Miðvikudagur, 28. mars 2007
Ágætis flugtak Stöðvar tvö
Stöð tvö fór ljómandi vel af stað í kosningarallinu sínu í þætti um Norðvesturkjördæmi sem sendur var út í kvöld frá Stykkishólmi. Umgjörðin var góð og stjórnendur héldu vel utan um prógrammið. Niðurstaða nýrrar skoðanakönnunar fyrir kjördæmið gaf tóninn og prógrammið var áhugavert en að vísu hélt ég ekki út alveg til enda því landsleikurinn við Spánverja togaði í þegar á leið. Áhuginn dofnaði reyndar líka í kjölfar þess að Hvalfjarðargöngin settu fulltrúa Samfylkingarinnar og annan spyrilinn út í móa um stund. Samfylkingin hefur í örvæntingu gripið það hálmstrá að boða kjósendum ríkisvæðingu Hvalfjarðarganga og færir fyrir því rök sem eru álíka haldbær og ef gatasigti væri notað til að bera í vatn á milli húsa. Samfylkingin vill sem sagt þjóðnýta einkafyrirtækið Spöl og skuldir þess, sem vissulega segir sögu um viðhorf gagnvart einkarekstri og merkilegri frumkvöðlastarfsemi þar að lútandi í samgöngumálum. Oddviti flokksins talaði um veggjaldið í göngunum sem skatt á Vestlendinga. Staðreyndin er hins vegar sú að fólk og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu standa undir helmingi af tekjum Spalar og fólk og fyrirtæki á Vesturlandi um þriðjungnum. Þessar upplýsingar birti Spölur á heimasíðu sinni í vetur og þar standa þær öllum til fróðleiks, líka frambjóðendum til Alþingis. Enn eru svo í fullu gildi upphaflegu rökin fyrir einkaframkvæmdinni: þeir sem vilja borga aki um göngin, hinir fari fyrir Hvalfjörð. Þetta er og verður val. Sjálfur er ég er áskrifandi og borga 250 krónur fyrir hverja ferð undir Hvalfjörð. So what? Spyrill Stöðvar tvö flækti sjálfan sig í spurningu til samgönguráðherrans, efnislega á þá leið hvort ríkið héldi í veggjaldið til að halda lífi í Speli! Ég skildi ekki spurninguna og ráðherrann ekki heldur.
Niðurstöður skoðanakönnunar í Norðvesturkjördæmi voru að miklu leyti í anda þess sem ætla mátti. Helst vakti athygli að frjálslyndir standa afar illa að vígi og Kristinn H. Gunnarsson ætti að fara að skyggnast eftir öðru starfi. Framsókn tapar fylgi og þingmanni en viðbrögð oddvita flokksins í þættinum bentu samt til þess að hann hefði allt eins búist við enn svartari tölum. Vinstri-grænir blússa, fá tvo menn kjörna og meira fylgi en Samfylkingin. Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi og missir Einar Odd fyrir borð en þá ber þess að geta að sagan öll er ekki sögð fyrr en uppbótarþingsætum hefur verið úthlutað. En einhver flokkur tapar manni þegar upp er staðið, þó ekki nema fyrir þær sakir að þingmönnum þessa kjördæmis fækkar um einn frá því í kosningunum 2003. Þarna verður því slagur.
Kosningaþátturinn var í heildina rós í hnappagat starfsmanna Stöðvar tvö.
Miðvikudagur, 28. mars 2007
Mega framkvæmdastjórar flokka semja um samráð í Öskjuhlíð en ekki grænmetissalar?
Til eru lög um samkeppni á markaði í landi hér og komin er dómahefð fyrir því hvað má og ekki má í þeim efnum. Fyrirtæki eru dæmd og sektuð um svimandi upphæðir fyrir ólöglegt samráð og forstjórar þeirra helst líka, ef nokkur tök eru á. Svo koma birtast framkvæmdastjórar stjórnmálaflokkanna skyndilega kjaftagleiðir á opinberum vettvangi og tilkynna að þeir hafi komist að samkomulagi um að hver flokkur megi auglýsa í fjölmiðlum fyrir 28 milljónir króna fyrir kosningarnar í vor! Þeir hafa meira að segja ráðið fyrirtæki úti í bæ til að fylgjast með að þetta samráð þeirra skili tilætluðum árangri! Ég hélt að kominn væri 1. apríl þegar ég las þessa frétt í Mogganum í gær en það var ekki svo. Og það er heldur ekki kominn 1. apríl í dag og þá les ég hamingjuþrungna forystugrein í sama blaði þar sem þar sem þetta furðulega samráð stjórnmálaflokkanna er lofað og prísað og tekið fram að vonandi sé þetta ,,fyrsta skrefið af mörgum sem flokkarnir eiga eftir að taka til þess að koma á heilbrigðari starfsháttum á vettvangi stjórnmálanna"! Fögnuður Moggans á rætur að rekja til laga um að breyta stjórnmálaflokkunum í ríkisútgerð og samráð framkvæmdastjóra flokkanna nú - sem forystumenn í fyrirtækjum hefðu réttilega verið settir í svartholið fyrir - er víst bara heilbrigt framhald af ríkisvæðingunni.
Fyrir það fyrsta: samráð stjórnmálaflokka um að takmarka auglýsingar er út í hött sem slíkt. Þeir sem ráða ríkjum á þessum bæjum hljóta að hafa dómgreind til að meta sjálfir hve mikla peninga þeir nota í auglýsingar hverju sinni, rétt eins og allir aðrir sem auglýsa. Í öðru lagi væri nú fróðlegt að vita hvernig flokksrekendur duttu niður á þessa mögnuðu tölu: 28 milljónir. Af hverju ekki 18 eða 38? Kom þá ekki líka til greina að vera alheilbrigður og halda alveg kjafti í auglýsingum fram yfir kosningar? Og svo í þriðja lagi, fróðlegt væri að vita hvaða viðmiðunarreglur auglýsingalögga stjórnmálaflokkanna hefur sett sér um eftirlitið. Er miðað við listaverð? Verða flokksrekendur að fara í hóp inn á auglýsingadeild Morgunblaðsins og RÚV til innkaupa svo löggan geti fylgst með að allir fái sama dílinn? Augljóst er nefnilega að sumir ná betri auglýsingasamningum en aðrir, meðal annars í gegnum persónuleg sambönd og slíkt. Svoleiðis nokkuð skapar eðlilega stórhættu á að viðkomandi nái sér í fleiri dálksentimetra og útsendingarmínútur fyrir sama prís. Taki þá auglýsingalöggan umsvifalaust í tauma.....
Kjarni málsins er auðvitað sá að þetta mál allt saman er bull og þvæla. Ef stjórnmálaflokkur vill ganga fram af sjálfum sér og landslýð í auglýsingagleði, þá það. Slíkt á að varða starfsöryggi viðkomandi framkvæmdastjóra/kosningastjóra og vera á kostnað flokkanna sjálfra en ekki ríkissjóðs. Rekstrarsamráð stjórnmálaflokka til kosninga er ekkert grín og því síður tilefni fagnaðarláta í forystugreinum dagblaða. Kannski mannvitsbrekkum í pólitík detti næst í hug að forstjórar fyrirtækjanna eigi líka að taka sig saman um hámarksútgjöld til auglýsinga til að ,,stuðla að heilbrigðara samfélagi" eins og Mogginn segir að löggjöf um ríkisútgerð stjórnmálaflokka geri. Þá geta menn rölt um Öskjuhlíð í hádeginu, sammælst um að losna við að minnsta kosti einn lið þessarar fjandans samkeppni, liðkað skrokkinn í leiðinni og snúið glaðir til vinnu á ný. Hallelúja.
Sunnudagur, 18. mars 2007
Menningarstemning í Dalvíkurkirkju
Mikil stund var það og eftirminnileg þegar fulltrúar Dalvíkurbyggðar og Sparisjóðs Svarfdæla skrifuðu formlega undir samkomulag þess efnis að bæjarfélagið tæki við fullbúnu menningarhúsi á Dalvík að gjöf frá Sparisjóðnum á næsta ári. Þetta gerðist núna á föstudagskvöldið í Dalvíkurkirkju, strax að loknum aðalfundi Sparisjóðs Svarfdæla í safnaðarheimilinu þar við hliðina. Ég brá mér norður til að upplifa sögulegt augnablik og sé hreint ekki eftir því! Meira að segja tók ég myndir frá aðalfundinum og menningarsamkomunni og þær getið þið séð hér í myndaalbúmi heimilisins.
Það var réttilega mælt hjá bæjarstjóranum, Svanfríði Jónasdóttur, að Sparisjóður Svarfdæla hefur ekki aðeins skrifað sögu byggðarlagsins síns heldur landsins alls með þeirri fordæmalausu ákvörðun að færa íbúunum heilt menningarhús að gjöf. Og stjórnendur og eigendur Sparisjóðsins gerðu betur en að gefa hús á föstudagskvöldið. Menningarsjóður Sparisjóðs Svarfdæla afhenti styrki til ýmissa héraðsþrifamála, alls 5 milljónir króna sem fóru til yfir 20 verkefna. Þar við bættust svo gjafir Sparisjóðsins til Urðakirkju, 3 milljónir króna, og til hákarlasafnsins í Hrísey, 7 milljónir króna. Þeir fjármunir duga til að ljúka framkvæmdum við kirkjuna og safnahúsið.
Við sem erum viðskiptavinir Sparisjóðs Svarfdæla göngum afskaplega uppréttir og ánægðir með okkur þessa dagana. Og gleðilegt var að heyra í máli Friðriks Friðrikssonar sparisjóðsstjóra á aðalfundinum á föstudagskvöld að viðskiptavinum Sparisjóðs Svarfdæla hefur fjölgað í kjölfar frétta af menningarhússgjöfinni. Einstaklingar og fyrirtæki líka hafa þannig sagt bönkunum sínum upp og fært viðskiptin sín til Dalvíkur í þakklætis- og virðingarskyni. Það hefði ég sjálfur líka gert, svo sannarlega, en hafði bara ekki tök á að sýna hug í verki á þennan veg, einfaldlega af því ég er nógu viti borinn til að hafa verið viðskiptavinur Sparisjóðs Svarfdæla alla tíð.....
Sparisjóðurinn hefur sýnt það í verki um árabil að hann hugsar vel um héraðið sitt og íbúa þess. Fróðlegt væri til dæmis að sjá lista yfir þau verkefni sem hann hefur komið nálægt undanfarna tvo áratugi eða svo. Ég er viss um að fæstir gera sér grein fyrir hve oft og víða Sparisjóður Svarfdæla hefur kemur við sögu og styrkir málefni af ýmsu tagi, ekki síst á sviði menningarmála, íþrótta og lista. Slíkan bakhjarl ætti byggðarlagið ekki ef þar væri útibú einhvers stóru bankanna en enginn sparisjóður. Um það þarf ekki einu sinni að ræða.
Sparisjóður Svarfdæla er vel rekinn, fjárfestir af góðu viti og skilar góðri afkomu. Það er að sjálfsögðu forsenda þess að geta sáldrað gjöfum allt um kring á hátíðarstundum og styrkt alls kyns verkefni og viðburði þar fyrir utan. Auðvitað þarf svo framsýna og færa stjórnendur til að allt gangi upp. Ekki er á neinn hallað að nefna Friðrik sparisjóðsstjóra sérstaklega til sögunnar. Það var mikið gæfuspor fyrir Sparisjóð Svarfdæla þegar Frissi var ráðinn æðsti stjórnandi þar á bæ forðum daga. Ég voga mér að fullyrða að án hans hefðu ekki skapast þau verðmæti sem gera Sparisjóðnum nú fært að vera svo rausnarlegur í gjöfum sínum að þjóðin stendur gapandi af undrun.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 18. mars 2007
Banalega Krónikunnar
Klausa í Fréttablaðinu í dag vakti sérstaka eftirtekt. Útgefendur vikuritsins Krónikunnar leituðu til DV um að taka við skuldum og samningum starfsfólks ef blaðið yrði lagt niður. Þetta er haft beint eftir ritstjóra DV en ritstjóri Krónikunnar segir hins vegar að blaðið verði gefið út áfram. Síðarnefndi ritstjórinn sagði efnislega ítrekað á opinberum vettvangi, í aðdraganda þess að farið var að gefa Krónikuna út, að markaðurinn beinlínis biði í óþreyju eftir svona riti. Ófullnægð eftirspurn af því tagi hafði að vísu alveg farið alveg fram hjá mér en það er nú ekki að marka. Verra er fyrir Krónikuna og aðstandendur hennar að þessi meinta markaðsspenna fór líka fram hjá þeim eftir að blaðið fór að koma út. Ég spyr afgreiðslufólk í hverfisverslunum og á bensínstöðinni minni af og til um hvernig hin og þessi blöð og tímarit gangi í sölu. Svörin í síðustu heimsókn á bensínstöðina eru táknræn. Þar hefur eitt eintak af fyrsta tölublaði Krónikunnar verið selt og síðan ekki söguna meir. Eitt einasta eintak kom þangað af öðru nýju riti, Sagan öll, og er þar enn óselt. Helgarblað DV hreyfist lítillega í viku hverri en nánast ekkert að öðru leyti. Séð og heyrt selst hins vegar nokkuð og Mannlíf hreyfist yfirleitt eitthvað. Ísafold fæst ekki á þessum stað. Fyrsta tölublað þess seldist hins vegar þokkalega í annarri verslun sem ég á viðskipti við í hverfinu en lítið eftir það. Markaðurinn virðist því mettur og kemur tæpast á óvart. Tímaritunum mun fækka og dagblöðunum líka. Og það gerist fyrr en síðar.
Sunnudagur, 18. mars 2007
Ríkisvæðingar- og skattheimtuáráttan
Lesefni helgarinnar hefur aðallega verið ríflega 150 blaðsíðna kver sem Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál og Bókafélagið Uglan sendu frá sér í fyrri viku: Þjóðareign þýðing og áhrif stjórnarskrárákvæðis um þjóðareign á auðlindum sjávar. Þarna fjalla nokkrir lögfræðingar og hagfræðingar um ýmsar spurningar sem blossuðu upp í þjóðmálaumræðunni á dögunum, eftir að framsóknarmenn í frústrasjón sinni fundu upp á því á flokksþinginu sínu að rétt væri að láta þingkosningarnar í vor snúast enn einn ganginn um eignarlega stöðu auðlinda sjávar. Textinn um auðlindamálið, sem stjórnarflokkarnir settu saman og hugðust samþykkja inn í sjálfa stjórnarskrána á næturfundi löggjafarsamkundunnar við Austurvöll, reyndist hins vegar mikið hnoð og ekki brúklegt. Tillagan fór því í pappírstætarann og farið hefur fé betra. Styrmir Morgunblaðsritstjóri og aðrir áhugamenn um þjóðnýta auðlindir til sjós og lands, og skattleggja duglega þá sem þær nýta, stynja hins vegar þungt. Það er eins og ríkisvæðingar- og skattheimtuáráttunni vaxi máttur í öllu pólitíska kerfinu. Meira að segja fara ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hamförum gegn eigendum lands og reyna að ríkisvæða sem mest af þinglýstum eignum þeirra frá fjöru til fjalla. Stjórnarandstaðan horfir á aðfarirnar með velþóknun og Framsóknarflokkurinn sömuleiðis í reynd.
Bókin góða er vítamín og elexír gegn ríkisvæðingarfárinu og varpað er þar skýru ljósi á hvaða áhrif skertur eignarréttur hefur á efnahagslega hagsæld. Áhangendur auðlindagjalds geta meira að segja fengið þarna á silfurfati upplýsingar um hve hátt gjald þeir þurfa að leggja á sjávarútveginn til að koma markaðsvirði eigin fjár fyrirtækja í atvinnugreininni niður í nánast ekki neitt: 5,60 krónur á þorskígildi miðað við stöðuna í lok árs 2005!
Föstudagur, 2. mars 2007
Þeim var nær
Þriðjudagur, 27. febrúar 2007
Heimamenn njóta góðrar afkomu
Alltaf er nú gaman að vera Svarfdælingur að ætt og uppruna en sjaldan eins og í dag! Mér er reyndar málið líka skylt sem viðskiptavini Sparisjóðs Svarfdæla alla tíð og er afskaplega stoltur af því sem fjármálastofnun heimilisins er að gera. Sparisjóðurinn er sýnilega afar vel rekinn og skilar góðri afkomu. Þess nýtur hann auðvitað sjálfur en þess njóta líka heimamenn í ríkum mæli eins og sannast hér og nú. Svo margar háar tölur fljúga um borð og bekki í ýmsu samhengi í fjölmiðlaumræðu dagsins að menn gera sér eftir til vill ekki grein fyrir því hve stór þessi gjöf er. Lítill fugl hvíslaði að mér, og verður ekki selt dýrara en það er keypt, að Kaupþing þyrfti til dæmis að snara út gjöf að verðmæti ca. 20 milljarða króna til að jafna höfðingsskap Sparisjóðs Svarfdæla! Hvað um það. Útspil sparisjóðsins míns er glæsilegt og ég læt hiklaust eftir mér að renna rauðvínstári í glas með matnum í kvöld og skála síðan til norðurs í tilefni dagsins....
![]() |
Sparisjóður Svarfdæla kostar byggingu menningarhúss á Dalvík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 2.3.2007 kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Álftaland 5
Nota bene
Myndirnar mínar á flickr.com
www.flickr.com
|
Myndaalbúm
Bloggvinir
- Arnljótur Bjarki Bergsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Júlíus Garðar Júlíusson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Killer Joe
- Helgi Már Barðason
- Axel Jóhann Axelsson
- Bjarni Harðarson
- Björn Jóhann Björnsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Eyþór Árnason
- gudni.is
- Guðmundur Örn Jónsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Júlíus Brjánsson
- Leikhópurinn Lotta
- Ólafur Ingólfsson
- Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
- P.Valdimar Guðjónsson
- Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir
- Rúnar Birgir Gíslason
- Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R)
- Vefritid
- Vilhjálmur Árnason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar