Þriðjudagur, 12. ágúst 2008
Rokk, flugeldar og súpa
Fiskidagurinn mikli á Dalvík var sá best heppnaði sem við höfum upplifað og Álftlendingar segja því að lengi geti gott batnað. Aðstandendur hans geta því enn og aftur verið býsna roggnir með sig, fjandakornið að hægt sé með nokkru móti að finna veikan blett á nokkrum hlut í skipulagi, undirbúningi og framkvæmd þessarar gríðarlega umfangsmiklu samkomu. Þetta var unaðurinn einn frá upphafi til enda. Bæjaryfirvöld ættu hins vegar að verja tíma í að fara yfir ýmislegt sem að þeim snýr (sjá annan pistil hér á blogginu um tjaldstæðamálin).
Skemmtidagskráin við höfnina á laugardaginn var þéttari en áður með vaxandi spennu í lokin eins og vera ber. Auðvitað var við hæfi að slá botn í samkomuna með Eyþóri Inga og félögum. Og þvílíkur endapunktur hjá drengnum. Ég segi enn og aftur: Þessi drengur er hreint fyrirbæri, stútfullur af tónlist með ótrúlegt raddsvið og fágæta útgeislun. Svo sýndi hann og sannaði þarna að hann kann líka að semja ágætis lög. Ef sýnishornin við Dalvíkurhöfn eru dæmigerð fyrir væntanlega plötu frá kappanum er ástæða til að hlakka til. Hressilegt og hrátt rokk, ekkert fjandans píkupopp. Nóg er nú komið af vælukjóum í þá deild. Með sér á sviðinu hafði Eyþór Ingi fína músikanta úr heimabyggð og þar skal fyrstan nefna Örn á Tjörn, afskaplega skemmtilegan og færan gítarista.
Strákarnir náðu upp rífandi stemningu og lífi á hafnarsvæðinu en það gerðu fleiri. Nokkru áður birtust nefnilega senuþjófar dagsins og fóru á kostum, kennarar í Tónlistarskóla Dalvíkur. Lokanúmerið þeirra var Queen-lagið magnaða, Bohemian Rhapsody. Sá flutningur var einfaldlega í heimsklassa, hreint gæsahúðardæmi. Breski sendiherrann í Reykjavík hlýtur að láta Betu drottningu vita af þessum nýútsprungnu Queen-söngstjörnum á Dalvík. Hún býður þeim þá væntanlega í höllu sína, rennir sér í það minnsta tvöfaldan gin og tónik í kristalkrús, lyngnir augum og hlýðir á dalvískan drottningarsöng.
Hápunktar skemmtidagskrárinnar við höfnina voru sem sagt heimatilbúnir að þessu sinni og ekki einu sinni Rúni Júl skákaði þeim þó í góðum gír væri. Óþarfi að flytja að skemmtikrafta þegar það besta er að finna í eigin ranni og ekki einu sinni allt notað sem tiltækt er. Ég hefði til að mynda þegið í þetta sinn að hlýða frekar á Hund í óskilum en Hvanndalsbræður enn einu sinni. Það kann hins vegar að hafa áhrif þá skoðun að fyrr í sumar eignaðist ég illu heilli nýju plötuna með þeim bræðrum. Sú var spiluð einu sinni og síðan ekki söguna meir. Subbuskapurinn þar er Hvanndælingum til lítils sóma.
Og þegar talað er um hápunkta Fiskidagsins í ár verður ekki horft fram hjá tvennum frábærum tónleikum í Bárubúð á miðvikudags- og fimmtudagskvöldið. Á þeim fyrri var Þórarinn Hjartarson frá Tjörn í aðalhlutverki og hafði sér til samsöngs og trausts dóttur sína, Sigríði Ívu. Sú er nemi í klassískum söng í Osló. Hún kom til landsins deginum áður svo ekki vannst mikill tími til æfinga en óhætt er að segja að framlag hennar hafi fallið áheyrendum vel í geð og rúmlega það. Þórarinn klikkaði ekki frekar en fyrri daginn og auðvitað heiður skilinn fyrir að endurnýja kynni þjóðarinnar við skáldið góða Pál Ólafsson.
Síðari kvöldið stóð heil familía frá Tjörn á sviðinu: Kristjana Argrímsdóttir, Ösp Kristjánsdóttir, Örn Kristjánsson og Kristján Hjartarson. Verður að segjast að þetta var fyrst og fremst kvöld Aspar. Hún er í djasssöngnámi hjá FÍH í Reykjavík og er þegar orðin miklu meira en efnileg. Svarfdælingar hafa þar með eignast djasssöngkonu í úrvalsflokki og hana nú! Undirleikari á píanó var frænka hennar, Matthildur Anna (dóttir Önnu Kristínar Arngrímsdóttur, leikkonu frá Ásbyrgi). Hún er í námi í píanóleik í Lundúnum og tilhlökkunarefni að heyra meira frá þeim frænkum saman í framtíðinni.
Örn bróðir Aspar sýndi þarna og svo á sviðinu við höfnina á sjálfan Fiskidaginn að hann er flottur tónlistarmaður og nú nemur hann tónsmíðar í Listaháskóla Íslands svo enginn vafi er á að hann á eftir að láta að sér kveða enn frekar. Um frammistöðu foreldranna, Kristjönu og Kristjáns, þarf ekki að fara mörgum orðum. Þau stóðu undir væntinum og rúmlega það og auðheyrt var í salnum að áheyrendur hefðu þegið að heyra ögn meira í Kristjönu; hún er bara svo mögnuð söngkona.
Þetta var mikil og góð upplifun bæði kvöldin en það verður að segjast að Bárubúð er ekki salur við hæfi slíkum samkomum. Þarna yfirfullt, einkum síðara kvöldið, og eilíft ráp fólks í gegnum miðjan sal á leið til og frá barnum. Og handan barborðsins var ofan á allt saman hávaðasöm kaffivél sem yfirgnæfði söng og spil þegar áheyrendur voru svo óheppnir að viðskiptavinir pöntuðu frekar ítalskt kaffi en kollu af öli. Kannski má láta sig dreyma um að þessir tónleikar að ári verði komnir í fína menningarhúsið sem lokið var við að glerja fyrir helgina handan götunnar, gegnt Bárubúð?
Þegar öllu var á botninn hvolft var raunverulegur hápunktur Fiskidagsins í ár var hins vegar bryggjusöngur og flugeldasýning við höfnina undir miðnætti á laugardagskvöldið. Þar var blankalogn, léttskýjað, meiri mannfjöldi í brekkum en sést hefur áður, söngur, stuð og alveg listilega vel útfærð og flott flugeldaskothríð á vegum Sparisjóðs Svarfdæla og björgunarsveitarinnar.
Fiskidagurinn snýst auðvitað um fisk, ekki bara um söng, flugelda, hopp og hí. Nýjungin á matseðlinum var pítsan mikla sem bökuð var í ofni hjá Sæplasti. Ljómandi góður matur og í fyrsta flokki eins og allt annað sem við smökkuðum. Í úrvalsdeildinni voru hins vegar kræklingssúpa Vallabænda, saltsíld í bás Kollu og félaga og svo plokkfiskur Gríms kokks úr Eyjum. Allt unaðslegar vörur sem nægja til að draga matgæðinga til Dalvíkur af öðrum landshornum. Með fullri virðingu fyrir öllu og öllum; þetta þrennt kemur aftur og aftur upp í hugann, ekki síst þessi unaðslega súpa frá Völlum. Er ekki næst á dagskrá að byrja að framleiða austurríska kræklingasúpu a la Bjarni & Hrafnhildur á Dalvík og selja um land allt?
Mánudagur, 26. maí 2008
Tíminn vinnur MEÐ flugvellinum!
![]() |
Meirihluti vill flugvöllinn áfram í Vatnsmýri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 25. maí 2008
Vandræðaleg vörn fyrir vondan málstað
Óskaplega var hún pínleg málsvörn formanns Frjálslynda flokksins í Silfri Egils vegna dæmalausrar framgöngu varaformanns hans í ,,stóra Akranesmálinu". Guðjón Arnar sló úr og í og helst var á honum að skilja að frjálslyndir vildu taka flóttafólki opnum örmum og sama ætti raunar við um flokksmenn hans á Akranesi. Það vill nú svo til að fólk ekki fífl, þó svo að markaðsstjóri OLÍS hafi haft slíkar hugmyndir um landa sína að leiðarljósi á samráðstímanum. Varaformaður frjálslyndra hefur nú heldur betur slegið um sig í kjaftaþáttum ljósvakamiðla og bloggað út og suður. Fólk með miðlungs sjón og heyrn þarf ekki að láta flokksformanninn túlka neitt fyrir sig í þessum efnum. Málflutningurinn talar fyrir sig sjálfur og meira að segja þingmaður frjálslyndra, Kristinn H. Gunnarsson, skildi boðskap flokksmanna sinna á Akranesi á sama hátt og aðrir landsmann - að formanni frjálslyndra að vísu undanskildum.
Ef Frjálslyndi flokkurinn er þeirrar skoðunar sem formaður hans reyndi að telja okkur trú um í dag, ja þá hlýtur varaformaðurinn að fá rauða spjaldið strax eftir helgi og Akranesdeildinni verður þá jafnframt vikið úr flokknum.
Það eru ekki nema tveir kostir í stöðunni. Annað hvort tekur flokkurinn ábyrgð á þessu dapurlega daðri félaga sinna á Skaganum við rasismann eða gerir upp við daðrið á sannfærandi hátt, svo eftir verður tekið.
Laugardagur, 24. maí 2008
Ólafur Ragnar áfram
Ólafur Ragnar Grímsson verður áfram húsbóndi á Bessastöðum. Það er gott mál, mjög gott mál. Best af öllu er samt að losna við uppákomur á borð við þær sem við höfum þurft að þola nokkrum sinnum, fyrst í tíð Vigdísar og svo í tíð Ólafs Ragnars, þegar kverólantar og vitleysingar bjóða sig fram gegn sitjandi forseta, sér til andlegrar sjálfsfróunar en flestum öðrum til sárra leiðinda, skapraunar og útgjalda. Skattgreiðendur borga jú brúsann, ekki vitleysingarnir.
Þeir sem þola ekki Ólaf Ragnar hafa þegar fengið sína útrás með því að skila auðu, þökk sé kverólöntum í forsetaframboði. Fyrst útgefendur hinna auðu seðla ekki treysta sér til að finna alvöru frambjóðanda, og hjóla bara í forsetann í kosningum nú, er farsælast að þetta hafi farið sem fór, þ.e. að Ólafur Ragnar sé sjálfkjörinn. Það hefði þess utan alveg farið með þjóðarsálina að fá enn einu sinni dellukosningar til forsetaembættisins, ofan á vaxtaokur, efnahagssamdrátt og bensínverð ofar skýjum.
Fimmtudagur, 22. maí 2008
Júró á Rimum?
Ég heyrði ekki betur i upphafi útsendingar frá Serbíu í kvöld en það stefndi í að næsta Júróvisjónskrall yrði í heimabyggð Friðriks Ómars að ári. Þétt verður þá setinn Svarfaðardalur og Grundarbændur selja rússneskum olíufurstum aðgang að heita pottinum. Auðvitað er ákveðinn sjarmi yfir því að hafa Júróvisjón að Rimum og láta keppendur kúra í kojum í Húsabakkaskóla sáluga.
En fyrst af öllu þurfa nú Friðrik og Regína að vinna á laugardaginn og það geta þau auðvitað gert, burt séð frá öllu og öllu! Baráttukveðjur til þeirra og sveitunga minna á Dalvík sem gengu um götur í kvöld til stuðnings okkar fólki ytra.
Það er sannur Júllabragur á þessu uppátæki og guð má vita hvernig allt saman endar. Sami Júllinn, og hefur kallað tugi þúsunda manna til Dalvíkur ár eftir ár til að tjalda frítt og éta frían fisk, er sum kominn með puttana í Júróvísjón. Þegar svo er í pott búið getur allt gerst, líka það að Júróvisjón verði að ári á Rimum og svarfdælsk áhrif breiðist síðan hratt um Evrópubyggðir. Að fáeinum misserum liðnum verður svarfdælskur mars stiginn í Svíþjóð, svarfdælskur brús spilaður í Búlgaríu og tehettur Sigríðar á Tjörn eftirsóttar í Grikklandi. Og þykir nú engum mikið.
![]() |
Eurovision-skrúðganga á Dalvík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 8. maí 2008
Ganga gegn slysum og kraftaverkahjúkkurnar BAS
Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti við Landspítalann í Fossvogi í kvöld og drunurnar í henni bentu til að það lægi á að komast á áfangastað. Við búum í örskotsfjarlægð frá þyrlupallinum og erum farin að greina það býsna vel á vélarhljóði og aðflugi hve alvarleg tilvikin eru hverju sinni þegar komið er með slasað eða veikt fólk flugleiðis á slysadeildina. Oft fáum við hnút í magann, ekki síst þegar þyrlan æðir hér yfir að næturlagi eða um helgar. Það boðar oftar en ekki alvarleg tíðindi.
Hjúkrunarfræðingarnir þrír, sem stóðu að göngu gegn slysum í dag, lýsa eigin upplifun í vinnunni sinni líka þannig að þær fái hnút í magann við að heyra sírenuvæl í borginni eða drunur í þyrlu að lenda í Fossvogi. Munurinn er bara sá að þær verða vinnu sinnar vegna að taka því sem að höndum ber þegar þyrlan er lent. Ég hef hins vegar ekki annað um málið að segja en þakka í hljóði fyrir að vera ekki sjálfur fórnarlamb slyss um borð í þyrlu á leið á skurðarborð spítalans.
Hjúkkurnar þrjár, sem tóku upp á því í fyrra að skipuleggja göngu gegn slysum, eru vinkonur sem kalla sig BAS með vísan til upphafsstafanna í nöfnunum Bríet, Anna og Soffía. Þær endurtóku leikinn í dag með stuðningi fjölda fólks úr starfshópum sem tengjast slysum á einhvern hátt og með þátttöku þúsunda manna í göngunni. Blöðrum var sleppt í lok göngunnar á pallinum þar sem þyrlan lenti núna í kvöld. Það var áhrifamikil stund.
Kraftaverkakonurnar BAS höfðu sem síðasta orð af sinni hálfu að við ættum öll að fara varlega um hvítasunnuna því þær kæra sig ekki um fleiri viðskiptavini úr slysum í umferðinni. Óskandi væri að landsmenn tækju þeirri áskorun og hlífðu BAS, og öllum öðrum starfsmönnum sem málið varðar, við því að fá hnút í magann um helgina. Slysalaus hvítasunna væri góð byrjun á sumrinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 8. maí 2008
Stuð í Þjóðleikhúsinu
Aldrei hefi ég upplifað stemningu í Þjóðleikhúsinu í líkingu við þá taumlausu gleði sem ríkti þar í gærkvöld á sýningunni Ástin er diskó, lífið er pönk. Við fórum eiginlega með hálfum huga í leikhúsið eftir að hafa lesið og hlýtt á umsagnir fólks úr gáfumannafélagi gagnrýnenda. Það vantaði eitthvað í þetta allt saman og Hallgrímur Helgason er ekki nógu hnyttinn, segja gáfumenn. Gestirnir í leikhúsinu svara sjálfir gáfumannafélaginu með hlátri, klappi og broshýrum andlitsbjór frá upphafi til enda sýningar. Það á að dæma sýningar út frá því sem þær eru og út frá því sem þeim er ætlað að vera. Þarna hefur Þjóðleikhúsinu einfaldlega tekist að gera skemmtilega þjóðlífsmynd úr lítilli sögu, já og Hallgrímur ER hnyttinn. Tónlistin er vel valin og vel flutt. Það var stuð á sviðinu og stuð í salnum á sýningunni. Gaman, gaman. Ástin er diskó, lífið er pönk og gáfumannafélag gagnrýnenda er djönk.
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar