Fiskidagsörsögur III: Af ótímabærri fjarveru Frissa og borverki Skara

fridik-spar.jpgSá sem öðrum fremur á heiðurinn af því að risið er menningarhúsið Berg á Dalvík er Friðrik Friðriksson, sparisjóðsstjóri um árabil eða allt þar til snemma árs 2009. Hann átti frumkvæðið að framtakinu og lagði línur að því hvernig yrði staðið að málum. Stjórn Sparisjóðs Svarfdæla samþykkti hugmyndina og á heiður skilinn fyrir að taka fjármuni út fyrir sviga til þess arna sem ella hefðu tapast í bankahruninu alrlæmda. Mér þótti stórlega einkennilegt að Friðriki skyldi ekki fundið hlutverk þegar menningarhúsið var tekið í notkun á dögunum. Sannaðist þá enn einn ganginn að fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá. Ég ætla rétt að vona að sveitungar mínir gleymi ekki hvað Frissi spar og Sparisjóður Svarfdæla hafa gert til stuðnings og uppbyggingar um árabil – sem er hreint ekki sjálfsagður hlutur þegar fjármálafyrirtæki eiga í hlut. Menningarsjóður Sparisjóðsins kemur strax upp í hugann, sparkvöllurinn á Dalvík, skíðamannvirki í Böggvistaðafjalli og svo mætti áfram telja. Svo þykist ég vita að Frissi hafi prívat og persónulega verið betri en enginn þegar ýmis verkefni voru annars vegar sem hann vildi að næðu fram að ganga og lagði lið svo lítið bar á. Hann átti með réttu heima í þeim hópi sem stóð að formlegri opnun menningarhússins hvað sem líður stundarþrefi um erfiðleika Sparisjóðsins.


oskar-bormadur.jpgFall er fararheill. Allir lyklar að nýja menningarhúsinu á Dalvík lokuðust óvart inni á kontór framkvæmdastjóra Bergs daginn sem húsið var tekið í notkun með viðhöfn. Innan dyra er meðal annars stjórnkerfi loftræstingar hússins og ekkert var hægt að gera fyrir en prúðbúnir gestir með forsetahjónin í broddi fylkingar voru komin út á götu áleiðis í hressingarteiti í ráðhúsinu. Þá hljóp til Óskar Pálmason Tréverksmaður, vopnaður borvél, og boraði sig í gegnum skrána í hurðinni. Og viti menn, hann frelsaði heila lyklakippu og skipti svo um skrá. Guði sé lof fyrir að Skari er löghlýðinn borgari á Dalvík þegar haft er í huga að í næsta húsi er sparisjóður og á slíkum stöðum er gjarnan seðlageymsla. Læstar gullkistur eru tæplega mikið mál fyrir laghenta Tréverksmenn en þeir ganga víst ekki lengra en að bora sig inn í menningarhús.


Fiskidagsörsögur IV: Stofa Brimars á Jaðri og Jónsa á Jarðbrú

Sérkennilegt listaverk stendur uppi í menningarhúsinu á Dalvík og klóra margir sér í höfði yfir því. Á vegg hangir mynd af Böggvistöðum eftir Brimar Sigurjónsson frá Jaðri á Dalvík. Inni í kassanum er hins vegar módel af vinnustofu Brimars og þessi sama mynd er einmitt í vinnslu þegar listamaðurinn, Þórarinn Blöndal, „frystir augnablikið“. Það skal svo fylgja sögu að húsið Jaðar á Dalvík var upphaflega reist á Ársskógsströnd í byrjun síðustu aldar og hét þá Bröttuhlíð. Þar fæddist í stofu Jón afi Jónsson á Jarðbrú í stofu 12. júlí 1902. Heilsubrestur og erfiðleikar urðu til þess að fjölskyldan í Bröttuhlíð neyddist til að bregða búi.

jonsi-afi-i-kassanum.jpgBröttuhlíðarhúsið var þá selt, tekið niður, flutt í bútum til Dalvíkur og reist þar út við Brimnesá. Þar var sem sagt kominn Jaðar og stóð áratugum saman eða þar til Árni verktaki Helgason tók húsið í heilu lagi upp á vagn og fór með það fyrir Múlann til Kleifa við Ólafsfjörð. Nú er Jaðarshúsið á Kleifum, endurgert og flott (heitir því miður ekki Brötuhlíð, sem vel hefði átt við). Í menningarhúsinu á Dalvík er trékassi með rifu og kíki menn þar inn sést annars vegar vinnustofa Brimars á Jaðri og hins vegar fæðingarstofa Jónsa á Jarðbrú. Svona er nú veröldin sérstök á stundum.

 


Fiskidagsörsögur V: lágstemmdir gestir og bílakraðak á tjaldstæði

kleinusalar.jpgFiskidagsgestir á Dalvík voru mun fleiri nú en nokkru sinni fyrr en samt fór samkoman ótrúlega vel fram, reyndar var það lyginni líkast. Við vorum á tjaldstæðinu sjöunda Fiskidaginn í röð og verðum þar áfram. Það er helmingur stemningarinnar. Nú var (loksins) gefið út að gestir borguðu gistinguna og þó fyrr hefði verið. Þeir voru samt ekki skyldaðir til að borga, sem er óþarfa hæverska og misskilin gestrisni. Ég heyrði ekki nokkurn einasta mann kvarta yfir gjaldheimtunni, ekki einn! Ég heyrði hins vegar fólk undrast að gjald væri ekki innheimt af öllum og gengið eftir því. Slíku er fólk vant af tjaldstæðum. Tekjurnar á að nota til að manna vaktir til að taka á móti þeim sem koma inn á Dalvíkina og vita ekkert hvert þeir eiga að snúa sér til að fá leiðbeiningar um hvar sé hægt að koma fyrir húsbílnum eða tjaldvagninum. Í Fiskidagsblaðinu, sem dreift var með Mogganum eftir verslunarmannahelgina, var meira að segja ekki kort af Dalvík og yfir því heyrði ég marga kvarta. Það er nefnilega svo að fjöldi fólks var að koma í fyrsta sinn og kvartaði yfir því að fá ekki leiðbeiningar, einkum þegar leið á Fiskidagsvikuna. Ég hitti fólk við OLÍS með hýsi í eftirdragi eftir að myrkur var skollið á og allt að fyllast í bænum. Það hafði heyrt í útvarpinu á leiðinni að enn væri laust pláss ofan við kirkju en hvar var kirkjan og hvernig átti að komast „upp fyrir kirkju“?

umferd-a-tjaldstaedi-1.jpgÁhættusamt og rangt er að hafa allt opið og frjálst á tjaldstæðunum! Afleiðingar sjálfstýringar sáust vel í ár. Niðurstaðan varð til dæmis sú að fleiri en nokkru sinni áður lögðu bílum út um allt á tjaldsvæðunum sjálfum frekar en að skilja þá eftir utan við og ganga nokkra metra. Breiðstrætin sem byrjað var að teikna í öryggisskyni þvers og kruss um tjaldsvæðin fyrir þremur árum eða svo hafa aukið bílaumferð svo í óefni er komið. Eina ráðið er að hafa þarna gæslufólk sem heldur aftur af tilgangslausri bílaumferð og beinir henni  annað. Dalvíkingar sjálfir voru meira að segja komnir á rúntinn um tjaldstæðinu til að kíkja á lífið bæði kvölds og morgna!

Ég hefði ekki boðið í útganginn gróðrinum ef rignt hefði hressilega og oftar en raun varð á. Þá hefði tjaldsvæði Dalvíkur verið þannig útlítandi að bæjarstarfsmenn væru nú önnum kafnir við að tyrfa þar og á fleiri skikum í bæjarlandinu. Þetta er óþarfi, látið okkur gistivinina borga fyrir þjónustuna! Ég ætla að spara mér að nöldra yfir rafmagninu. Sauðkrækingum tókst að halda landsmót á dögunum með þúsundum manna á tjaldstæðum og þar var víst notaður leigður dísilrokkur til að framleiða rafmagn þannig að allir sem vildu gátu fengið og borgað fyrir – að sjálfsögðu. Þannig virka líka markaðslögmálin, líka eftir hrun. Dalvískur forráðamaður sagði mér að það væri svo dýrt að leigja rafstöð að slíkt kæmi ekki til greina. Jamm og jæja. Innheimtið þá bara nógu helvíti hátt gjald af þeim sem vilja stinga í samband og fá rafmagn! Og hana nú. 

rafmagnskassi.jpgAnnars skal það sagt hér og nú að mannlífið á tjaldstæðinu var til fyrirmyndar – ef bíladellan er undanskilin. Fyrr í sumar vorum við á tjaldstæðinu við Þórunnarstrætið á Akureyri og sváfum ekki dúr í tvær nætur vegna djöfulsgangs fram á bjartan dag (landsmótshelgin). Þar er samt gæsla allar nætur eða svo átti að heita. Á Dalvík er sem sagt ekki gæsla á tjaldstæðinu en þar var samt vandalaust að sofa og hvílast allar nætur í Fiskidagsvikunni. Fólk kunni sig einfaldlega og sýndi náunganum tillitssemi. Hins vegar  vantaði sárlega gæslu á daginn og á kvöldin, til að halda uppi lágmarksstýringu á því hvar og hvernig gestir tjalda + stöðva bílaöngþveitið tjaldstæðinu eða í það minnsta draga verulega úr því.


Góð sending frá Alþýðusambandinu

Ljúf dagsstund var það í sólskálanum að lesa Vinnuna, tímarit Alþýðusambands Íslands,  sem barst inn í forstofuna í gegnum bréfalúguna í tilefni dagsins. Flott mynd af Evu Maríu útvarpsþuli og Guðmundi Gunnarssyni verkalýðsforingja á forsíðunni dró athyglina að prentgripnum og þegar betur var að gáð reyndist hann vera hin fínasta lesning. Ég fór einfaldlega í gegnum Vinnuna frá upphafi til enda og þakka fyrir mig. Það er einfalt mál að gera svona blað óþarflega hátíðleg eða jafnvel dálítið þunglyndislegt eða leiðinlegt í tilefni verkalýðsdagsins en þarna tekst ritstjóranum, Skúla Má Helgasyni, að búa til kokkteil af aðgengilegu og áhugaverðu lesefni.

Vinnan hélt mér við efnið frá upphafi til enda og ég verð sérstaklega að nefna viðtalið við forsíðufyrirsæturnar, hina hliðina á Gylfa Arnbjörnssyni ASÍ-forseta í máli og myndum og svo  unaðslega grein eftir Rab Christie sagnfræðing um rætur knattspyrnunnar í verkalýðsstéttinni á Bretlandseyjum. Rab er mikill fótboltaáhugamaður og gegnumheill Skoti. Hann passar vel upp á að lauma inn í greinina sína skoskum þjóðernismolum svo lítið ber á, til dæmis: „Eins og margir atvinnumenn í greinini kom lausnin að þessum vandamálum að norðan.“ Sum sé norðan úr Skotlandi! Þetta er grein sem ætti að vera skyldulesning í fyrsta bekk í fótboltaskólanum.

Tilefni þess að ég yfirleitt skrifa um Vinnuna hér og nú er að þakka ASÍ fyrir sendinguna að morgni 1. maí.  Þegar viðtakandi blaðs fer að fletta, síðan að lesa og hættir ekki fyrr en allt er upplesið til agna þarf ekki að meira að segja. Vel heppnaður prentgripur.


Talniningarskandall í þingkosningunum

Vitleysa í einhverju tölvuforriti gerði það að verkum að yfirkjörstjórnir þriggja kjördæma birtu rangar fréttir um útstrikanir í þingkosningunum og yfirkjörstjórn eins kjördæmis til viðbótar treysti sér lengi vel ekki til að gefa upp neinar tölur um útstrikanir! Morgunblaðið birtir okkur þessa stórfurðulegu frétt í dag og verður að segjast að kannski var meiri þörf fyrir alþjóðlegt kosningaeftirlit hér á landi en margur hugði. Þetta er auðvitað ekkert annað en skandall og ekki boðlegt að réttar upplýsingar um úrslit kosninganna á laugardaginn skuli ekki vera lagðar á borð fyrr en komið er fram á föstudag! Breytir engu að röð frambjóðenda hafi ekki verið breyst, aðalatriðið er að hægt sé að ganga að því sem vísu að yfirkjörstjórnir í mörgum kjördæmum fari ekki með bull og vitleysu í tölum sem þær birta.

Útstrikanir eru nú í fyrsta skipti vopn sem kjósendur nota í stórum stíl til að tjá flokkum og frambjóðendum hug sinn í verki. Það svíður undan þegar frambjóðandi er strikaður rækilega út og augljóslega mikilvæg að rétt sé farið í einu og öllu með viðkvæm persónuleg skilaboð af því tagi. Yfirkjörstjórnir hafa með vinnubrögðum sínum brotið á frambjóðendum og kjósendum með því að birta rangar útstrikunartölur. Frammistaða yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis var sýnu verst og hún ætti að fá sérstakan undirkafla í skýrslu alþjóðlegu eftirlitsnefndarinnar að skilnaði því ekki dettur mér annað í hug en skipt verði þar um áhöfn í heilu lagi. Þessari kjörstjórn tókst að sleppa alveg útstrikunum Einars Kr. Guðfinnssonar þegar úrslitin voru birt í kjördæminu sem varð til þess að Ólína Þorvarðardóttir var ítrekað krýnd sem útstrikunarsigurvegari kjördæmisins. Svo kom í ljós að Einar Kr. fékk ekki bara útstrikanir heldur langflestar útstrikanir í kjördæminu. Sama kjörstjórn skrifaði líka miklu fleiri útstrikanir á Lilju Rafney Magnúsdóttur en innistæða var fyrir og hún var ítrekað nefnd meðal útstrikunarkónga í fréttum. Einar græddi á skandalnum en Ólína tapaði og Lilja Rafney miklu frekar.  Og það er sum sé yfirkjörstjórnin sem býr til þessar „fréttir“ sem sýna sig vera bull.

Svona þvæla kemur sem sagt upp á því herrans ári 2009 og tölvuforriti kennt um. Núna á árinu 2009 gerist það líka og það í fyrsta sinn að kjörstjórnir aðskilja auð og ógild atkvæði í talningu.  Hingað til hefur auðum og ógildum atkvæðum verið hrúgað í einn pott í talningu og lufsur yfirkjörstjórna þar með í raun komið í veg fyrir að þeir sem skiluðu auðu kæmu boðskap sínum óbrengluðum á framfæri.  Ég sem hélt að einfalt mál væri að líta svo á að ógilt atkvæði væri ógilt og auður atkvæðaseðill væri auður.  Úrslit skyldu birt í samræmi við það. Hingað til hefur hins vegar verið brotið á réttindum þeirra sem velja að skila auðu með því að telja atkvæðaseðlana þeirra með ógildum. Þeirri skandalsögu í talningu lauk sum sé nú og þó fyrr hefði verið.


Puttar í eyrum og dramatík á Drekasvæði

Það sem helst situr eftir frá uppgjöri stjórnmálaleiðtoganna í sjónvarpssal í gærkvöld er myndin af fulltrúa Borgarahreyfingarinnar með putta í eyrum til að verja hljóðhimnurnar fyrir áreitni þegar Bjarni Ben og Jóhanna Sig görguðust á um eitthvað sem ég man ekki hvað var. Umræðan var annars eftir bókinni og fyrirsjáanleg, enda efnistök spyrlanna fyrirsjáanleg. Það var bara farið í „málin “ eitt af öðru og engin einasta spurning kom gestum í opna skjöldu. Þeir gátu sagt sér sjálfir hverju mætti eiga von á. Það hlýtur nú að vera hægt að finna svo sem eina spurningu á mann sem kemur viðmælandanum á óvart og kryddar tilveruna fyrir þá sem heima sitja.


Sigmundur framsóknarformaður má hins vegar eiga það að koma Steingrími J. á óvart í upphafi þáttar og þjarma að honum út af einhverju undarlegu leyniskýrslumáli varðandi bankahrunið og þau ósköp öll. Steingrímur lenti þar í vörn og náði sér ekki á strik eftir það. Þetta var ekki kvöldið hans. Þetta var heldur ekki kvöldið hennar Jóhönnu en samt átti hún spretti, til dæmis þegar henni tókst að koma Bjarna Ben í vörn um stund í síðari hálfleik. Það var ekki nógu létt yfir ríkisstjórnarparinu, þau gátu alveg leyft sér að vera ögn glaðbeittari.


Bjarni komst í stórum dráttum vel frá þættinum og var einmitt dálítið glaðbeittur. Guðjón Arnar átti ágætan dag og einfalda þulan hans um ríkisfjármálin er reyndar það sem situr eftir í hausnum á mér eftir tveggja klukkutíma mal leiðtoganna. Sigmundur gerði sig betur þarna en í fyrri þáttum í kosningabaráttunni og mátti nú ekki seinna vera. Ef frammistaða stjórnmálaforingja í svona þætti skiptir á annað borð einhverju máli fyrir sveimhuga og óákveðna kjósendur ættu Frjálslyndir og Framsókn að hagnast eitthvað á leiðtogauppgjörinu og ekki er fráleitt að hugsa að einhverjir sjálfstæðismenn, sem hugðust sitja heima eða skila auðu, hafi ákveðið að lufsast á kjörstað og kjósa flokkinn sinn eftir allt saman upp á gamlan vana.


Hver hefði annars trúað því í janúar og febrúar í vetur að kosningabaráttan í heild yrði svo venjuleg og jafnvel syfjuleg á köflum sem raun ber vitni um? Fjandakornið að að hægt sé að merkja einhvern mun. Flokkarnir í sömu gömlu hjólförunum, fjölmiðlarnir líka.  Það er eins og gerst hafi í gær. Meira að segja Borgarahreyfingin – sem engin merki eru reyndar um að sé raunveruleg hreyfing – er ekki fersk á neinn hátt heldur gengur inn í settið sem „gömlu flokkarnir“ hafa smíðað og tekur á sig þreytulegt yfirbragð dægurstjórnmálanna fyrir aldur fram. Undarlegt að upplifa þetta eftir allt sem á undan er gengið í vetur!


Ímynd og yfirbragð kosningabaráttunnar birtist ekki síst í auglýsingum. Þar þykir mér Framsóknarflokkurinn og auglýsingastofa hans verið með forvitnilegasta innleggið, litaglatt og ferskt. Auglýsingaherferð vinstri-grænna er líka býsna frískleg, ég er alltaf hrifinn af því þegar andlitsmyndir af fólki eru skornar þröngt og karakter fyrirsætanna dreginn þannig sterkt fram. Auglýsingar Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins eru hins vegar kunnuglegar. Þær koma fyrir sem endurtekið efni og skortir frumleika og hugmyndaflug sem merki eru vissulega um hjá hjá Framsókn og vinstri-grænum. Auglýsingar Frjálslynda flokksins eru hallærislegar og ekki orðum á þær eyðandi. 


Skýr teikn eru á lofti um að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi einn flokka að taka á sig skell af efnahagshruninu með fylgishruni. Það er nokkuð sem flokksforystan virðist bara hafa sætt sig við orðinn hlut og reynir í besta falli að takmarka tjónið. Haarde og Davíð er kennt um allt saman. Samfylkingin var líka í ríkisstjórn í hruninu með bankamálaráðherrann og Fjármálaeftirlitið undir sinni stjórn en sleppur samt, þökk sé Jóhönnu.


Framsóknarflokkurinn nær engu flugi og ef niðurstaðan verður sú að hann er hjakkar í svipuðu fari nú og í kosningunum 2007 er það auðvitað kjaftshögg og ávísun á enn ein formannsskiptin þar á bæ. Framsókn hefur verið utan ríkisstjórnar frá 2007 og hefði átt að fiska eitthvað út á það en gerir ekki.


Frjálslyndi flokkurinn er á útleið, hvort sem hann nær inn manni nú eður ei. Tími hans er liðinn. Borgarahreyfingin er skyndibiti og á útleið líka hvort sem hún fær mann eða menn kjörna nú eður ei. Hún á ekki langlífi fyrir höndum.


Vinstri-grænir munu bæta stórlega við sig frá síðustu kosningum og voru reyndar á slíku flugi í síðustu viku að stefndi í enn meira og jafnvel að þeir sigldu upp fyrir Samfylkinguna. Svo fór greinilega að hægast um í byrjun vikunnar og að kvöldi vetrardags stoppaði Kolbrún umhverfisráðherra fylgisstrauminn með nokkrum velvöldum setningum á Stöð tvö og gerði reyndar gott betur. Hún sá til þess að einhver og einhverjir sem ella hefðu sest á Alþingi fyrir flokkinn verða áfram þar sem þeir eru. Umhverfisráðherrann lýsti því sem sagt yfir að flokkurinn væri á móti olíuleit og olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Sú yfirlýsing jafngilti sprengju sem varpað var inn í kjörvígi Steingríms formanns á norðausturhorni landsins og víbrarnir fundust  greinilega víðar um land, líka í höfuðborginni. Það var ótrúlega áþreifanlegt hve snögg og ákveðin áhrif ummælin höfðu gagnvart vinstri-grænum. Flokksforystunni tókst ekki að bæta skaðann þrátt fyrir að hún sendi út yfirlýsingu klukkustundu síðar þar sem ummælum umhverfisráðherrans var afneitað. Þar með fauk ráðherrastóllinn Kolbrúnar.


Drekasvæðið varð svo sjálfum flokksformanninum, Steingrími J., fótakefli og tungubrjótur tveimur kvöldum síðar og örlagavaldurinn var sem fyrr hinn dugmikli og klóki fréttamaður Stöðvar tvö, Kristján Már Unnarsson. Hann neyddist til að spyrja Steingrím sjö sinnum hvort vinstri-grænir styddu olíuvinnslu á Drekasvæðinu og fékk á endanum svar sem efnislega var á þá leið að flokkurinn styddi rannsóknir en nógur tími væri til þess síðar að ræða um sjálfa vinnsluna. Kvöldið eftir birtist yfirmaður á Orkustofnun á skjá Stöðvar tvö og sagði flokksformanninn ekki skilja málið því leyfi til rannsókna væru jafnframt vinnsluleyfi á Drekanum. Enn supu menn hveljur á norðausturhorninu.


Kolbrún í klóm drekans

Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra á ekki sjö dagana sæla í eigin flokki. Hún fór illa út úr prófkjöri í kjördæminu sínu í vetur og mátti þakka fyrir þriðja sætið á framboðslistanum.

Í kvöld sagði hún í fréttum Stöðvar tvö að vinstri-grænir væru andvígir olíuleit á Drekasvæðinu og fór miður fögrum orðum um slíkar og þvílíkar hugmyndir.

Þegar leið á kvöldið barst fjölmiðlum yfirlýsing frá vinstri-grænum þar sem þessi ummæli voru rekin öfug ofan í kok ráðherrans: Vinstrihreyfingin – grænt framboð áréttar að flokkurinn hefur ekki lagst ekki gegn olíuleit á Drekasvæðinu.

Á tímabili í kvöld voru tvær gjörsamlega gagnstæðar fréttir um stefnu flokksins í málinu á forsíðu mbl.is!

Drekar eru ekki lömb að leika sér við, hvorki í ævintýrum né í pólitík.

 

VG-gegn-drekanum-vonda

VG-með-drekanum-góða

Á visir.is voru sömu fréttir birtar samtímis á forsíðunni í kvöld og á milli þeirra reyndar skotið tíðindum sem flokkast væntanlega undir dapurlegt umhverfisslys af einhverju tagi: Lindsay Lohan veslast upp úr ástarsorg. Skyldi hún annars vera með eða á móti olíuleit á Drekasvæði, horrenglan sú?

 

nei nei og já já


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband