Fagleg vinnubrögð hjá National Geographic

Mikil búbót er það að hafa aðgang að Discovery og National Geographic þegar manni dettur í hug að horfa á sjónvarp en dagskrá hinna íslensku stöðva býður ekki upp á annað en skipulögð leiðindi. Ekki síst á það nú við um föstudags- og laugardagskvöld. Þar virðast stjórnendur sjónvarpsfyrirtækja vorra hafa samráð um að fólk sé fífl og haga framboði sínu í samræmi við það. Á Discovery og National Geographic er hins vegar oftast að finna úrvalsefni og nærtækt dæmi um það var á hinni síðarnefndu síðdegis í gær þegar frumsýnd var mynd um Kárahnjúkavirkjun: Rock Eaters of Iceland í þáttaseríu um risamannvirki.

Ég beið reyndar spenntur eftir að sjá þessa mynd af ákveðnum ástæðum því í ágúst í fyrra hitti ég ástralskan framleiðanda hennar, Rob Cerr, austur við Kárahnjúka og var með honum og aðstoðarmanni hans tvo fyrstu dagana á flakki um virkjunarsvæðið. Það var á við heilt háskólanámskeið í fjölmiðlun að kynnast vinnubrögðum Cerr í upphafi Íslandsdvalarinnar, sem á endanum varð eitthvað á fimmtu viku. Myndin hans er líka í samræmi við það, faglega unnin í alla staði og afskaplega fróðleg og skemmtileg á að horfa. Aftur og aftur stóð maður sig að því að spyrja sjálfan sig í hljóði: Af hverju sýndu íslenskar sjónvarpsstöðvar því ekki áhuga að gera mynd um Kárahnjúkavirkjun út frá sömu forsendum og National Geographic? Er ekki umhugsunarefni að bandarísk sjónvarpsstöð telji þessa framkvæmd svo merkilega í verkfræðilegum og tæknilegum skilningi að hún hafi hér starfsmenn vikum saman til að kynna sér málið niður í kjölinn en íslenskar sjónvarpsstöðvar láti duga að fleyta af yfirborðinu? Í safni National Geographic er nú með öðrum orðum til hellingur til af myndefni fyrir sjónvarp af ýmsum merkilegum verkþáttum Kárahnjúkavirkjunar sem finnst ekki svo mikið sem sekúndubrot af í spólusöfnum íslenskra sjónvarpsstöðva. Nú er of seint að gera neitt til að redda málum því framkvæmdunum er að ljúka. Þáttagerðarmenn í íslensku sjónvarpi geta hins vegar huggað sig við það í framtíðinni að í New York er til álitlegt safn heimildakvikmynda um Kárahnjúkavirkjun frá Íslandsheimsókn Robs Kerr. Þar er meira að segja till siðs að varðveita efnið en henda ekki.

Svo öllu sé nú til skila haldið: Íslenskir fjölmiðlar, þar á meðal sjónvarpsstöðvarnar, hafa verið duglegir að fjalla um Kárahnjúkavirkjun sem umdeilda framkvæmd og hluta af samfélagsumræðu. Auðvitað hafa þeir líka fjallað um virkjunina sem slíka, skárra væri nú, og gert þar margt vel. En ég áttaði mig fljótt á því í ferðum með Rob Kerr um svæðið í fyrrasumar hvað vantaði og fékk svo staðfestingu á því þegar myndin hans var frumsýnd í gær. Hann hafði fyrst og fremst áhuga á tæknilegum og verkfræðilegum vandamálum sem menn stæðu frammi fyrir og hvernig menn leystu margvísleg risavaxin verkefni þar að lútandi. Þessa hlið málsins hafa íslenskir fjölmiðlar vanrækt, allir með tölu. Ég nefni bara eitt einasta dæmi: Heilmikið var að vonum fjallað hér í fréttum og þáttum um skemmdir í stíflu í Brasilíu í aðdraganda þess að byrjað var að safna vatni í Hálslón í september. Enginn einasti fjölmiðlamaður hérlendis gerði samt það sem hlaut að liggja beint við, að skreppa að Kárahnjúkum og setjast að sérfræðingunum þar til að fara ofan í sauma á þvi sem gerðist í Brasilíu og hvaða lærdóma mætti draga varðandi Kárahnjúkastíflu. Rob Kerr hafði sett sig mjög vel inn í atburðina í Brasilíu og settur var upp fundur um málið strax á fyrsta degi dvalar hans við Kárahnjúka. Það var eftirminnileg samkoma og alveg sérlega upplýsandi um fjöldamarga tæknilega hluti. Enginn íslenskur fjölmiðlamaður sá hins vegar ástæðu til setja stíflugerðarmenn við Kárahnjúka svona á grill í tilefni af óförum kollega þeirra í Brasilíu. Það hefði nú samt verið ómaksins virði, ekki síst til að reyna að skilja síðar af hverju steypta kápan á Kárahnjúkastíflu hefur ekki haggast og sjálf stíflan lekur nánast ekki neitt.

Ýmsir Íslendingar hafa nefnilega áhuga á umfjöllun um tæknileg efni líka (og hafa nú ekki allir aðgang að National Geographic!). Það er hið besta mál að eiga myndarlegt safn mynda til framtíðar af Ómari að sigla um Hálslón, af andstæðingum framkvæmdanna með fána uppi á stíflunni eða af krökkum að kasta grjóti í vinnuvélar verktaka við Kárahnjúka og príla upp í byggingarkrana á álverslóðinni við Reyðarfjörð. En Kárahnjúkavirkjun er nefnilega líka stórmerkilegt verkfræðilegt fyrirbæri sem okkar eigin fjölmiðlar hafa annað hvort valið að horfa fram hjá eða ekki fattað. Þá er nú gott að eiga hauk í horni sem er National Geographic. Myndin verður endursýnd þar 1. og 2. mars!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um bloggið

Álftaland 5

Höfundur

Atli Rúnar Halldórsson
Atli Rúnar Halldórsson

Nota bene

Myndirnar mínar á flickr.com

www.flickr.com
Atli  Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset Atli Rúnar Halldórsson's Fiskidagur '09 - súpukvöld photoset

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 210201

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband