú en áður og verður að óbreyttu enn verra að ári. Það er fyrirsjáanlegt með öllu! Aðeins ein leið er til út úr ógöngunum og hún er að sjálfsögðu sú að bæta orkukerfið á tjaldstæðunum og láta notendur borga fyrir þjónustuna. Dalvíkingar eiga núna að horfa á tekjurnar sem þeir neita sér um ár eftir ár, innheimt þær frá og með næsta Fiskidegi og bæta í staðinn þjónustuna, fyrst og fremst varðandi rafmagnið.

Bílakraðak IEitt verður svo að nefna varðandi tjaldstæðin og varðar öryggismál. Hingað til hafa menn verið í þokkalega þéttri kös á aðaltjaldstæðinu og næsta nágrenni á Dalvík, lögreglu og slökkviliði til skiljanlegrar skelfingar, enda ekki hlaupið að því að koma til aðstoðar ef kviknar í eða eitthvað annað alvarlegt gerist í kösinni miðri. Nú gerðist það að menn með málningargræjur birtust á tjaldstæðinu strax eftir verslunarmannahelgi og bjuggu til akreinar um tjaldstæðið fyrir slökkvibíla, sjúkrabíla eða lögreglu, ef á þyrfti að halda. Aðalleiðin gegnum þvert svæðið var hins vegar ríflega lögð, hátt í álíka breið og þjóðvegur eitt, hvernig svo sem menn hafa fundið út að þörf væri á slíku bruðli með dýrmæta landspilduna. Sem betur fer gerðist þess ekki þörf að fara með neyðarbíla um þessar rásir í gegnum farhýsaflóruna. Gestir á tjaldstæðinu óku hins vegar bílum sínum ótæpilega fram og aftur um svæðið dag og nótt og lögðu bílum við tjaldvagna og fellihýsi út um allt, bílum sem áttu auðvitað þar engan veginn heima. Meira að segja dunduðu menn við að girða af bílastæði fyrir sig og sína og koma þannig jafnframt í veg fyrir að aðrir gætu tjaldað á staðnum. Nýtingin á aðaltjaldsvæðinu var því afar slök í ár og þá komum við aftur að því sem nefnt var í upphafi:
Dalvíkingar eiga auðvitað að innheimta gjald af gestum tjaldstæðanna og herða þar gæslu! Vísa mönnum út af svæðinu með bílana sína og þar fram eftir götum, eins og gerist og gengur á öllum öðrum tjaldstæðum á stórhátíðum.


Bílakraðak IITil sanns vegar má færa að auðveldara var að komast um svæðið með slökkvibíla eða sjúkrabíla ef á hefði þurft að halda en þá þurfti líka að passa upp á að aðrir væru ekki á rúntinum á þessum öryggisleiðum. Ég varð vitni að litlu barni sem skaust út á milli tjaldvagna og mátti ekki miklu muna að það anaði undir fjallajeppa sem brunaði í tilgangsleysi þar fram hjá. Ég þykist nokkuð viss um hvaða umfjöllun Fiskidagurinn mikli hefði fengið í fjölmiðlum núna eftir helgina ef barnið hefði verið örlítið fljótara að hlaupa. Öryggisráðstafanirnar í ár (akstursleiðir til neyðaraðstoðar) sköpuðu þannig óbeint nýja hættu á tjaldstæðinu og urðu til þess að dreifa farhúsabyggðinnni meira um bæjarlandið en ástæða var til.


Geir H. Haarde af himnum ofan

IMG_6123Forsætisráðherra landsins kom af himnum ofan til Dalvíkur um Fiskidagshelgina og lenti við hafnargarðinn í sjóflugvél. Við stjórnvölinn var Svarfdælingur af Göngustaðaætt: Arngrímur Jóhannsson, lengi kenndur við flugfélagið Atlanta. Þeir sem voru á gangi niður við Dalvíkurhöfn að kvöldi föstudagsins ráku upp stór augu þegar flugvél kom í sveigju yfir bæinn, hlammaði sér niður á sjóinn og sigldi svo upp að bryggju eins og ekkert væri sjálfsagðara. Enn meira undrandi varð liðið þegar út úr vélinni komu forsætisráðherrahjónin Geir H. Haarde og Inga Jóna Þórðardóttir áleiðis í súpurölt um Dalvíkina í fylgd Svanfríðar bæjarstjóra Jónasdóttur og Jóhanns Antonssonar. En það gerist svo margt á Fiskidögum Dalvíkinga....


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 210860

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband