Þriðjudagur, 4. september 2007
Laukur Krossaættar sökkti Fylki
![]() |
Fjölnir úr 1. deild í bikarúrslitin gegn FH |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 31. ágúst 2007
Sextíu og fjórir flugliðar - einn fréttamaður
Það stefnir auðsjáanlega í að uppsögn eins fréttamanns á Stöð tvö fái meiri fjölmiðlaumfjöllun en uppsagnir sextíu og fjögurra flugliða hjá Icelandair. Fjölmiðlamenn forgangsraða málum að sjálfsögðu í samræmi við mikilvægi. Og geti þeir talað hverjir við aðra eða hverjir um aðra, ja þá er slíkt mál málanna. Að sjálfsögðu. Stjórnendur fyrirtækja ráða og reka starfsmenn, af ýmsum ástæðum. Þannig er það nú bara. Mig varðar ekkert um hverjar fréttastjórar vilja hafa í vinnu hjá sér og hverja ekki. Þeir um það. Ég sá hins vegar á helsta viskubrunni mínum, mbl.is, að fráfarandi fréttamaður Stöðvarinnar tengdi uppsögn sína við að nýr fréttastjóri þar á bæ hefði áður verið upplýsingafulltrúi í forsætisráðuneytinu. Orðrétt: Ráðning hans leggur trúverðugleika fréttastofunnar í rúst og bendir til þess að menn kunni ekki að umgangast fréttastofur.
Hér fer ekkert á milli mála um álit og meiningu. Ég sem hélt að menn yrðu í þessu sem öðru dæmdir af verkum sínum í nútíð frekar en einhverjum öðrum verkum í þátíð. Eðli máls samkvæmt eru fréttir Stöðvar tvö býsna sýnilegar almenningi öllum og ef nýi fréttastjórinn flytur með sér banvænar pólitískar klyfjar þarna inn á gafl, kemur það nú fljótt í ljós og springur bara framan í hann sjálfan og batteríið allt. Svo man ég ekki betur en hann hafi nú í millitíðinni stýrt Íslandi í dag í um þónokkurt skeið og tekið þátt í að gera það að prýðisgóðum þætti.
Hérlendis er það viðhorf lífseigt að þeir, sem hafa komið nálægt stjórnmálastarfi af einhverju tagi, flokkist undir farsóttarsjúklinga og skuli sæta vist í einangrunarkví á vinnumarkaði að loknu þessu æviskeiði sínu. Mörg dæmi eru meira að segja um að fyrrverandi alþingismönnum gangi illa eða alls ekki að fá vinnu! Þetta er þveröfugt í grannríkjum þar sem ég þekki þokkalega vel til og þar eru fyrrverandi pólitíkusar meira að segja eftirsóttir, líka til fjölmiðlastarfa. Þar er nefnilega litið á stjórnmálastarfið sem reynslu sem geti verið dýrmæt og nytsamleg á öðrum starfsvettvangi. Í íslenskum fjölmiðlaheimi virðist hins vegar á stundum sem lífs- og starfsreynsla af öðrum vettvangi sé til hreinnar bölvunar. Og helst að fjölmiðlungarnir séu sem næst barnsaldri og rétt skriðnir af skólabekk.Föstudagur, 24. ágúst 2007
Dramatískar myndir af gamla Múlaveginum
Pistillinn um Brattahlíð/Jaðar á Kleifum dregur dilk á eftir sér. Bloggsíðunni bárust frábærar myndir frá Ólafsfirði, sem staðfesta í eitt skipti fyrir öll að fleiri íbúðarhús verða ekki dregin fyrir Múlann. Meira að segja Árni Helga þarf að taka til hendinni, ætli hann að endurtaka leikinn við tækifæri. Rúnar Kristinsson fór upp í Múlann á dögunum, nánar til tekið 17. ágúst 2007, og tók myndirnar.
Fyrir þá sem vilja meiri sagnfræði skal rifjað upp að Ólafsfjarðargöng voru tekin í notkun í desember 1990 og formlega vígð með bænalestri og borðaklippingum í marsbyrjun 1991. Vegurinn fyrir Múlann, sem göngin leystu af hólmi, hefur því verið staðið ónotaður í hálfan annan áratug. Sá gamli hefur látið á sjá og er á köflum ekki sýnilegur! Annað hvort hefur vatn rofið í hann skörð eða skriður fært í kaf.
Innilegar þakkir fyrir ,,lánið" á myndunum, nafni minn góður!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 21. ágúst 2007
Sagan af eina húsi heimsins sem farið hefur fyrir Múlann
Árni Helgason, framkvæmdaskáld og verktaki, var höfðingi heim að sækja þegar hann bauð skólafélögum úr árgangi 1953 í Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar heim til sín á Kleifum við Ólafsfjörð á laugardaginn var. Hann sýndi okkur hús sem hann á ásamt Ólínu systur sinni og hefur verið að gera upp undanfarin ár. Húsið á merkilega sögu og hefur meira að segja víða farið um dagana! Á daginn kom svo að það tengdist beinlínis familíunni á Jarðbrú.
Árni vildi gjarnan fá línu um málið að sunnan og fær hana hér með í opnu bréfi.
Timburhúsið umrædda var í upphafi reist á Árskógsströnd um aldamótin 1900, suður og upp af Litla-Árskógi. Þetta var nýbýli í landi Brattavalla, nefnt Brattahlíð.
Húsbyggjandinn var Stefán Hallgrímsson frá Stóru-Hámundarstöðum, bróðir Jóns Hallgrímsonar síðar bónda á Jarðbrú. Sonur Jóns var Jónsi á Jarðbrú, Jón Jónsson, og hann eignaðist synina Halldór bónda á Jarðbrú og Þóri, skólastjóra á Húsabakka og síðar kennara á Ólafsfirði.
Kristmunur Bjarnason greinir frá því í Sögu Dalvíkur að sökum fjárhagsörðugleika, sem stöfuðu af veikindum, hafi heimilið í Brattahlíð verið leyst upp og húsið selt árið 1908. Nýir eigendur voru góðir og mikilvirkir smiðir á Dalvík: Jóhann Jóhannsson frá Háagerði og Elías Halldórsson. Þeir rifu húsið, fluttu til Dalvíkur, endurreistu það í sameiningu í landi Brimness árið 1909, gáfu því nafnið Jaðar og bjuggu þar með fjölskyldum sínum og fleirum.
Í sögu Dalvíkur er Jaðri lýst þannig að húsið hafi verið talið ,,15 x 10 álnir að flatarmáli, járnvarið með kjallara undir. Næstu áratugina tók það miklum stakkaskiptum, hið innra sem ytra, byggt var við og húsinu breytt á ýmsa lund svo lítið var eftir af upprunalegri gerð þess.
Segir nú ekki af Jaðri fyrr en bæjaryfirvöld á Dalvík ákváðu að selja húsið til niðurrifs árið 1996 til að auka athafnarými Sæplasts við Brimnesána. Árni Helgason á Ólafsfirði bauð í húsið og eignaðist það. Hann ætlaði í fyrstu að rífa eign sína niður í sprek á eldinn, eins og efni þóttu standa til, og ónefndir svarfdælskir bændur buðust til að flýta fyrir honum með því að hirða járnplöturnar utan af húsinu. Svo snerist Árna hugur og hann ákvað að láta duga að rífa viðbyggingu Jaðars en flytja sjálft húsið út á Kleifar og gera að frambúðarþaki yfir höfuð sér. Dalvíkurbæ lá hins vegar á að losna við húsið í hvelli svo Árni brá á það ráð að kippa því af grunninum og finna því áningarstað í sex vikur á landi Þorleifs bónda á Hóli út. Reyndar gekk mun betur en á horfðist að hífa Jaðarshúsið af aldargömlum dvalarstað sínum á Dalvík því í ljós kom að það sat laust á grunni sínum, án nokkurra festinga!
Á meðan Jaðar staldraði við á Hóli steypti Árni grunn á Kleifum og tók nokkur kvöld í að hreinsa grjót af Múlavegi. Þegar stundin rann upp hífði hann Jaðar upp á vagn og lagði af stað frá Hóli um áttaleytið að kvöldi. Húsið þokaðist á vagni fyrir Múlann í svartri þoku áleiðis til Ólafsfjarðar og út á Kleifar, þar sem hann lyfti því upp á nýsteyptan kjallara. Jaðar komst á leiðarenda um miðnættið eftir fjögurra tímaferðalag, án teljandi erfiðleika. Þar lágu leiðir mínar og Jaðars sem sagt saman núna í ágúst.
Eigendur hússins eru að taka það í gegn og hafa heldur betur tekið til hendinni. Glæsilegar eru vistarverurnar orðnar á hæð og í risi. Mörg handtök eru samt eftir í kjallara og utan dyra en ef fram fer sem horfir verður framkvæmdin sjálfkjörið forsíðuefni fyrir Hús og híbýli eftir fáein ár. Meira að segja er kominn heitur pottur við Jaðar og vatnið í hann er tekið úr borholu þar á hlaðinu! Árni fékk nefnilega þá flugu í höfuð að bora sjálfur eftir heitu vatni og hætti ekki fyrr en upp kom meira en þurfti til að hita upp öll hús á Kleifum.
Andrúmsloft lista og skáldskapar fylgdi Jaðri á Dalvík og örugglega er sá andi enn í húsinu á nýjum stað. Brimar Sigurjónsson málari var jafnan kenndur við heimili sitt, Jaðar. Málverk eftir hann eru á veggjum Dalvíkinga og og annarra en líklega náði hann til flestra með myndlist sinni í gegnum starf með Leikfélagi Dalvíkur. Brimar málaði leiktjöld á Dalvík áratugum saman og gerði þau svo áhrifamikil að sum þeirra eru jafnsterk í minningunni og sjálf leikritin á fjölunum hverju sinni. Skrifari man til dæmis eftir leiktjöldum í Skugga-Sveini frá því í æsku eins glöggt og sýningin hefði verið í síðustu viku. Svo stór þáttur voru þau í dramatíkinni þegar farið var að þjarma að Sveini og Katli skræk.
Síðast en ekki síst skal nefndur til sögunnar landskunnur hagyrðingur sem kenndi sig við Jaðar, Haraldur Zóhóníasson. Kveðskapur hans lifir góðu lífi enn þann dag í dag, enda sígildur. Eftirfarandi vísa átti til dæmis sæmilega við síðastliðinn laugardag, þegar Árni, framkvæmdaskáld á Jaðri á Kleifum, bar óspart lífsins vatn í gesti sína:
Þegar glóir glösum á
guðaveiga fengur,
meðalhóf að hitta þá
heldur illa gengur.
Þekktasti texti Halla á Jaðri er sjálfsagt Síldarvalsinn við lag Steingríms Sigfússonar. Síldarvalsinn er löngu orðinn klassískt sjómannalag og alþýðusöngur. Það sést best á því að hann er að finna á þeim geisladiski sem seldist mest á Íslandi sumarið 2007: Langferðalögum með KK og Magga Eiríks. Þeir félagar fara afskaplega vel með lag og texta ,,því nóg er um hýreyg og heillandi sprund á Dalvík og Dagverðareyri .
Vel má vera að skáldgyðjan hafi byrjað að sá fræjum á Jaðri á Dalvík fyrir daga Haraldar Zóphóníassonar, jafnvel í fyrsta lífi hússins þegar það hét Brattahlíð og var á Árskógsströnd. Jafnvel er ekki útilokað að einhver skáldagen hafi borist þar í Jónsa á Jarðbrú strax við fæðingu í Brattahlíð því hagmæltur var hann ágætlega og sumar vísur hans lifa, til dæmis sú sem hann orti um fyrsta afabarnið sitt á Jarðbrú:
Sullukollur Atli er,
ekki er gott að sjá við því.
Um gólfið oft hann gengur ber,
gott er að skella rassinn í.
Þar með lýkur pistli til heiðurs Jaðarshúsinu, sem Árni og Ólína ættu reyndar að íhuga alvarlega að nefna Brattahlíð! Þar með væri húsið komið til uppruna síns og Brattahlíðarnafnið á þar að auki ljómandi vel við á Kleifum. Þetta er fyrsta og síðasta húsið sem fer fyrir Múlann enda gamli Múlavegurinn fyrir löngu orðinn ófær vegna skriðufalla og á köflum reyndar hreinlega horfinn!
Það þótti óðs manns æði að ætla að flytja þennan farm fyrir Múlann og jafnvel enn vitlausara að fara að bora eftir heitu vatni við húshornið. Ólafsfirðingar segja hins vegar að ef Árni Helgason geti ekki framkvæmt hlutina séu þeir óframkvæmanlegir. Þess vegna komst Jaðar á áfangastað og hóf þar sitt þriðja líf. Og þess vegna bunar heitt vatn bunar frá Jaðri í hvern krana og hvern ofn á Kleifum.
- Myndir af fermingarbarnamótinu 2007 (þær sem talið er óhætt að birta)
Dægurmál | Breytt 6.9.2007 kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 15. ágúst 2007
Heitum á Óskar og Sibbu!
Að minnsta kosti tveir afleggjarar Jarðbrúarættarinnar taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis á laugardaginn kemur, 18. ágúst: Akureyringurinn Óskar Þór Halldórsson og Seltirningurinn Sigurbjörg Eðvarðsdóttir.
Óskar Þór ætlar að hlaupa 10 kílómetra en Sibba frænka tekur hálft maraþon og lítur á það sem upphitun fyrir yfirvofandi heilmaraþon í útlandinu í haust. Hún hefur þegar á afrekaskránni heil maraþonhlaup hingað og þangað um landsbyggðina og færist frekar í aukana en hitt.
Sibba hleypur í þágu Einstakra barna en Óskar fyrir Hetjurnar, félag aðstandenda langveikra barna á Norðurlandi. Við sem förum hægar yfir í lífinu getum nú slegið tvær flugur í einu höggi og heitið á þessi svarfdælsku gen, annars vegar til að hvetja þau til að klára nú skeiðið um helgina en hins vegar til að styrkja gott málefni, í þessum tilvikum Einstök börn og Hetjurnar.
Allir sem á annað borð ráða yfir greiðslukorti og tölvu geta heitið á þau í hlaupinu - sem og hvaða hlaupara aðra sem vera skal. Hið eina sem þarf að gera er að smella nákvæmlega hér og staðfesta greiðsluheitið. Annað hvort skrá menn nafn hlaupara og kalla það fram eða velja rétta félagið til að finna hlauparann. Síðan rekja menn sig áfram til að ganga frá áheitaskráningu. Þetta er skíteinfalt mál, það komst ég að raun um þegar ég skráði mig til áheita á Jarðbúrana tvo....
Áheitin renna óskipt til viðkomandi líknar- eða góðgerðarfélags. Mæti hlaupararnir ekki til hlaups eða komist ekki á leiðarenda verður upphæðin hins vegar ekki innheimt af greiðslukortareikningnum, það dugar því ekki annað en koma í mark til að félögin fái sitt.
Hjálpum Óskari og Sibbu að hlaupa til góðs!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 14. ágúst 2007
Kveðju úr sjoppu á Blönduósi komið til skila
Á leið suður af Fiskideginum mikla vék sér að mér maður í sjoppunni á Blönduósi. Sá var líka var á heimleið frá Dalvík og kvaðst hafa grun um að ég hefði einhver sambönd í baklandi Fiskidagsins. Erindið var að hvetja mig til þess að koma nú skýrt og greinilega á framfæri við Dalvíkinga þakklæti frá gestum þeirra um helgina. Þessi viðmælandi minn hafði ekki fyrr verið gestur á Fiskideginum en mikið heyrt af samkomunni látið og talið að þar væru miklar ýkjusögur í bland. En nú hafði hann upplifað þetta allt saman sjálfur og tjáði sig aðallega með lýsingarorðum í efsta stigi.
Svona viðbrögð mátti heyra víða, líka hjá þeim sem höfðu verið áður á Fiskideginum. Það er nefnilega alveg makalaust hve gott getur lengi batnað í þessum efnum. Skreytingarnar í bænum voru að stórum hluta nýnmæli og mynduðu fínan ramma um samkomuhaldið. Reyndar var það hin besta skemmtun í sjálfu sér að labba einfaldlega um götur og líta í kringum sig. Á föstudagskvöldið opnuðu íbúar í 70 húsum híbýli sín og fóðruðu gesti og gangandi á súpum úr hvers kyns sjávarfangi. Auðfinnanlegt var að á sumum stöðum höfðu dropateljarar ekki verið brúkaðir þegar bragðbætt var í pottunum með koníaki.
Dagskráin á hafnarsvæðinu á laugardaginn var þéttari og rann betur en oft áður. Þar leið tíminn hratt. Svo má ekki gleyma veitingunum. Þar var margt góðmetið sem kunnuglegt er frá fyrri tíð, eins og til dæmis unaðsleg saltsíld frá Fáskrúðsfirði og svo auðvitað fiskborgararnir á risagrillinu. Bjarni Ningsbóndi á Völlum var í fyrra með taílenska súpu í 1.200 lítra potti en steikti í ár austurlenskar rækjubollur og hafði varla undan. Svo skal nefndur til sögu Grímur kokkur í Eyjum sem kom á Fiskidaginn í fyrsta sinn og bauð upp á magnaðan plokkfisk. Það var Dalvíkurferðar virði að komast upp á bragðið hjá Grími og nú verður skimað framvegis eftir vörunum frá honum í kæliborðum verslananna.
Gestirnir kunnu gott að meta og grillmeistarar með áralanga reynslu af Fiskidagssamkundum fyrri ára lentu í meiri vinnutörnum en nokkru sinni fyrr. Eftirspurnin var mikil og ánægjan eftir því. Þrátt fyrir að gestir hafi verið fleiri en dæmi eru um áður, og borðað meira en nokkru sinni fyrr, var nóg eftir á lager þegar dagur var að kveldi kominn. Menn stóðu sem sagt upp á endann tímunum saman, gáfu krásir á báða bóga brosandi út að eyrum. Það var nú eitthvað annað með veitingasalann á Akureyri sem mætti til leiks með 4.000 hamborgara um verslunarmannahelgina, seldi bara þúsund stykki og nöldraði svo opinberlega yfir því í blaðaviðtali að þurfa að fylla allar frystigeymslur sínar með því sem óselt var. Náunginn sá hafði heldur takmarkaða samúð á hafnarbakkanum á Dalvík og þar heyrði stungið upp á að hann ætti bara að bíða þolinmóður til verslunarmannahelgarinnar 2008. Þá fylltist Akureyrarbær af ráðsettum borgurum sem treystandi væri til að tjalda. Hamborgararnir frá fyrra ári yrðu þá markaðssettir sem Eldri borgarar að akureyrskum hætti og rifnir út á tjaldstæðunum þar sem annars yrði aðallega hlýtt á dagskrá Rásar eitt í hátalarakerfi á kvöldin.
Fiskidagurinn mikli hefur alltaf verið haldinn í blíðviðri en nú var því spáð að út af myndi bregða svo um munaði. Veðurspámenn ríkisins gerðu í upphafi ráð fyrir samfelldri rigningu á Norðurlandi svo dögum skipti og menn sáu fyrir sér afskaplega votviðrasaman Fiskidag með tilheyrandi hrakningum og vosbúð. En veðurspáin reyndist heldur marklítil í heildina tekið. Rigningardemba kom á laugardagskvöldið, eftir að dagskrá lauk á hafnarsvæðinu, annars var þetta eftir bókinni. Meira að segja skein sólin skært á menntamálaráðherra og gesti alla þegar skóflustunga var tekin að menningarhúsinu mikla sem Sparisjóður Svarfdæla gefur byggðarlaginu.
Það sannaðist því um helgina að samningar, sem stjórn Fiskidagsins gerði forðum til 10 ára við Guð almáttugan um veðrið, standast eins og stafur á bók. Og reyndar er nú hafið yfir vafa að himnafaðirinn státar af svarfdælskum uppruna og er hallur undir sjávarútveg og alþýðlega hámenningu við Eyjafjörð. Sumir halda því reyndar fram að hann sé jafnvel íviðskiptavinur Sparisjóðs Svarfdæla. Um það vill Friðrik sparisjóðsstjóri hins vegar ekkert ræða og vísar til ákvæða í lögum um að bankaleynd nái út yfir gröf og dauða og gildi um allt guðsríkið - að eilífu, amen.
Himnavaldið er ekki fyrirsjáanlegt og minnir fínlega á sig. Sól skein til dæmis skært á skóflustungu sparisjóðsins en þegar biskupinn yfir Íslandi fór að tala yfir vináttukeðju þúsundanna neðan við Dalvíkurkirkju sigldi kólgulegt ský ofan af Böggvistaðadal og fyrir sólu. Það kólnaði jafnframt örlítið en rigndi ekkert. Má vera að embættisguðfræðin sé honum ekki alveg að skapi þarna uppi.
Veðurfræðingarnir voru fastir í rigningarspám sínum og sáu hvorki fyrir Sparisjóðssólina né kólgubakkann sem kom og fór á meðan vináttukeðjan var mynduð undir blessunarorðum biskups. Hugsanlega er eineltismoldviðrið farið að hafa áhrif á spádómsgáfuna. Kannski væri rétt að loka Veðurstofunni í eina viku í ágúst að ári, flytja hið einelta starfsfólk til Dalvíkur og búa til úr því sérhannaða vináttukeðju. Veðurklúbburinn í Dalbæ getur sem best spáð fyrir landið og miðin á meðan. Í það minnsta verður þá eitthvað að marka veðurspá fyrir Fiskidagsvikuna 2008.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 8. ágúst 2007
Den mektige fiskedagen
Mikið var upplyftandi að fá í dag kynningarblað Fiskidagsins mikla á Dalvík inn um bréfalúguna og sjá þar með staðfestan rökstuddan grun um að loksins væri að baki verslunarmannahelgin með tilheyrandi og síbyljandi ekkifréttavaðli um ekki neitt. Hvern djöfulinn varðar annars fólk í öðrum hreppum um hverjir fá að tjalda á Akureyri eða hvort fleiri eða færri hafi verið lamdir niður í Herjólfsdal frá fimmtudegi til mánudags en á sama tímabili í fyrra??
Aðalatriðið nú er sem sagt að gleyma verslunarmannahelginni og brúka þrekið til að gera fellihýsið Fengsæl klárt fyrir norðurferð. Stefnt skal að því að komast ekki síðar í næturstað á Dalvík en að kveldi fimmtudags. Það má víst ekki seinna vera því Bakka-Hjörtur á Steypustöðinni símaði suður þær fregnir í kvöld að tjaldstæðið að baki Sóleyjarhóteli Sigurhæðarbræðra væri að fyllast og hann ætlaði að skjóta gamalli JCB-gröfu út á blettinn á morgun til að taka frá legupláss fyrir Fengsæl. Það er nefnilega ekki nema hálft gaman að valsa um bæinn á fiskihátíðinni. Hinn ánægjuhelmingurinn er fólginn í því að búa í Tjaldþorpinu mikla þar sem bæjarbragurinn er stórum menningarlegri en gengur og gerist í skyndiþéttbýli af þessu tagi hérlendis. Og vel að merkja: Dalvíkingar telja að Íslendingar verði tjaldþroska 18 ára en tjaldþroskaaldur á Akureyri er hins vegar 24 ár eins og alþjóð kemst ekki hjá því að vera fyllilega upplýst um. Ótrúlega mikill þroskamunur á ekki lengri kafla við Eyjafjörð.
Alveg er vitavonlaust að lýsa Fiskideginum mikla fyrir fólki sem aldrei hefur upplifað dýrðina. Menn trúa því nefnilega sjaldnast að samkoman geti verið svona mögnuð og aldeilis einstök á sinn hátt. Ætli það segi ekki sína sögu að vér Álftlendingar búumst nú til Fiskidagsfarar fimmta árið í röð og stengjum þess heit í hvert sinn að mæta á ný að ári? Alltaf fjölgar gestunum en heimamenn bæta bara ár frá ári, og búa til enn meiri mat til að gefa okkur að borða. Og þvílíkur matur, maður minn! Það er sem ég segi: Þessu verður ekki lýst með orðum, eina leiðin er að mæta á svæðið og sannfærast um að Dalvíkingar eru Íslandsmeistarar í gestrisni.
- Meðfylgjandi myndir frá því í fyrra eru úr fjölskyldualbúminu.
- Mynd til hægri: Úlfar, meistarakokkur á Þremur frökkum, kynnir Dorrit forsetafrú dásemdir hrefnukjötsins með tilþrifum.
- Mynd til vinstri: Jói Fel og Bjarni, Ningsbóndi á Völlum í Svarfaðardal, saman úti að borða - í eins bókstaflegum skilningi og hugsast getur.
- Myndir frá Fiskideginum mikla 2006
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.7.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar